Mexíkó pizza

Fyrir tæpum 10 árum pantaði ég mér pizzaofn frá Ítalíu. Ofninn pantaði ég á netinu og beið svo lengi eftir honum að ég var nánast búin að gefa upp vonina þegar það loksins kom tilkynning frá póstinum. Síðan ég eignaðist ofninn hef ég gert pizzur nánast í hverri viku. Ég nota alltaf þessa uppskrift að pizzabotninum og geri oftast eina og hálfa uppskrift. Það dugar í fjórar til fimm 12″ pizzur.

Þetta er núna uppáhalds pizzan okkar Ögga. Krakkarnir vilja alltaf sama áleggið á pizzurnar sínar en við hjúin erum alltaf að prófa eitthvað nýtt. Lengi vel settum við hráskinku og sveppi á pizzuna og þegar hún kom úr ofninum þá settum við ruccola salat yfir hana. Á tímabili var humarpizza málið og einhverntímann settum við hefbundið álegg og brutum svo egg yfir pizzuna áður en hún fór í ofninn og þá spældist eggið í ofninum. En núna hefur mexíkó pizzan skotið hinum ref fyrir rass og við lítum ekki við öðrum. Ég held að þessi sé komin til að vera. Hún er algjört æði og við fáum ekki nóg af henni. Þið bara verðið að prófa.

Pizzabotn

  • 1 tsk sykur
  • 2 msk matarolía
  • 2 dl vatn (37°heitt)
  • 1 tsk ger
  • 1/2 tsk salt
  • 400 gr hveiti

Hráefnið er sett í skál í þessari röð og hnoðað vel saman. Farið varlega í hveitið, ég mæli það aldrei heldur set það smá saman út í þar til deigið sleppir skálinni. Leyfið deiginu að hefast á meðan áleggið er tekið til og ofninn hitaður.

Álegg

  • salsasósa
  • mexíkóostur, rifinn
  • pepperóní (kjarnafæði)
  • rauðlaukur
  • maísbaunir
  • rjómaostur
  • mozzarellaostur, rifinn
  • sýrður rjómi
  • nachos (okkur finnst svart Doritos best)

Hitið ofninn í 220°. Þegar deigið hefur fengið að hefast aðeins þá er því skipt niður í eins marga bita og þú ætlar að hafa pizzurnar.  Fletjið deigið út, setjið salsasósu yfir botnin og rífið mexíkóostinn yfir. Leggið pepperóni, rauðlauk og maísbaunir yfir. Setjið smá klípur af rjómaosti vítt og dreift yfir pizzuna og endið á að setja rifinn mozzarellaost yfir herlegheitin. Bakið í ofninum þar til osturinn er bráðinn og komin fallegur litur á pizzuna. Takið pizzuna úr ofninum, setjið sýrðan rjóma og gróft mulið nachos yfir pizzuna.

16 athugasemdir á “Mexíkó pizza

  1. Ég var búin að prófa þessa eftir uppskrift frá þér, hrikalega góð! Og pizzagrindurnar sem þú bentir mér á úr Íkea eru að þrælvirka! 🙂

  2. Komdu sæl Svava! Ég bakaði sítrónu – margengs tertuna. Hún var algjört sælgæti. Marengsinn minn var þó aðeins of mjúkur (og hún bráðnaði í munni!) … en kanntu eitthvað ráð til að gera hann aðeins stökkan? Takk fyrir góða síðu, Aldís Guðmundsdóttir

    1. Sæl Aldís.
      Ég myndi prófa að hafa hann lengur í ofninum og jafnvel að hækka aðeins hitann. Hann var alveg stökkur hjá mér en mýktist svo eftir því sem rjóminn var lengur á. Ofnar eru svo misjafnir, það er t.d. smá blástur á baksturprógramminu í mínum sem getur hafa haft eitthvað að segja.
      Bestu kveðjur,
      Svava.

  3. Þetta er virkilega skemmtilegt matarblogg hjá þér og allt mjög girnilegt! Ég prófaði þessa pizzu um daginn en hún kom mikið á óvart og var mjög góð!

    1. Pizzaofninn minn er frá Gferrari og heitir Pizza Express Napoli. Ég pantaði hann á netinu en held að Einar Farestveit hafi selt hann á sínum tíma. Ég finn hann þó ekki á heimasíðunni hjá þeim.

      1. takk fyrir þetta, ég keypti mér Bestron pizzaofn í Elko – þvílík snilld! Allir á heimilinu eru sammála um að þetta séu bestu pizzur sem þau hafa smakkað 🙂 Svo miklu betra en úr ofninum 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s