Mér þykir alltaf jafn leiðinlegt þegar ég næ ekki að blogga daglega, svo ég tali nú ekki um þegar það líða fleiri dagar á milli bloggfærslna. Helst vil ég að það bíði eitthvað nýtt í hvert sinn sem þú kíkir hingað inn og kannski er það þannig? Fjarvera mín síðustu daga var þó ekki að ástæðulausu því hér hefur verið í nógu að snúast.
Eins og Instagram-fylgjendur hafa kannski tekið eftir þá varð Malín 15 ára á föstudaginn. Malín er ein veisluglaðasta manneskja sem ég þekki og fagnar hverju tækifæri sem gefst til veisluhalda. Í ár var ákveðið að bjóða fjölskyldunni í grill og kökur á föstudagskvöldinu en vinkonunum í mexíkóska súpu og kökur á laugardagskvöldinu. Á meðan á vinkonuafmælinu stóð dvöldu strákarnir í góðu yfirlæti hjá mömmu og við Öggi skelltum okkur á frábæra tónleika í Hörpu, saga Eurovision. Seint og um síðir snérum við heim og mikið var notalegt að fara í náttfötin, hita afganginn af kjúklingasúpunni og smakka kökurnar.
Ég fékk um daginn uppskrift frá samstarfskonu minni (takk elsku Guðrún Lilja) af frábærri Oreo-ostaköku og þar sem að Malín er forfallin ostakökuaðdáandi lá beinast við að prófa uppskriftina fyrir afmælið hennar. Kakan vakti mikla lukku og það litla sem eftir var af henni kláruðum við Öggi strax um nóttina.
Mér þykir kakan vera dásamleg í alla staði. Hún er einföld, það tekur stuttan tíma að útbúa hana og það er hægt að gera hana með góðum fyrirvara því hún er fryst. Best af öllu er þó hvað hún er góð. Hér kemur uppskriftin ef ykkur langar að prófa.
Oreo-ostakaka
- 1 pakki Royal vanillubúðingur
- 1 bolli mjólk
- 1 tsk vanilludropar
- 1 peli rjómi (2,5 dl.)
- 200 g rjómaostur
- 1 bolli flórsykur
- 24 oreo kexkökur (ég notaði 32, sem eru 2 kassar)
-Þeytið saman búðingsduftið, mjólkina og vanilludropana og setjið í ískáp í 5 mínútur.
-Hrærið saman flórsykri og rjómaosti í annari skál.
-Þeytið rjómann.
Blandið þessu öllu saman í eina skál.
Myljið oreokexið (í matvinnsluvél eða með frjálsri aðferð!).
Setjið til skiptist í skál oreokex og ostakökublönduna, endið á kexinu. Geymið í frysti og takið út 1,5 klst. áður en kakan er borin fram.