Það er orðin hefð fyrir því hér á blogginu um áramót að birta vinsælustu uppskriftir ársins sem leið. Það er svolítið gaman að sjá sömu uppskriftir ár eftir ár á listanum og margar þeirra eru einmitt þær uppskriftir sem ég nota sjálf hvað oftast. Við þessa samantekt fékk ég óstjórnanlega löngun í skúffukökuna sem er í öðru sæti á listanum og ef ég þekki mig rétt verð ég ekki róleg fyrr en ég verð komin með kökuna fyrir framan mig. Það stefnir því í notalegt kvöldkaffi hér heima.
10 vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2017
Tíunda vinsælasta uppskrift ársins var Rice Krispies kaka með bananarjóma og karamellu. Þessi kaka vekur lukku hjá öllum aldurshópum og það tekur enga stund að útbúa hana. Það er því ekki skrítið að kakan sé vinsæl.
Í níunda sæti er uppskrift sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér til fjölda ára, mexíkóskt kjúklingalasagna. Ég hef boðið upp á þennan rétt í veislum, matarboðum og haft hann oftar í kvöldmat en ég get talið. Súpergott!
Ofnbakaðar kjötbollur eru áttunda vinsælasta uppskriftin. Þær klikka aldrei og hafa verið með vinsælustu uppskriftum hér á blogginu síðan uppskriftin kom inn.
Í sjöunda sæti eru heimsins bestu súkkulaðibitakökur. Ég myndi vilja eiga þær alltaf í frystinum til að geta nælt mér í þegar löngunin kemur yfir mig.
Sjötta vinsælasta uppskriftin er þykk og góð mexíkósk kjúklingasúpa. Þessi uppskrift er dásamleg en einhverja hluta vegna elda ég hana sjaldan. Það er hins vegar aðra sögu að segja um kjúklingasúpuna sem er í fimmta sæti á listanum.
Fimmta vinsælasta uppskriftin er nefnilega sú uppskrift sem ég elda hvað oftast, mexíkósk kjúklingasúpa. Ég er fyrir lifandis löngu hætt að fylgja uppskriftinni enda gæti ég eldaði þessa súpu í svefni. Hún er í algjöru uppáhaldi hér heima.
Í fjórða sæti á listanum er pizzabotninn sem klikkar aldrei. Það er fátt sem toppar heimagerða pizzu og þessi uppskrift, eins og nafnið gefur til kynna, klikkar aldrei.
Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti hefur verið ein vinsælasta uppskriftin á blogginu síðan hún var birt og er núna í þriðja sæti yfir vinsælustu uppskriftir ársins. Mér þykir þessi réttur æðislegur og skil því vel vinsældir hans.
Í öðru sæti á listanum er einföld og góð skúffukaka. Þessi kaka er gjörsamlega ómótstæðileg með köldu mjólkurglasi.
Vinsælasta uppskrift ársins var uppáhalds bananabrauðið. Ég hef heyrt frá lesendum sem segja þetta bananabrauð vera það besta sem þeir hafa bakað og ég tek undir hvert orð. Ég geri alltaf orðið tvöfalda uppskrift því það hverfur eins og dögg fyrir sólu hér heima.