Á morgun förum við með vinum okkar til New York en ferðina keypti hópurinn eftir að hafa tekið skyndiákvörðun rétt fyrir miðnætti á þorláksmessukvöldi. Síðan þá höfum við haldið undirbúningsfundi sem hafa ekki skilað neinu öðru en tómum diskum, tómum vínflöskum og rækilegri inneign í gleðibankann. En nú er að koma að þessu og við stelpurnar ákváðum að hittast hér heima á föstudagskvöldinu og græja okkur fyrir ferðina. Við lituðum augnhár og augabrúnir, settum á okkur maska, lökkuðum fingur og tær og enduðum kvöldið á að bóka okkur tíma í hárdekur í New York. Það sem ég hlakka til!
Ég bauð upp á osta og plokk (það besta sem ég veit! … og einfaldasti maturinn til að bjóða upp á) og má bara til með að mæla með sælkeraborðinu í Hagkaup í Kringlunni (hafið þið farið í búðina eftir breytingarnar? Hún er svo flott!). Þar er frábært úrval af ostum og þjónustan engu lík. Ég talaði við mömmu þegar ég kom heim og sagði henni frá því hvað ég hefði fengið frábæra þjónustu í sælkeraborðinu og þá hafði hún sömu sögu að segja. Sá sem afgreiddi mig var svo áhugasamur um ostana, leyfði mér að smakka þá og bera þá saman, og var klár í að ráðleggja mér um hvaða ostar færu saman á ostabakkanum. Síðan benti hann mér á að kaupa ost úr kælinum hjá þeim til að bæta við þá sem ég var búin að velja úr borðinu hjá honum. Í sælkeraborðinu fæst líka besti ostur í heimi, svartur Primadonna. Ef þið hafið ekki smakkað hann þá skulið þið gera það prontó! Ég fæ ekki nóg af honum.
Ég er vön að bera osta fram með nýbökuðu snittubrauði (kaupi þau frosin og hita upp heima) en nýjasta æðið eru þó tengdamömmutungurnar. Ég smakkaði þær í fyrsta skipti í einum af undirbúningsfundunum og það var ekki aftur snúið. Mér þykja þær passa fullkomlega með ostum.
Og fyrst ég er komin í gír þá er eins gott að halda áfram að telja upp nýjustu æðin hér heima, en þessi snakkpoki frá Lay´s með þroskuðum cheddar lendir orðið ansi oft í innkaupakerrunni hjá okkur. Svo góður með köldu freyðivíns- eða hvítvínsglasi. Tips fyrir heitu sumarkvöldin sem bíða okkar (maður má alltaf vona!).
Að lokum vil ég gjarnan hafa smá súkkulaði með ostabakkanum, sérstaklega ef ég er ekki með eftirrétt. Hér leyndist dökkt súkkulaði með karamellu og sjávarsalti, lakkrís karameluperlur og Nóa piparkropp. Gott!