Pizzu-ídýfa

Í kvöld vorum við svo spennt að sjá handboltaleikinn kl. 18.30 að ég ákvað að hafa eitthvað fljótlegt sem hægt væri að borða fyrir framan sjónvarpið. Þá mundi ég eftir þessari uppskrift sem ég hafði séð á Pinterest og hef lúmskt verið að bíða eftir tækifæri til að gera.

Þessi pizzu-ídýfa er ofboðslega fljótleg að gera og okkur fannst hún alveg svakalega góð. Þetta er matur sem er ekki hægt að hætta að borða og við borðuðum þar til við sprungum. Ég bar ídýfuna fram með nýbökuðu baguette og var með þrjú niðurskorin baguette. Ég myndi segja að það passi fyrir 4-5.

Pizza-ídýfa

 • 115 gr rjómaostur við stofuhita
 • 1/4 bolli sýrður rjómi
 • 1/4 bolli majónes
 • 1/2 bolli rifinn mozzarella ostur
 • 1/4 bolli rifinn parmesan
 • 1 bolli pizza sósa
 • 1/2 bolli rifinn mozzarella
 • 1/4 bolli rifinn parmesan
 • ca 50 gr pepperóní, skorið í smáa bita
 • 2 msk græn paprika, smátt skorin
 • 2 msk svartar ólífur, sneiddar í bita

Hitið ofninn í 180°. Blandið rjómaosti, sýrðum rjóma, majónesi, mozzarella og parmesan saman og breiðið yfir botn á eldföstu móti. Breiðið pizza-sósuna yfir og dreifið mozzarella ostinum, parmesan, pepperoni, grænu paprikunni og ólívunum yfir. Hitið í ofninum í ca 20 mínútur eða þar til það sýður meðfram kanntinum og osturinn er bráðinn og kominn með fallegan lit. Berið fram með nýbökuðu baguette.

Mexíkó pizza

Fyrir tæpum 10 árum pantaði ég mér pizzaofn frá Ítalíu. Ofninn pantaði ég á netinu og beið svo lengi eftir honum að ég var nánast búin að gefa upp vonina þegar það loksins kom tilkynning frá póstinum. Síðan ég eignaðist ofninn hef ég gert pizzur nánast í hverri viku. Ég nota alltaf þessa uppskrift að pizzabotninum og geri oftast eina og hálfa uppskrift. Það dugar í fjórar til fimm 12″ pizzur.

Þetta er núna uppáhalds pizzan okkar Ögga. Krakkarnir vilja alltaf sama áleggið á pizzurnar sínar en við hjúin erum alltaf að prófa eitthvað nýtt. Lengi vel settum við hráskinku og sveppi á pizzuna og þegar hún kom úr ofninum þá settum við ruccola salat yfir hana. Á tímabili var humarpizza málið og einhverntímann settum við hefbundið álegg og brutum svo egg yfir pizzuna áður en hún fór í ofninn og þá spældist eggið í ofninum. En núna hefur mexíkó pizzan skotið hinum ref fyrir rass og við lítum ekki við öðrum. Ég held að þessi sé komin til að vera. Hún er algjört æði og við fáum ekki nóg af henni. Þið bara verðið að prófa.

Pizzabotn

 • 1 tsk sykur
 • 2 msk matarolía
 • 2 dl vatn (37°heitt)
 • 1 tsk ger
 • 1/2 tsk salt
 • 400 gr hveiti

Hráefnið er sett í skál í þessari röð og hnoðað vel saman. Farið varlega í hveitið, ég mæli það aldrei heldur set það smá saman út í þar til deigið sleppir skálinni. Leyfið deiginu að hefast á meðan áleggið er tekið til og ofninn hitaður.

Álegg

 • salsasósa
 • mexíkóostur, rifinn
 • pepperóní (kjarnafæði)
 • rauðlaukur
 • maísbaunir
 • rjómaostur
 • mozzarellaostur, rifinn
 • sýrður rjómi
 • nachos (okkur finnst svart Doritos best)

Hitið ofninn í 220°. Þegar deigið hefur fengið að hefast aðeins þá er því skipt niður í eins marga bita og þú ætlar að hafa pizzurnar.  Fletjið deigið út, setjið salsasósu yfir botnin og rífið mexíkóostinn yfir. Leggið pepperóni, rauðlauk og maísbaunir yfir. Setjið smá klípur af rjómaosti vítt og dreift yfir pizzuna og endið á að setja rifinn mozzarellaost yfir herlegheitin. Bakið í ofninum þar til osturinn er bráðinn og komin fallegur litur á pizzuna. Takið pizzuna úr ofninum, setjið sýrðan rjóma og gróft mulið nachos yfir pizzuna.