Gleðilegt sumar kæru blogglesendur. Ég vona að sumarið hafi byrjað vel og að það eigi eftir að leika við ykkur.
Það styttist óðum í Malmö-ferðina okkar og það kítlar í maganum þegar ég hugsa til þess. 10 dagar í Svíþjóð er ekki til að kvarta undan og ég get ekki beðið eftir að njóta alls þess sem Malmö hefur upp á að bjóða.
Ég er hrifin af Malmö. Við Öggi fórum reglulega þangað þegar við bjuggum í Svíþjóð og fyrir rúmum þremur árum fórum við í nostalgíu-helgarferð þangað. Núna erum við þó alveg tóm hvað varðar veitingastaði og fleira þannig að ef þið lumið á ábendingum um góða veitingastaði, skemmtileg kaffihús og áhugaverða staði á Malmö svæðinu þá eru þær vel þegnar.
Sem upphitun fyrir ferðina var blásið til grillveislu hjá Valla og Silju í gær. Á gestalistanum voru júróvisjónfarar ásamt mökum og börnum og taldi hópurinn um 30 manns. Við Silja erum búnar að vera að skipuleggja veisluna undanfarna daga og vorum ánægðar með hversu vel til tókst.
Silja fékk þá góðu hugmynd að láta Valla grilla kjúklingabringur ofan í mannskapinn. Hún átti æðislega uppskrift að marineringu fyrir kjúkling og svo myndi hún setja kartöflubáta í ofn, gera salat og útbúa sósur. Silja hafði rétt fyrir sér, maturinn vakti stormandi lukku og ég verð að fá hana til að gefa uppskriftina að marineringunni og sósunum til að setja hingað á bloggið. Æðislega gott.
Ég tók að mér að sjá um eftirréttina. Ég ákvað að gera After Eight-köku sem ég hef bakað óteljandi sinnum í gegnum árin og þykir alltaf jafn góð. Á meðan ég var að baka hana furðaði ég mig á því hvernig ég hafi getað bloggað í tæpt ár án þess að hafa gefið þessa uppskrift. Hálfgerður skandall af minni hálfu. Ég hef gefið flestum sem ég þekki uppskriftina og verið beðin um að baka hana fyrir annara manna veislur og gleymi svo að setja hana hingað inn. Ég prufaði síðan nokkrar nýjungar og gerði eina barnaköku sem mamma gerir svo oft fyrir krakkana mína og er í miklu uppáhaldi.
Ég ætlaði að setja inn uppskriftina að After Eight-kökunni en Öggi og Malín eru búin að dásama Twix-bitana svo mikið að ég skipti um skoðun. Þau eru komin með þessa bita á heilann og ekki að ástæðulausu. Þetta heimagerða Twix er himneskt og það var bæði gaman að útbúa það og bera fram. Uppskriftin er æðisleg og ef þú smakkar þessa dásemd einu sinni þá áttu eftir að vilja gera þá aftur og aftur því þeir eru hættulega góðir.
Twix-bitar (uppskrift frá Bakverk och Fikastunder)
Botn:
- 125 g mjúkt smjör
- 4 dl hveiti
- 0,5 dl sykur
Karamella:
- 175 g smjör
- 2 dl sykur
- 3 dl rjómi
- 0,5 dl sýróp
Yfir:
- 200 g rjómasúkkulaði
Hnoðið hráefnunum í botninn saman og þrýstið í botninn á formi sem er ca. 20 x 30 cm. Bakið við 175° í 20 mínútur.
Setjið öll hráefnin í karamelluna í pott og látið suðuna koma upp. Sjóðið við vægan hita í 45-50 mínútur. Til að sjá hvort að karamellan er tilbúin er gott að setja smá af henni í glas með ísköldu vatni. Ef það gengur að hnoða karamelluna í kúlu þá er hún tilbúin. Karamellan á að vera mjúk en hægt að rúlla henni saman. Hellið karamellunni yfir botninn og setjið í ískáp í ca 15 mínútur.
Bræðið súkkulaðið og hellið því yfir karamelluna. Látið kólna í ískáp og skerið síðan í bita.
Ohh hvað þessi Malmö ferð verður frábær – slær mögulega út Stokkhólmsferðina sem við tvær fórum í! 😉 Ég er samt enn svekkt yfir að keppnin verði ekki haldin í nýju Friends höllinni í Stokkhólmi, óskiljanlegt!
Flott veislan hjá ykkur! 🙂 Ég hef prófað Twix bitana, get alveg mælt með þeim! 🙂
Þarf að prófa þessa bita. Hef gert After Eight kökuna þúsund sinnum eftir að ég fékk hana fyrst hjá þér í Stokkhólmi – er alltaf jafn góð!
Girnilegir þessir Twix bitar en geturðu samt ekki líka gefið okkur uppskrift af Afer Eight kökunni?
Líst svakalega vel á þessa! Eldri sonurinn sá mynd af bitunum og er búin að panta að mamman geri svona sem fyrst 😉
Sæl Svava og takk fyrir frábæra síðu sem ég fylgist reglulega með…ekki skemma fyrir sænsku áhrifin hjá þér þar sem ég er búsett í Svíþjóð 🙂 Ég elska Malmö og fer reglulega þangað, hef ekki prófað mjög marga staði en ég get mælt með stað sem heitir Lemongrass , Spot (góðar pizzur, pasta ofl), geggjuðum japönskum stað sem heitir Saiko..síðan er hamborgarastaður sem heitir Bronx og er á Baltzargatan (hef ekki prófað sjálf en ku vera góður..). Svo er staður sem heitir Bastard og er með þeim vinsælli í Malmö (er sjálf að fara að prófa hann næstu helgi) en þar þarf að panta borð með mjög góðum fyrirvara. Annar staður sem er fínn og tiltölulega nýr heitir Occo, gæti verið gaman að prófa. Svo mæli ég með að kíkja á Davidhallstorget þar sem eru kaffihús, sætar búðir og mjðg góður sushistaður, lekker franskur bistro staður ofl. Lilla torgið auðvitað fullt af stöðum….Gangi ykkur allt í haginn í Malmö, við munum örugglega koma og upplifa smá Eurovision stemmningu þar…
Sæl Signý.
Nú erum við búin að googla alla veitingastaðina sem þú taldir upp og okkur langar mest að fara á þá alla! Jeminn, hvað mér líst vel á þá. Þúsund þakkir fyrir þessar ábendingar, við munum klárlega nýta okkur þær.
Davidhallstorget ætla ég líka pottþétt að kíkja á. Kaffihús, sætar búðir og bistro hljómar sem fullkomin blanda 🙂
Bestu, bestu þakkir,
Svava.
Ohhhh gerdi tetta og for med i vinnuna- var “ planeringsdag“ og eg var bedin um ad baka. Sagdi ekkert mal vid tvi vegna tess ad eg veit ad eg fer bara a bloggid titt eda Drafnar og veit ad tar er eh gott ad finna. Allavega vid vorum latin “ brainstorma“ og a sama tima atum vid twix bitana og smakökurnar med hnetusmjöri/ nutella… Okkur gekk svo vel ad tau voru farin ad spa hvort eg hefdi sett eitthv dop i bitana og tvixidþ, var ad lokum kallad hassbitar!!—- tetta var svoooo gott!!