Pizza sem klikkar aldrei

Pizza sem klikkar aldrei

Það er hefð hjá mörgum að hafa pizzur á föstudagskvöldum og við höfum ekki verið nein undantekning. Fyrir mörgum árum pantaði ég mér pizzaofn frá Ítalíu og hann hefur nánast verið logandi síðan hann kom í hús. Ég elska heimagerðar pizzur og fæ seint leið á þeim.

Pizza sem klikkar aldrei

Pizzurnar hjá okkur hafa tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina en botninn hefur þó alltaf verið sá sami (þú finnur uppskriftina að honum hér). Það gerðist síðan um daginn að ég datt niður á uppskrift sem var lofuð á internetinu sem sú besta og auðvitað réð ég varla við mig af spennu að prófa hana. Eftir að hafa fylgt þessari uppskrift nokkrum sinnum verð ég að taka undir hólið því hún er stórkostlega góð.

Það er gott að hafa í huga þegar verið er að gera deigið að hafa vatnið heitt, ekki sjóðandi og ekki kalt, heldur heitt eins og baðvatn fyrir barn. Notalega heitt. Síðan er brauðhveiti (t.d. þetta í bláu pökkunum frá Kornax) betra í brauðbakstur en venjulegt hveiti. Að lokum þykir mér skipta máli að hnoða deigið vel. Ég nota hnoðarann á Kitchen aid hrærivélinni og læt hann hnoða degið á hraðri stillingu í 6 mínútur (eins og uppskriftin segir til um).

Pizza

  • 1 bolli heitt vatn
  • 2 + 1/4 tsk þurrger
  • 1 msk hunang (eða sykur)
  • 2 tsk salt
  • 2 msk olía
  • 3 bollar brauðhveiti (það gæti þurft aðeins minna eða meira)

Hrærið ger og hunang út í heitt vatn í stórri skál (helst hrærivélaskál).

Pizza sem klikkar aldrei

Breiðið viskastykki yfir skálina og látið blönduna standa í 5-10 mínútur eða þar til hún byrjar að freyða.

Pizza sem klikkar aldrei

Bætið salti, olíu og helmingnum af hveitinu saman við og hrærið saman. Þegar búið er að vinna hveitið saman við vökvann er afganginum af því bætt í deigið í smáum skömmtum þar til réttri áferð er náð. Deigið á að vera aðeins klístrað en þó þannig að þegar þú snertir það þá klístrist það ekki við hendina.

Pizza sem klikkar aldrei

Þegar deigið hefur náð því stigi er það hnoðað á hraðri stillingu í 6 mínútur. Deigið á þá að vera mjúkt og gott að vinna með það. Skálin á að vera hrein, þ.e. ekkert deig fast við hana.

Pizza sem klikkar aldrei

Takið deigið úr og mótið kúlu úr því. Smyrjið skálina með olíu (til að deigið þorni ekki) og látið deigið aftur í hana. Setjið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í 1-2 klst. (mér hefur þótt 1 klst duga).

Pizza sem klikkar aldreiPizza sem klikkar aldrei

Fletjið deigið út, smyrjið pizzusósu yfir, stráið osti yfir og endið á því áleggi sem hugurinn girnist.

Pizza sem klikkar aldreiPizza sem klikkar aldrei