Mexíkósk kjúklingasúpa

Ég elska mexíkóskar kjúklingasúpur og hef prófað ótal uppskriftir en þessi stendur alltaf upp úr. Uppskriftin kemur úr gömlu Bistró-blaði og er bæði einföld og fljótleg. Mér finnst sjaldan hægt að fylgja súpuuppskriftum nákvæmlega heldur alltaf þurfa að smakka þær til, eins og með flestan annan mat. Með þessa uppskrift finnst mér ég oftast þurfa að bæta við meiri krafti eða chili sósu. Ég set líka oft smá karrý út í súpuna og finnst það gefa mjög gott bragð.

Mexíkósk kjúklingasúpa

 • 2 kjúklingabringur
 • salt
 • 1/2 blaðlaukur, smátt saxaður
 • 1 rauð paprika, smátt söxuð
 • 1 msk ólívuolía
 • 1 líter vatn
 • 1 kjúklingateningur
 • 1 dós saxaðir tómatar
 • 4 msk chili-sósa
 • 3 msk tómatþykkni (tomato paste)
 • 100 gr rjómaostur
 • nachos-flögur
 • rifinn ostur
 • sýrður rjómi

Byrjaðu á að sjóða kjúklingabringurnar í vatni með smá salti þar til þær eru eldaðar í gegn. Það tekur ca 8 mínútur. Taktu þær úr vatninu og skerðu í litla bita.

Steiktu blaðlaukinn og paprikuna í ólífuolíunni við miðlungs hita. Hitaðu vatnið í potti og leystu kjúklingateninginn upp í vatninu. Bættu grænmetinu út í kjúklingasoðið ásamt hökkuðum tómötum, chili-sósu og tómatmauki og leyfðu súpunni að malla við vægan hita í 10 mínútur (ég einfalda þetta oftast með því að steikja grænmetið í súpupottinum og hella svo vatninu beint yfir grænmetið og spara mér þar með uppvaskið á pönnunni).

Bættu rjómaostinum í súpuna í litlum skömmtum og láttu hana malla aðeins á milli svo að rjómaosturinn leysist upp. Bættu að lokum kjúklingabitunum út í.

Súpuna ber ég alltaf fram með sýrðum rjóma, rifnum osti (ferskrifinn cheddar er í uppáhaldi þessa dagana) og nachos.

Mexíkó pizza

Fyrir tæpum 10 árum pantaði ég mér pizzaofn frá Ítalíu. Ofninn pantaði ég á netinu og beið svo lengi eftir honum að ég var nánast búin að gefa upp vonina þegar það loksins kom tilkynning frá póstinum. Síðan ég eignaðist ofninn hef ég gert pizzur nánast í hverri viku. Ég nota alltaf þessa uppskrift að pizzabotninum og geri oftast eina og hálfa uppskrift. Það dugar í fjórar til fimm 12″ pizzur.

Þetta er núna uppáhalds pizzan okkar Ögga. Krakkarnir vilja alltaf sama áleggið á pizzurnar sínar en við hjúin erum alltaf að prófa eitthvað nýtt. Lengi vel settum við hráskinku og sveppi á pizzuna og þegar hún kom úr ofninum þá settum við ruccola salat yfir hana. Á tímabili var humarpizza málið og einhverntímann settum við hefbundið álegg og brutum svo egg yfir pizzuna áður en hún fór í ofninn og þá spældist eggið í ofninum. En núna hefur mexíkó pizzan skotið hinum ref fyrir rass og við lítum ekki við öðrum. Ég held að þessi sé komin til að vera. Hún er algjört æði og við fáum ekki nóg af henni. Þið bara verðið að prófa.

Pizzabotn

 • 1 tsk sykur
 • 2 msk matarolía
 • 2 dl vatn (37°heitt)
 • 1 tsk ger
 • 1/2 tsk salt
 • 400 gr hveiti

Hráefnið er sett í skál í þessari röð og hnoðað vel saman. Farið varlega í hveitið, ég mæli það aldrei heldur set það smá saman út í þar til deigið sleppir skálinni. Leyfið deiginu að hefast á meðan áleggið er tekið til og ofninn hitaður.

Álegg

 • salsasósa
 • mexíkóostur, rifinn
 • pepperóní (kjarnafæði)
 • rauðlaukur
 • maísbaunir
 • rjómaostur
 • mozzarellaostur, rifinn
 • sýrður rjómi
 • nachos (okkur finnst svart Doritos best)

Hitið ofninn í 220°. Þegar deigið hefur fengið að hefast aðeins þá er því skipt niður í eins marga bita og þú ætlar að hafa pizzurnar.  Fletjið deigið út, setjið salsasósu yfir botnin og rífið mexíkóostinn yfir. Leggið pepperóni, rauðlauk og maísbaunir yfir. Setjið smá klípur af rjómaosti vítt og dreift yfir pizzuna og endið á að setja rifinn mozzarellaost yfir herlegheitin. Bakið í ofninum þar til osturinn er bráðinn og komin fallegur litur á pizzuna. Takið pizzuna úr ofninum, setjið sýrðan rjóma og gróft mulið nachos yfir pizzuna.