Blómkálssúpa með camembertsmurosti og sweet chili

Fyrir mörgum árum kom Jakob þeirri hefð á að það væri súpa í matinn einu sinni í viku. Sú hefð hélt í fleiri ár og ég held að allir hafi verið ánægðir með það fyrirkomulag. Mér þykja súpur svo góðar og sérlega notalegur matur þegar fer að kólna úti. Með súpunum vil ég helst hafa heimabakað brauð og gott smjör (þeytt smjör er í uppáhaldi).

Ég setti á sínum tíma hingað inn uppskrift af blómkálssúpu sem ég fékk hjá vinkonu minni. Í þeirri uppskrift er meðal annars sveppasmurostur en ég prófaði um daginn að skipta honum út fyrir camembertsmurost og breytti aðeins hlutföllunum í leiðinni. Súpan varð æðisleg! Ég bar hana fram með nýbökuðu Gló-brauði og við ætluðum ekki að geta hætt að borða. Dásamleg máltíð á haustkvöldi.

Blómkálssúpa með camembertsmurosti og sweet chili (uppskrift fyrir 5)

 • 10 dl vatn
 • 2  kjúklingateningar
 • 1 dós camembertsmurostur
 • um 700 g blómkál
 • 1-2 msk sweet chili sósa
 • nokkrir dropar hunang
 • ½ – 1 tsk balsamik edik
 • salt og pipar

Hitið saman vatn og kjúklingateninga í rúmgóðum potti. Skolið blómkálið og brytjið það niður. Hrærið smurostinum saman við soðið. Bætið blómkálinu út í og sjóðið þar til það er orðið meyrt. Bætið sweet chili sósu , hunangi og balsamik ediki út í og hrærið. Smakkið til með salti og pipar.

Blómkálssúpa með beikoni

Blómkálssúpa með beikoni Það virðist við hæfi að kveikja á kertum og hlýja sér við eldhúsborðið yfir góðri súpu í þessu fárviðri. Reyna að gera það besta úr stöðunni og hafa það notalegt heima fyrir með því að elda mat, horfa á góðar bíómyndir og taka í spil. Blómkálssúpa með beikoni Krakkarnir fá ekki nóg af blómkálssúpu (uppáhalds uppskriftin er hér) og ég elda hana ansi oft, enda bæði ódýr og góð máltíð. Mér þykir þó alltaf svo spennandi að prófa nýjungar og þegar ég rakst á þessa uppskrift á sænsku matarbloggi var ég fljót að setja hana á matseðilinn. Blómkálssúpa með beikoni Verður ekki allt aðeins betra með beikoni? Ég er farin að hallast að því. Mér þótti beikonið lyfta soðna fiskinum upp á hærra plan (uppskrift hér) og ekki var það síðra með blómkálssúpunni. Súpan ein og sér er líka sérlega bragðgóð. Dásamlega góð máltíð sem vert er að prófa. Blómkálssúpa með beikoni

 • 1 blómkálshaus
 • 1 lítill laukur
 • 1 hvítlauksrif
 • 1 grænmetisteningur
 • 3 dl vatn
 • 3 dl rjómi
 • 2 dl sýrður rjómi
 • salt og pipar
 • beikon

Skolið og skerið blómkálið í bita. Afhýðið og fínhakkið lauk og hvítlauk. Hitið ólívuolíu við miðlungshita í rúmgóðum potti og steikið lauk og hvítlauk þar til laukurinn er orðinn mjúkur og glær. Hellið vatni, rjóma, sýrðum rjóma, grænmetisteningi og blómkáli í pottinn og látið suðuna koma upp. Látið sjóða þar til blómkálið er orðið mjúkt. Maukið súpuna með töfrasprota þar til hún er slétt (má sleppa). Smakkið til með salti og pipar.

Skerið beikonið í bita og steikið þar til það er stökkt. Berið beikonið fram með súpunni.