Pizza sem klikkar aldrei

Pizza sem klikkar aldrei

Það er hefð hjá mörgum að hafa pizzur á föstudagskvöldum og við höfum ekki verið nein undantekning. Fyrir mörgum árum pantaði ég mér pizzaofn frá Ítalíu og hann hefur nánast verið logandi síðan hann kom í hús. Ég elska heimagerðar pizzur og fæ seint leið á þeim.

Pizza sem klikkar aldrei

Pizzurnar hjá okkur hafa tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina en botninn hefur þó alltaf verið sá sami (þú finnur uppskriftina að honum hér). Það gerðist síðan um daginn að ég datt niður á uppskrift sem var lofuð á internetinu sem sú besta og auðvitað réð ég varla við mig af spennu að prófa hana. Eftir að hafa fylgt þessari uppskrift nokkrum sinnum verð ég að taka undir hólið því hún er stórkostlega góð.

Það er gott að hafa í huga þegar verið er að gera deigið að hafa vatnið heitt, ekki sjóðandi og ekki kalt, heldur heitt eins og baðvatn fyrir barn. Notalega heitt. Síðan er brauðhveiti (t.d. þetta í bláu pökkunum frá Kornax) betra í brauðbakstur en venjulegt hveiti. Að lokum þykir mér skipta máli að hnoða deigið vel. Ég nota hnoðarann á Kitchen aid hrærivélinni og læt hann hnoða degið á hraðri stillingu í 6 mínútur (eins og uppskriftin segir til um).

Pizza

 • 1 bolli heitt vatn
 • 2 + 1/4 tsk þurrger
 • 1 msk hunang (eða sykur)
 • 2 tsk salt
 • 2 msk olía
 • 3 bollar brauðhveiti (það gæti þurft aðeins minna eða meira)

Hrærið ger og hunang út í heitt vatn í stórri skál (helst hrærivélaskál).

Pizza sem klikkar aldrei

Breiðið viskastykki yfir skálina og látið blönduna standa í 5-10 mínútur eða þar til hún byrjar að freyða.

Pizza sem klikkar aldrei

Bætið salti, olíu og helmingnum af hveitinu saman við og hrærið saman. Þegar búið er að vinna hveitið saman við vökvann er afganginum af því bætt í deigið í smáum skömmtum þar til réttri áferð er náð. Deigið á að vera aðeins klístrað en þó þannig að þegar þú snertir það þá klístrist það ekki við hendina.

Pizza sem klikkar aldrei

Þegar deigið hefur náð því stigi er það hnoðað á hraðri stillingu í 6 mínútur. Deigið á þá að vera mjúkt og gott að vinna með það. Skálin á að vera hrein, þ.e. ekkert deig fast við hana.

Pizza sem klikkar aldrei

Takið deigið úr og mótið kúlu úr því. Smyrjið skálina með olíu (til að deigið þorni ekki) og látið deigið aftur í hana. Setjið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í 1-2 klst. (mér hefur þótt 1 klst duga).

Pizza sem klikkar aldreiPizza sem klikkar aldrei

Fletjið deigið út, smyrjið pizzusósu yfir, stráið osti yfir og endið á því áleggi sem hugurinn girnist.

Pizza sem klikkar aldreiPizza sem klikkar aldrei

28 athugasemdir á “Pizza sem klikkar aldrei

 1. Þetta er frábært Svava, ég hef lengi leitað að hinu fullkomna pizzudeigi fyrir pizzuofninn okkar! Ég hlakka til að prófa þessa! Eftir að þú bentir mér á þessar pizzugrindur úr Íkea sem passa í pizzuofninn hef ég notað hann mikið meira en áður. Hvaða pizzusósa finnst þér best að nota?

 2. Þú ert algjör snillingur! Mér finnst svo gaman að fylgjast með þér, allar uppskriftir sem ég hef prufað frá þér hafa slegið í gegn heima hjá mér.
  Maðurinn minn er heima í fæðingarofi og sér að mestu um heimilið og eldamennskuna á meðan. Ég lét hann fá slóðina á síðuna hjá þér og sagði honum að allt sem hann finndi á þessari síðu gæti ekki klikkað. Hann eldaði einmitt kjöthleifinn frá þér í gær og mikið ofboðslega var hann góður 🙂 Hlakka rosalega til að prufa þess uppskrift. Takk fyrir okkur!

 3. Það hefast ekki hjá mér 😦 hverju er ég að klúðra? Þetta gerist mjög gjarnan hjá mér. Ég er að passa að hafa ekki vatnið heitara líkamshitann minn … Er það kannski eitthvað?

 4. Skemmtilegt að lesa bloggið (og eldhússögur) en mig langar að spyrja hvers vegna þið notið pizzagrindina í pizzaofninn?

  1. Þóra, það eru aðallega tvær ástæður fyrir því. Annars vegar og aðallalega vegna þess að botninn er gjarn á að brenna í svona pizzuofnum en ef notuðu grind þá gerist það ekki. Hins vegar gerir grindin það að verkum að auðveldara er að vinna með pizzurnar og flytja þær til og frá ofninum. Ég notaði minn ofn ekki mikið fyrr en Svava benti mér á þessar grindur því mér fannst botninn alltaf brenna. Ég nota líka mikið mexíkóskar burritos pönnukökur. Set á þær pizzusósu, skinku eða pepperóni og rifinn ost, legg þær á svona grind og hita í pizzuofninum. Fullkominn millibiti fyrir krakkana sem er tilbúinn á nokkrum mínútum. 🙂

 5. Sæl 🙂 ég lenti á síðunni þinni fyrir tilviljun og lýst mjög vel á hana. Ætla að gera kjúklinga/ spínat réttinn á morgun.
  Spurning : Hvaða pizza ofn notið þið ? ( Tók eftir að Þóra hér að ofan á líka Pizzu ofn 🙂

 6. Skemmtilegt blogg, og hlakka til að prófa sumar af þessum uppskriftum! F´alveg avtn í munnin við að renna yfir færslurnar.
  Ekki eruði til í að deila link af þessum Pizza ofn? Væri alveg til í að finna svona ofn einhversstaðar.
  Takk 🙂

 7. Lítur mjög girnilega út .. gætiru gefið mér uppskrftina af hvítu sósunni sem er sett yfir? hef lengi leitað að uppskrift af hvítri dressingu til að setja yfir pizzu (svona eins og maður fær úti í dk) 🙂

 8. Hæ nota mikið af uppskriftunum frá þér 😉 ertu kannski með uppskrift af hvítu sósunni sem þú notar á pizzuna?

 9. Prófaði þessa uppskrift í gær, var rosa gott 🙂 Var að pæla hvort að þú hafir prófað að frysta deigið eða hvort að þú heldur að það sé í lagi ?

 10. Takk fyrir æðislega síðu, hef mikið notað hana 🙂
  Mig langar að spurja hvað er þessi uppskrift fyrir marga botna?
  Ef ég tvofaldaði hana, myndi ég nota sömu aðferð eða yrði ég að breyta einhverju?

 11. Besti pitsabotn sem við fjölskyldan höfum borðað! Takk fyrir góða og ítarlega uppskrift 🙂 Geri yfirleitt tvöfalda uppskrift, ekkert mál að gera það. Eina sem ég er að spá er hvort sé hægt að gera botninn daginn áður og geyma, ef svo er þá í stofuhita eða kæli?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s