Mér þykir alltaf jafn skrítið hvað helgarnar, og vikurnar ef út í það er farið, líða hratt. Áður en maður veit af er vikan liðin og ný tekin við. Ég kvarta ekki, ég kann ekkert síður við virku dagana en helgarnar. Rútínan á vel við mig.
Ég er vön að skrifa skrifa lista yfir það sem ég þarf að gera og muna. Mér finnst ég þurfa þess til að fá yfirsýn yfir hlutina og til að gleyma þeim ekki. Til að plana og skipulegg vikurnar. Þessa dagana er jólagjafalistinn sá sem fær mesta athygli, ég skrifa niður þegar mér dettur sniðug jólagjöf í hug. Og svo skrifa ég alltaf matseðil fyrir hverja viku. Það er eflaust uppáhalds listinn minn og sá sem ég legg mestu vinnuna í. Þá fer ég í gegnum það sem ég á í ísskápnum og frystinum og skoða síðan uppskriftir út frá því. Þetta hef ég gert í fjölda mörg ár og finnst það bæði spara tíma og pening að gera stórinnkaup einu sinni í viku.
Mér datt í hug að deila með ykkur hugmynd að vikumatseðli. Ég vona síðan að þið eigið góða viku framundan.
Mánudagur: Fiskur með beikoni og eggjasósu. Ég byrja vikuna yfirleitt á fiski og þessi fiskréttur er bæði einfaldur og góður. Ekki skemmir fyrir hvað krakkarnir eru hrifin af honum.
Þriðjudagur: Pastagratin fellur yfirleitt í góðan jarðveg hér heima. Uppskriftin er drjúg og mér þykir gott að taka afganginn með mér í nesti daginn eftir.
Miðvikudagur: Blómkálssúpa. Ég hef oft súpur í matinn á miðvikudögum. Með súpunni ber ég ýmist fram heimabakað brauð eða baguette sem ég kaupi frosin í matvörubúðinni og hita upp rétt áður en ég ber súpuna framm.
Fimmtudagur: Þunnbrauðsvefja með pylsum og kartöflumús. Á fimmtudögum gerum við stórhreingerningu hér heima fyrir helgina og þá höfum við oftast eitthvað fljótlegt í matinn.
Föstudagur: Mexíkópizza. Það hefur engin pizza náð að slá þessa út. Ég hvet ykkur til að prófa!
Algjör snilld, reyni einmitt líka að gera alltaf vikumatseðil (tekst ekki alltaf ehemm),,mjög þægilegt 🙂 Fékk að nota hluta af vikumatseðlinum þínum núna 🙂 Takk fyrir frábæra síðu og geggjaðar uppskriftir 🙂
Takk fyrir að koma með hugmyndir að vikulista. Ég reyni einnig að ákveða matseðilinn fyrir vikuna og vil gjarnan gera ein stórkaup í vikunni. Ég mun alveg örugglega prufa eitthvað af þessum uppskriftum á næstunni 🙂
Ég er einnig ein af þeim sem geri yfirleitt vikumatseðil, en stundum er maður alveg tómur og þá fer ég inn á bloggið þitt og fæ hugmyndir, frábært að fá hér svona vikumatseðil í einu lagi, ég mun pottþétt nota eitthvað af þessum hugmyndum ef ekki bara allt 🙂 Takk fyrir frábærar uppskriftir, þær eru allar undantekningalaust góðar 🙂
Sæl og blessuð. Mig langaði að spyrja þig um eina af vöffluuppskriftunum þínum, þessa hér með sódavatninu: https://ljufmeti.com/2012/07/13/stokkar-vofflur/
Mig langar svo að prófa hana fyrir afmælisveislu en hef ekki tíma til að standa í vöfflubakstri akkúrat þann dag. Veistu hvort hægt væri að gera þær, frysta og svo kannski rista þær nokkrum dögum síðar?
Sæl Valgerður.
Ég hef aldrei prófað að frysta vöfflur og þori því ekki að svara til um hvernig það kemur út. Ég myndi eflaust rista þær á lágum hita í brauðristinni eftir að hafa fryst þær. Þú mátt gjarnan láta mig vita hvernig heppnast ef þú prófar 🙂
Kveðja,
Svava.
Getur teki mig af listanum hj r essu e. mail.
Kr kveja og takk fyrir allar gur uppskriftinar.
Kveja lf