Ég er alltaf á höttunum eftir einföldum og góðum fiskréttum og í gær hitti ég í mark þegar ég bauð upp á fisk með eggjasósu og beikoni. Þessi réttur var svo mikið betri en ég þorði að vona og féll vel í kramið hjá fjölskyldunni. Þau satt að segja kolféllu fyrir honum og það var í alvöru barist um síðustu bitana. Svo góður var hann.
Ef þú ætlar að elda réttinn þá skaltu alls ekki sleppa beikoninu. Passaðu frekar að hafa nóg beikon því það fer æðislega vel með fiskinum og sósunni. Beikonið kláraðist á undan fiskinum hjá okkur svo næst mun ég hafa meira af því. Svo æðislega gott.
Fiskur:
- þorsk- eða ýsubitar
- fiskikraftur (teningur)
- salt
- pipar
Eggjasósa:
- 2 harðsoðin egg
- 3 msk smjör
- 1½ msk hveiti
- 3 dl mjólk
- 1 dl rjómi
- salt
- pipar
- steinselja eða dill (má sleppa)
- beikon
Skolið og þurrkið fiskbitana og leggið þá á fat. Saltið og piprið vel og leyfið að standa um stund.
Harðsjóðið eggin og hakkið þau fínt (mér þykir gott að skera þau bæði langsum og þversum í eggjaskera). Bræðið smjör í potti og hrærið hveitinu saman við. Hrærið mjólk saman við í smáum skömmtum og þar á eftir rjóma. Látið sósuna sjóða við vægan hita um stund og smakkið til með salti og pipar. Setjið hökkuðu eggin út í sósuna.
Setjið vatn og fisktening í pott og hitið þar til fer að sjóða. Setjið fiskbitana út í sjóðandi vatnið og setjið lokið strax á pottinn. Takið pottinn af hitanum og látið fiskinn liggja í heitu vatninu í ca 10 mínútur.
Steikið beikon og berið það fram með fiskinum, sósunni og kartöflum.
Hvað eru þið mörg ? Þeas hvað dugir þessi uppskrift fyrir marga ? 🙂
Við erum fimm og það var meira en nóg af sósunni fyrir okkur. Ef þið eruð fleiri þá hefur þú bara nóg af fiskinum og beikoninu. Ég myndi trúa að sósan dugi fyrir 6-8.
Takk takk 🙂
Ótrúlega gott allir sáttir í fjölskyldunni 😉