Oreo-ostakaka

Oreo-ostakaka

Mér þykir alltaf jafn leiðinlegt þegar ég næ ekki að blogga daglega, svo ég tali nú ekki um þegar það líða fleiri dagar á milli bloggfærslna. Helst vil ég að það bíði eitthvað nýtt í hvert sinn sem þú kíkir hingað inn og kannski er það þannig? Fjarvera mín síðustu daga var þó ekki að ástæðulausu því hér hefur verið í nógu að snúast.

Eins og Instagram-fylgjendur hafa kannski tekið eftir þá varð Malín 15 ára á föstudaginn. Malín er ein veisluglaðasta manneskja sem ég þekki og fagnar hverju tækifæri sem gefst til veisluhalda. Í ár var ákveðið að bjóða fjölskyldunni í grill og kökur á föstudagskvöldinu en vinkonunum í mexíkóska súpu og kökur á laugardagskvöldinu. Á meðan á vinkonuafmælinu stóð dvöldu strákarnir í góðu yfirlæti hjá mömmu og við Öggi skelltum okkur á frábæra tónleika í Hörpu, saga Eurovision. Seint og um síðir snérum við heim og mikið var notalegt að fara í náttfötin, hita afganginn af kjúklingasúpunni og smakka kökurnar.

Oreo-ostakaka

Ég fékk um daginn uppskrift frá samstarfskonu minni (takk elsku Guðrún Lilja) af frábærri Oreo-ostaköku og þar sem að Malín er forfallin ostakökuaðdáandi lá beinast við að prófa uppskriftina fyrir afmælið hennar. Kakan vakti mikla lukku og það litla sem eftir var af henni kláruðum við Öggi strax um nóttina.

Mér þykir kakan vera dásamleg í alla staði. Hún er einföld, það tekur stuttan tíma að útbúa hana og það er hægt að gera hana með góðum fyrirvara því hún er fryst. Best af öllu er þó hvað hún er góð. Hér kemur uppskriftin ef ykkur langar að prófa.

Oreo-ostakaka

Oreo-ostakaka

 • 1 pakki Royal vanillubúðingur
 • 1 bolli mjólk
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 peli rjómi (2,5 dl.)
 • 200 g rjómaostur
 • 1 bolli flórsykur
 • 24 oreo kexkökur (ég notaði 32, sem eru 2 kassar)

-Þeytið saman búðingsduftið, mjólkina og vanilludropana og setjið í ískáp í 5 mínútur.

-Hrærið saman flórsykri og rjómaosti í annari skál.

-Þeytið rjómann.

Blandið þessu öllu saman í eina skál.

Myljið oreokexið (í matvinnsluvél eða með frjálsri aðferð!).

Setjið til skiptist í skál oreokex og ostakökublönduna, endið á kexinu. Geymið í frysti og takið út 1,5 klst. áður en kakan er borin fram.

17 athugasemdir á “Oreo-ostakaka

 1. Oh þessi kaka er æði !
  Ég fékk einmitt uppskirft af sömu köku um daginn fyrir frænku hitting og er búin að gera hana 2x í viðbót við önnur tilefni.

  En takk fyrir yndislegt blogg, rakst á það núna um daginn og er orðin fastagestur síðan. Hef prófað nokkrar uppskriftir frá þér og verið mjög ánægð. Sérstaklega maðurinn og krakkanir 🙂

  Finnst gaman hvað þú ert með „mannlegar“ uppskrftir eins og ég kalla það. Að þetta eru ekkert flókin hráefni sem fást í einhverjum búðum hingað og þangað, þetta er allt eithvað sem maður á til , og það finnst mér æðislegt 🙂

  Takk enn og aftur 🙂

 2. Hæhæ – þessi kaka yrði flott í barnaafmælið sem ég mun halda síðar í mánuðnum. Langar þó til að spyrja að einu: Tekur þú kremið af kökunum áður en þú mylur þær, eða flýtur kremið með?

  1. Kökurnar eru muldar með kreminu. Ég mæli líka með Rice Krispies kökunni með bananarjómanum fyrir barnaafmælið 🙂

   Sent from my iPhone

 3. Eitthvað sem þú mælir með að nota í staðinn fyrir vanillu royal búðing, hef ekki aðgang að slíku en á með karamellu 🙂

  1. Varstu búin að sjá svarið frá Guðnýju (hér fyrir neðan)? Hún mælir með að nota karamellubúðinginn 🙂 Mér þykir það hljóma mjög spennandi.

   1. Ég var að búa til svona rétt áðan og var einmitt að furða mig á hvað mín kaka væri gulleit frekar en hvít, og áttaði mig þá á að ég hafði notað karamellubúðing, en ekki vanillu. Hlakka til að smakka!

 4. Elska þessa köku og börnin líka. Ég hef próðað að gera hana með karamellubúðing (frá Royal að sjálfsögðu) og sumum fannst hún betri. Prófaðu bara Anna!

  1. Það verð ég að prófa! Er mikið hrifnari af karamellubúðingnum og trúi vel að hann komi vel út í kökunni. Takk fyrir ábendinguna 🙂

 5. Frábær uppskrift og í miklu uppáhaldi! Ein spurning. Hvað er hægt að geyma hana lengi í frysti s.s. áður en maður ætlar að nota hana?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s