Það er skemmtileg vika að baki með veisluhöldum kvöld eftir kvöld. Þetta er búið að vera fjör! Myndirnar eru frá fimmtudagskvöldinu en þá vorum við með það allra nánasta hér í kvöldkaffi þar sem boðið var upp á Oreo-ostaköku og Rice krispiesköku með bananarjóma og karamellu. Síðan keypti ég uppáhalds nammið hennar Malínar og setti í skálar. Einfalt og gott.
Í kvöld hlakka ég til að leggjast fyrir framan sjónvarpið og horfa á lokaþáttinn af Allir geta dansað. Það sem mér hefur þótt gaman að fylgjast með þessum þáttum og hvað ég dáist að dugnaðinum í dönsurunum! Planið var að grilla eitthvað gott í kvöldmat en það er nú ekki beint grillveður þessa dagana. Eftir veisluhöld síðustu daga langar mig mest til að sækja take-away og gera sem minnst í kvöld. Í næstu viku bíða tveir vinnudagar og svo smá frí. Ég hlakka til!
Vikumatseðill
Mánudagur: Ítalskur lax með fetaostasósu
Þriðjudagur: Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu
Miðvikudagur: Puy linsurósmarín og hvítlaukssúpa
Fimmtudagur: Mozzarellapizza
Föstudagur: Kjúklingasalat með BBQ-dressingu
Með helgarkaffinu: Torta di Pernilla