Frosin Nutella-ostakaka með heslihnetum

 

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur. Ég hef undanfarin ár tekið saman árið og birt lista yfir vinsælustu uppskriftir ársins í kringum áramótin en klikkaði á því núna. Það getur þó verið að ég taki saman vinsældarlistann á næstu dögum. Mér þykir alltaf svo gaman að sjá hvaða uppskriftir falla í kramið og verða vinsælar.

Bloggfærslurnar voru færri undir lok árs en ég hefði viljað. Það gafst bara ekki tími fyrir meira. Lokaspretturinn á 2018 var öflugur með útskrift Malínar, þremur afmælum, jólahátíð, áramótum og svo Bostonferð beint í kjölfarið, þar sem ég er stödd í þessum skrifuðu orðum.

Um áramótin prófaði ég tvo nýja eftirrétti sem mig langar að setja hingað inn. Ég ætla að byrja á frosinni ostaköku sem krakkarnir elskuðu. Ég er svo hrifin af eftirréttum sem hægt er að undirbúa með góðum fyrirvara og þessi kaka er einmitt þannig. Leyfið henni aðeins að þiðna og setjið léttþeyttan rjóma og ristaðar heslihnetur yfir rétt áður en kakan er borin fram. Klikkaðslega gott!

Frosin Nutella-ostakaka með heslihnetum – Uppskrift frá Roy Fares

Botn:

  • 100 g smjör
  • 200 g digestivekex
  • 30 g sykur

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið og myljið kexið. Blandið saman hráefnunum og þrýstið blöndunni í 22 cm bökuform með lausum botni. Bakið í miðjum ofni í um 10 mínútur. Látið botninn kólna alveg áður en fyllingin er sett í hann.

Fylling:

  • 400 g Philadelphia rjómaostur, við stofuhita
  • 2,5 dl rjómi
  • 200 g Nutella
  • 100 g púðursykur
  • 1 msk vanillusykur

Hrærið saman Philadelphia rjómaosti, 0,5 dl af rjóma, Nutella, púðursykri og vanillusykri þar til blandan er létt í sér. Hrærið því sem eftir er af rjómanum saman við í smáum skömmtum og hrærið þar til fyllingin er mjúk og létt. Setjið fyllinguna í bökubotninn og látið standa í frysti í að minnsta kosti 2 klst.

Yfir kökuna:

  • 5 dl rjómi
  • 30 g ristaðar hakkaðar heslihnetur (ég þurrrista þær á pönnu)

Takið kökuna út 20 mínútum áður en hún er borin fram. Léttþeytið rjómann og setjið yfir kökuna og endið á að strá ristuðum hökkuðum heslihnetum yfir.

*Færslan er unnin í samstarfi við Innnes

Oreo-ostakaka

Oreo-ostakaka

Mér þykir alltaf jafn leiðinlegt þegar ég næ ekki að blogga daglega, svo ég tali nú ekki um þegar það líða fleiri dagar á milli bloggfærslna. Helst vil ég að það bíði eitthvað nýtt í hvert sinn sem þú kíkir hingað inn og kannski er það þannig? Fjarvera mín síðustu daga var þó ekki að ástæðulausu því hér hefur verið í nógu að snúast.

Eins og Instagram-fylgjendur hafa kannski tekið eftir þá varð Malín 15 ára á föstudaginn. Malín er ein veisluglaðasta manneskja sem ég þekki og fagnar hverju tækifæri sem gefst til veisluhalda. Í ár var ákveðið að bjóða fjölskyldunni í grill og kökur á föstudagskvöldinu en vinkonunum í mexíkóska súpu og kökur á laugardagskvöldinu. Á meðan á vinkonuafmælinu stóð dvöldu strákarnir í góðu yfirlæti hjá mömmu og við Öggi skelltum okkur á frábæra tónleika í Hörpu, saga Eurovision. Seint og um síðir snérum við heim og mikið var notalegt að fara í náttfötin, hita afganginn af kjúklingasúpunni og smakka kökurnar.

Oreo-ostakaka

Ég fékk um daginn uppskrift frá samstarfskonu minni (takk elsku Guðrún Lilja) af frábærri Oreo-ostaköku og þar sem að Malín er forfallin ostakökuaðdáandi lá beinast við að prófa uppskriftina fyrir afmælið hennar. Kakan vakti mikla lukku og það litla sem eftir var af henni kláruðum við Öggi strax um nóttina.

Mér þykir kakan vera dásamleg í alla staði. Hún er einföld, það tekur stuttan tíma að útbúa hana og það er hægt að gera hana með góðum fyrirvara því hún er fryst. Best af öllu er þó hvað hún er góð. Hér kemur uppskriftin ef ykkur langar að prófa.

Oreo-ostakaka

Oreo-ostakaka

  • 1 pakki Royal vanillubúðingur
  • 1 bolli mjólk
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 peli rjómi (2,5 dl.)
  • 200 g rjómaostur
  • 1 bolli flórsykur
  • 24 oreo kexkökur (ég notaði 32, sem eru 2 kassar)

-Þeytið saman búðingsduftið, mjólkina og vanilludropana og setjið í ískáp í 5 mínútur.

-Hrærið saman flórsykri og rjómaosti í annari skál.

-Þeytið rjómann.

Blandið þessu öllu saman í eina skál.

Myljið oreokexið (í matvinnsluvél eða með frjálsri aðferð!).

Setjið til skiptist í skál oreokex og ostakökublönduna, endið á kexinu. Geymið í frysti og takið út 1,5 klst. áður en kakan er borin fram.