Sítrónuformkaka Nigellu Lawson

„How to eat“ og „How to be a domestic goddess“ voru fyrstu bækurnar sem ég pantaði mér á Netinu. Það eru 12 ár síðan og mér fannst þetta svo ótrúlega spennandi. „How to eat“ hafði komið út tveimur árum áður og þegar ég sá að „How to be a domestic goddess“  væri væntanleg þá beið ég eftir henni til að getað pantað þær saman. Ég hef skoðað þær svo oft og þær eru allar í litlum post-it miðum við uppskriftir sem ég ætla að prófa og búið að skrifa við þær uppskriftir sem ég hef gert. Post-it miðarnir eru þó fleiri og ég virðist lesa bækurnar oftar en ég elda og baka upp úr þeim.

Sítrónuformkökuna hef ég oft gert. Ég hef fyrir löngu skrifað við hana að hún væri mjög góð og mér finnst það ennþá. Það er gert ráð fyrir „self-raising flour“ í uppskriftinni og ég hef skrifað að það sé passlegt að bæta við hveitið rúmlega 1 1/2 tsk af lyftidufti og 1/2 tsk af salti. Ég hef fylgt því allar götur síðan og kakan heppnast alltaf þannig að það hlýtur að vera rétt.

  • 125 gr ósaltað smjör
  • 175 gr sykur
  • 2 stór egg
  • rifinn börkur af 1 sítrónu
  • 175 gr hveiti
  • rúmlega 1 1/2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 4 msk mjólk

Hitið ofninn í 180°og smyrjið formkökumót vel. Hrærið saman smjöri og sykri. Bætið eggjum og rifnum sítrónuberki út í og hrærið vel saman. Bætið hveiti, lyftidufti og salti varlega saman við og leyfið að blandast vel saman. Að lokum er mjólkinni bætt út í og hrært þar til blandan er slétt. Setjið degið í smurt bökunarformið og bakið í ca 45 mínútur.

Sítrónusýróp

  • safi frá 1 1/2 sítrónu (ca 4 matskeiðar)
  • 100 gr flórsykur

Setjið sítrónusafann og flórsykurinn í lítinn pott og hitið varlega þar til sykurinn leysist upp.

Þegar kakan er tilbúin þá er hún tekin úr ofninum, stungið litlum götum með kökuprjóni ofan á hana alla og sítrónusýrópinu hellt yfir. Ég nota yfirleitt ekki allt sýrópið en það er auðvitað smekksatriði. Leyfið kökunni að kólna dálítið áður en hún er tekið úr forminu.

Skúffukaka

Það eiga flestir sína uppáhalds uppskrift af skúffuköku og ég held að þetta sé mín. Ég gerði hana fyrst fyrir mörgum árum þegar ég eignaðist hina ein sönnu Bonniers Kokbok. Bókin er algjör biblía, hnausþykk og stútfull af uppskriftum. Mér þykir mjög vænt um hana og man enn hvað ég varð hissa þegar Kristín vinkona mín gaf mér hana í afmælisgjöf. Ég skil ekki hvernig hún nennti að burðast með hana á milli landa fyrir mig og hugsa alltaf hlýlega til hennar þegar ég dreg bókina fram.

Ég get svarið það að bókin opnast sjálfkrafa á þessari uppskrift, svo oft hef ég bakað hana. Blaðsiðan ber þess líka merki og er öll í blettum. Ef eitthvað þá gera þeir hana bara meira sjarmerandi.

Botninn

  • 200 gr smjör
  • 5 egg
  • 4 dl sykur
  • 4 dl hveiti
  • 1 dl kakó
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 dl mjólk

Hitið ofninn í 200 gráður og smyrjið skúffukökuform. Bræðið smjörið og látið það kólna. Hrærið egg og sykur þar til það verður ljóst og létt. Blandið hveiti, kakói, lyftidufti og vanillusykri saman og siktið það út í degið. Setjið smjör og mjólk út í og hrærið þar til degið verður slétt. Hellið deginu í bökunarformið og bakið í miðjum ofni í 20-25 mínútur.

Glassúr

  • 75 gr smjör
  • 1/2 dl sterkt kaffi
  • 4 dl flórsykur
  • 2 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur

Bræðið smjörið. Setjið þurrefnin í skál og hrærið saman við brætt smjörið og kaffið.

Leyfið kökunni að kólna aðeins áður en glassúrið er sett á. Setjið kókosmjöið yfir kökuna og njótið.