Oreo ostakaka

Í gær var aldeilis ástæða til að fagna; bloggið varð vikugamalt og eiginmaðurinn átti afmæli. Við buðum gestum í mat og ég gerði tvær kökur til að hafa í eftirrétt, þessa ostaköku og marenstertu (uppskriftin kemur síðar). Ég hafði séð uppskriftina að þessari köku á pinterest og var spennt að prófa hana. Dóttir mín, Malín, kolféll fyrir ostakökum þegar við vorum í Bandaríkjunum í fyrra þannig að ég var nokkuð viss um að þessi myndi hitta í mark hjá henni, sem hún svo sannarlega gerði bæði hjá henni og öðrum veislugestum.

Kakan virðist kannski í fyrstu flókin en hún er það alls ekki og það er mjög skemmtilegt að baka hana. Það er best að gera hana deginum áður og leyfa henni að taka sig í ískápnum yfir nótt. Takið hana þó úr ískápnum svolítið áður en þið ætlið að bera hana fram svo að ostakakan nái að mýkjast.

Ostakaka

  • 550 gr rjómaostur við stofuhita (mér finnst Philadelphia rjómaosturinn bestur)
  • 3/4 bollar sykur
  • 1/2 msk vanilludropar
  • 1/4 tsk salt
  • 2 stór egg
  • 1/2 bolli sýrður rjómi
  • 6 grófhakkaðar Oreo-kexkökur

Hitið ofninn í 165°. Hitið vatn í hraðsuðukatli. Hrærið rjómaostinn á miðlungshraða í hrærivél þar til hann verður léttur, skrapið niður með hliðunum á skálinni. Bætið sykri saman við í smáum skömtum og hrærið vel saman þannig að blandan verði létt. Bætið vanilludropum og salti saman við. Bætið eggjunum út í, einu í einu, skrapið niður með hliðunum á skálinni á milli og látið blandast vel. Bætið sýrða rjómanum út í og að lokum grófhökkuðum Oreo-kexkökum.

Setjið bökunarpappír í botninn á smelluformi. Pakkið ytri hluta formsins í álpappír. Hellið fyllingunni í formið og setjið formið í ofnskúffu (eða eldfast mót sem er stærra en smelluformið). Hellið sjóðandi vatni í ofnskúffuna þar til það nær upp hálft smelluformið. Bakið í ca 45 mínútur. Takið smelluformið upp úr vatninu og látið standa í 20 mínútur. Rennið beittum hnífi meðfram forminu og látið kökuna síðan kólna alveg. Fjarlægið hringinn af smelluforminu en skiljið botninn eftir. Setjið plastfilmu yfir og frystið.

Súkkulaðibotnar

  • 2 bollar sykur
  • 1 3/4 bollar hveiti
  • 3/4 bolli kakó
  • 1 1/2 tsk lyftiduft
  • 1 1/2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 2 egg
  • 1 bolli mjólk
  • 1/2 bolli bragðlítil olía (ekki ólivuolía)
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1 bolli sjóðandi vatn

Hitið ofninn í 175° og smyrjið 2 bökunarform. Hrærið saman sykri, hveiti, kakói, lyftidufti, matarsóda og salti. Bætið eggjum, mjólk, olíu og vanillu út í og hrærið á miðlungs hraða á hrærivél í 2 mínútur. Hrærið sama við sjóðandi vatni (degið verður þunnt við þetta). Hellið deginu í bökunarformin og bakið í 30-35 mínútur. Látið kökuna kólna.

Krem

  • 225 gr hvítt súkkulaði
  • 225 gr smjör
  • 2 tsk vanillusykur (eða vanilludropar)
  • 4-6 bollar flórsykur
  • 1/4 – 1/3 bolli mjólk

Bræðið súkkulaðið varlega yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni og látið kólna dálítið. Mýkið smjörið í hrærivélinni og hrærið súkkulaðinu út í ásamt vanillunni. Stillið hrærivélina á lágan hraða og bætið flórsykrinum og mjólkinni saman við í smáum skömmtum.

Setjið súkkulaðikökubotn á kökudisk, smyrjið þunnu lagi af kremi á hann og myljið Oreo-kexkökur yfir. Takið ostakökuna úr frystinum, fjarlægið kökuformsbotninn ásamt bökunarpappírnum og leggið ostakökuna ofan á. Ef að ostakakan er stærri en súkkulaðikökubotninn leyfið honum þá að standa í 5-10 mínútur svo að ostakakan nái að mýkjast aðeins, síðan er hún skorin til með beittum hníf. Smyrjið þunnu lagi af kremi ofan á ostakökuna og myljið Oreo-kexkökur yfir. Setjið seinni súkkulaðikökubotninn yfir og smyrjið alla kökuna með kreminu. Kælið kökuna í ískáp í ca 30 mínútur og smyjrið hana síðan aftur með kremi sé þess óskað.

Skúffukaka

Það eiga flestir sína uppáhalds uppskrift af skúffuköku og ég held að þetta sé mín. Ég gerði hana fyrst fyrir mörgum árum þegar ég eignaðist hina ein sönnu Bonniers Kokbok. Bókin er algjör biblía, hnausþykk og stútfull af uppskriftum. Mér þykir mjög vænt um hana og man enn hvað ég varð hissa þegar Kristín vinkona mín gaf mér hana í afmælisgjöf. Ég skil ekki hvernig hún nennti að burðast með hana á milli landa fyrir mig og hugsa alltaf hlýlega til hennar þegar ég dreg bókina fram.

Ég get svarið það að bókin opnast sjálfkrafa á þessari uppskrift, svo oft hef ég bakað hana. Blaðsiðan ber þess líka merki og er öll í blettum. Ef eitthvað þá gera þeir hana bara meira sjarmerandi.

Botninn

  • 200 gr smjör
  • 5 egg
  • 4 dl sykur
  • 4 dl hveiti
  • 1 dl kakó
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 dl mjólk

Hitið ofninn í 200 gráður og smyrjið skúffukökuform. Bræðið smjörið og látið það kólna. Hrærið egg og sykur þar til það verður ljóst og létt. Blandið hveiti, kakói, lyftidufti og vanillusykri saman og siktið það út í degið. Setjið smjör og mjólk út í og hrærið þar til degið verður slétt. Hellið deginu í bökunarformið og bakið í miðjum ofni í 20-25 mínútur.

Glassúr

  • 75 gr smjör
  • 1/2 dl sterkt kaffi
  • 4 dl flórsykur
  • 2 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur

Bræðið smjörið. Setjið þurrefnin í skál og hrærið saman við brætt smjörið og kaffið.

Leyfið kökunni að kólna aðeins áður en glassúrið er sett á. Setjið kókosmjöið yfir kökuna og njótið.