Í gær var aldeilis ástæða til að fagna; bloggið varð vikugamalt og eiginmaðurinn átti afmæli. Við buðum gestum í mat og ég gerði tvær kökur til að hafa í eftirrétt, þessa ostaköku og marenstertu (uppskriftin kemur síðar). Ég hafði séð uppskriftina að þessari köku á pinterest og var spennt að prófa hana. Dóttir mín, Malín, kolféll fyrir ostakökum þegar við vorum í Bandaríkjunum í fyrra þannig að ég var nokkuð viss um að þessi myndi hitta í mark hjá henni, sem hún svo sannarlega gerði bæði hjá henni og öðrum veislugestum.
Kakan virðist kannski í fyrstu flókin en hún er það alls ekki og það er mjög skemmtilegt að baka hana. Það er best að gera hana deginum áður og leyfa henni að taka sig í ískápnum yfir nótt. Takið hana þó úr ískápnum svolítið áður en þið ætlið að bera hana fram svo að ostakakan nái að mýkjast.
Ostakaka
- 550 gr rjómaostur við stofuhita (mér finnst Philadelphia rjómaosturinn bestur)
- 3/4 bollar sykur
- 1/2 msk vanilludropar
- 1/4 tsk salt
- 2 stór egg
- 1/2 bolli sýrður rjómi
- 6 grófhakkaðar Oreo-kexkökur
Hitið ofninn í 165°. Hitið vatn í hraðsuðukatli. Hrærið rjómaostinn á miðlungshraða í hrærivél þar til hann verður léttur, skrapið niður með hliðunum á skálinni. Bætið sykri saman við í smáum skömtum og hrærið vel saman þannig að blandan verði létt. Bætið vanilludropum og salti saman við. Bætið eggjunum út í, einu í einu, skrapið niður með hliðunum á skálinni á milli og látið blandast vel. Bætið sýrða rjómanum út í og að lokum grófhökkuðum Oreo-kexkökum.
Setjið bökunarpappír í botninn á smelluformi. Pakkið ytri hluta formsins í álpappír. Hellið fyllingunni í formið og setjið formið í ofnskúffu (eða eldfast mót sem er stærra en smelluformið). Hellið sjóðandi vatni í ofnskúffuna þar til það nær upp hálft smelluformið. Bakið í ca 45 mínútur. Takið smelluformið upp úr vatninu og látið standa í 20 mínútur. Rennið beittum hnífi meðfram forminu og látið kökuna síðan kólna alveg. Fjarlægið hringinn af smelluforminu en skiljið botninn eftir. Setjið plastfilmu yfir og frystið.
Súkkulaðibotnar
- 2 bollar sykur
- 1 3/4 bollar hveiti
- 3/4 bolli kakó
- 1 1/2 tsk lyftiduft
- 1 1/2 tsk matarsódi
- 1 tsk salt
- 2 egg
- 1 bolli mjólk
- 1/2 bolli bragðlítil olía (ekki ólivuolía)
- 2 tsk vanilludropar
- 1 bolli sjóðandi vatn
Hitið ofninn í 175° og smyrjið 2 bökunarform. Hrærið saman sykri, hveiti, kakói, lyftidufti, matarsóda og salti. Bætið eggjum, mjólk, olíu og vanillu út í og hrærið á miðlungs hraða á hrærivél í 2 mínútur. Hrærið sama við sjóðandi vatni (degið verður þunnt við þetta). Hellið deginu í bökunarformin og bakið í 30-35 mínútur. Látið kökuna kólna.
Krem
- 225 gr hvítt súkkulaði
- 225 gr smjör
- 2 tsk vanillusykur (eða vanilludropar)
- 4-6 bollar flórsykur
- 1/4 – 1/3 bolli mjólk
Bræðið súkkulaðið varlega yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni og látið kólna dálítið. Mýkið smjörið í hrærivélinni og hrærið súkkulaðinu út í ásamt vanillunni. Stillið hrærivélina á lágan hraða og bætið flórsykrinum og mjólkinni saman við í smáum skömmtum.
Setjið súkkulaðikökubotn á kökudisk, smyrjið þunnu lagi af kremi á hann og myljið Oreo-kexkökur yfir. Takið ostakökuna úr frystinum, fjarlægið kökuformsbotninn ásamt bökunarpappírnum og leggið ostakökuna ofan á. Ef að ostakakan er stærri en súkkulaðikökubotninn leyfið honum þá að standa í 5-10 mínútur svo að ostakakan nái að mýkjast aðeins, síðan er hún skorin til með beittum hníf. Smyrjið þunnu lagi af kremi ofan á ostakökuna og myljið Oreo-kexkökur yfir. Setjið seinni súkkulaðikökubotninn yfir og smyrjið alla kökuna með kreminu. Kælið kökuna í ískáp í ca 30 mínútur og smyjrið hana síðan aftur með kremi sé þess óskað.
Ég get lofað að þessi er öðruvísi, mögnuð og rosa góð. Aldrei smakkað neina í líkingu við hana. Væri alveg til í smá bita núna. – Annars vildi ég líka þakka fyrir mig í gær elskurnar mínar.
Kossar og knús,
amma Malín
Vá þetta er nú með því girnilegra sem ég hef séð! Annars er skemmtilegt að segja frá því að ég fékk skúffukökuna þína í Köben um helgina! Bloggið er greinilega orðið heimsfrægt aðeins vikugamalt;)
Ég fer hingað inn nokkrum sinnum á dag bara til þess að kíkja á þessa köku. Hún er eiginlega of girnileg! Það er ekki um annað að ræða, ég verð að baka hana 😀
Ég var svo heppin að vera boðin í afganga af þessari og get staðfesta að hún er gudómlega góð.
Vá hvad thessi er ótrúlega girnileg! Held ad eg verdi ad skella í eina svona. Hvada stærd af kökuformi notadir thú.
Þessi kaka er æði og bara betri daginn eftir. Ég notaði 22 cm kökuform en kakan varð líka mjög há fyrir vikið.
Kveðja, Svava.
ég slefa nú bara…ég er sko klárlega að fara baka þessa um helgina og hafa hana á nammidaginn minn 😛
Eg er buin ad hlakka mikid til ad profa tessa og aetla ad gera tad nuna um helgina 🙂 Ein spurning. Af tvi tu segir ad tad se best ad gera hana degi adur. A hun ta ad geymast osamsett (ostakakan enn i frysti) tar til ca 30 klst adur en gestirnir koma ? Sumse i solarhring, Eda get eg sett hana alla saman degi adur og geymt tannig?
Elska bloggid titt og fjolbreyttar og godar uppskriftirnar hja ter 😉
Kv.Mardis
hahaha, eg meina 30 min adur en gestir koma, ekki 30 klst;)