Rice krispies kaka með bananarjóma og karamellu

Rice krispies kaka með bananarjóma og karamellu

Ég luma enn á nokkrum eftirréttauppskriftum frá grillveislunni með júróvisjónhópnum og datt í hug að það væri kannski sniðugt að setja inn uppskriftina að barnvænu rice krispies kökunni. Hún er jú svo dásamlega einföld og góð. Það væri nú ekki úr vegi að bjóða upp á hana með kaffinu á morgun.

Rice krispies kaka með bananarjóma og karamellu

Mig grunar að margir eigi þessa uppskrift en það gerir hana ekki minna góða. Mér þykir kakan algjört sælgæti og hún er í miklu uppáhaldi hjá krökkunum.  Uppskriftina fékk ég hjá mömmu en hún hefur verið í fórum hennar í fjölda mörg ár. Hún gerir kökuna oft þegar hún á von á krökkunum til sín og uppsker alltaf mikil lof fyrir.

Kakan er eins einföld og hægt er að hugsa sér og það tekur enga stund að gera hana. Uppskriftin er frá þeim tíma þegar hægt var að kaupa Nóa töggur eftir lit en mér skilst að nú séu þær bara seldar blandaðar í pokum. Þetta er þó ekki vandamál því það má bræða hvaða karamellur sem er í karamellusósuna, t.d. súkkulaðikúlur eða karamellusprengjur, eða hreinlega að kaupa tilbúna karamellusósu.

Rice krispies kaka með bananarjóma og karamellu

Rice krispies kaka með bananarjóma og karamellu

Botn:

 • 100 g smjör
 • 100 g suðusúkkulaði
 • 100 g karamellufyllt súkkulaði, t.d. Rolo, Galaxy, karamellufyllt Pipp eða mars.
 • 4 msk síróp
 • 4-5 bollar Rice Krispies

Bræðið smjör, súkkulaði og síróp saman í rúmgóðum potti við vægan hita. Takið pottinn af hitanum og hrærið Rice Krispies saman við. Setjið blönduna í form og látið kólna í ískáp.

Bananarjómi:

 • 1 peli rjómi (2,5 dl)
 • 1 stór banani

Stappið bananann og þeytið rjómann. Blandið stöppuðum banananum varlega saman við rjómann og breiðið yfir botninn.

Karamellusósa:

 • 20-30 ljósar Nóa töggur (eða aðrar karamellur)
 • 1 dl rjómi

Bræðið töggurnar í rjómanum við vægan hita og hrærið þar til blandan er slétt. Kælið karamellusósuna áður en hún er sett yfir rjómann.

14 athugasemdir á “Rice krispies kaka með bananarjóma og karamellu

  1. Sæl Anna.

   Ég fæ ekki betur séð en að uppskriftin sé sú sama og hana má eflaust finna á mörgum bloggum til viðbótar. Eins og sjá má setti ég mynd af kökunni hér á bloggið á laugardaginn en átti eftir að setja uppskriftina inn. Ég er sammála Evu Laufeyju að kakan er æðislega góð 🙂

   Bestu kveðjur,
   Svava.

 1. Æðislega góð kaka sem ég man eftir að hafa fengið oft þegar ég var yngri, en var búin að gleyma! Ég þyrfti að fara að skella í eina svona 🙂

 2. Mer finnst tessi kaka otrulega god. Geri hana f vinnufelagana tvi eg er dalitid spennt ad sja hvort tau seu jafnhrifin. Her eru natturulega ekki töggur en mer fannst alveg gott ad nota werters original karmellur lika.

 3. Það er líka gott að setja einn poka af Góu kúlum og 1 dl af rjóma í pott og bræða saman. Það er alveg ljómandi góð karamellusósa

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s