Pönnukökurúlla með skinku- og ostafyllingu

Þegar við Gunnar vorum í Stokkhólmi í sumar rifum við okkur upp á hverjum morgni til að ná morgunverðinum á hótelinu. Það þarf mikið til að hann rífi sig upp á morgnana, hvað þá í miðju sumarfríi, en morgunmaturinn á Haymarket er bara svo góður að það er ekki hægt að sofa hann frá sér. Gunnar endaði alltaf morgunmatinn á að fá sér sænskar pönnukökur og síðasta morguninn lofaði ég að gera sænskar pönnukökur þegar við kæmum heim.

Ég hef enn ekki staðið við að baka hefðbundnar sænskar pönnukökur (uppskrift af þeim er hér) en ég gerði þó aðra tegund af sænskri pönnuköku í kvöldmat um daginn, fyllta ofnskúffupönnuköku. Svíar gera oft pönnuköku í ofnskúffu og setja þá jafnvel beikon í hana, en hér er fyllingu smurt yfir pönnukökuna og henni svo rúllað upp. Svo gott!

Pönnukökurúlla með skinku- og ostafyllingu (uppskrift fyrir 6)

Deig:

  • 125 g smjör
  • 2,5 dl hveiti
  • 3 dl mjólk
  • 4 egg

Fylling:

  • 3 msk smjör
  • 4 msk hveiti
  • 3 dl mjólk
  • 1,5 dl rjómi
  • 3 msk fínhökkuð basilika
  • 100 g skinka, skorin í bita
  • 1 dl rifinn ostur
  • 150 g kokteiltómatar
  • 1 tsk salt
  • smá svartur pipar

Yfir:

  • 1,5 dl rifinn ostur

Hitið ofn í 200°. Bræðið smjör í potti. Hrærið hveiti og mjólk saman við smjörið og hitið þar til deigið losnar frá könntum pottarins (hrærið reglulega í pottinum). Takið pottinn af hitanum og hrærið einu eggi í einu saman við deigið með handþeytara. Setjið deigið í ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír og bakið í neðri hluta ofnsins í um 20 mínútur. Þegar pönnukakan er tilbúin er best að hvolfa henni á nýjan bökunarpappír og taka bökunarpappírinn sem pönnukakan bakaðist á af. Látið pönnukökuna kólna.

Fylling: Bræðið smjörið í potti. Hrærið hveiti saman við. Bætið mjólk smátt og smátt saman við og hrærið stöðugt í pottinum á meðan. Bætið rjóma í pottinn og látið sjóða við vægan hita í um 5 mínútur. Bætið basiliku, skinku og osti í pottinn. Skerið tómatana í tvennt og hrærið þeim saman við fyllinguna. Smakkið til með salti og pipar.

Dreifið fyllingunni yfir pönnukökuna og rúllið henni upp frá langhliðinni. Setjið pönnukökuna á bökunarpappír með sárið niður. Stráið rifnum osti yfir og bakið í 10 mínútur. Berið pönnukökuna fram heita.

Tillögur að snarli yfir leikjum helgarinnar

Það styttist óðum í lokahnykkinn á HM þar sem síðustu leikirnir eru núna um helgina. Það sem ég hlakka til! Mér þykir þó lítið varið í að horfa á leikina án góðra veitinga. Hér koma því tíu góðar tillögur að léttu snarli til að njóta yfir úrslitaleiknum:

1. Pizza með karamelluseruðum lauki og pipruðu beikoni er skotheldur hittari. Skerið pizzuna í sneiðar og berið fram með köldum bjór. Einn lesandi sagðist bæta döðlum á þessa pizzu og það er ég búin að vera á leiðinni að prófa. Mig grunar að það sé klikkað!

2. Tómatcrostini með þeyttum fetaosti er öruggt kort sem slær alltaf í gegn. Ég gæti lifað á þessu!

3. Fræhrökkbrauð með sítrónu- og fetamauki er hættulega gott kombó. Það er hægt að útbúa bæði hrökkbrauðið og fetamaukið deginum áður sem mér þykir alltaf vera kostur. Helsti ókosturinn fyrir mig er hins vegar að ég ræð ekki við mig með þetta fyrir framan mig og borða alltaf manna mest.

4. Brauðtertan hennar mömmu er orðin „klassiker“ þegar kemur að stórviðburðum og hún hefur boðið upp á hana yfir ófáum landsleikjum. Það er alltaf stemning þegar mamma mætir með brauðtertuna og það væri ekki hægt að taka saman þennan lista án þess að hafa hana með.

5. Nutelladip og ávextir er vinsælt snarl sem hverfur yfirleitt strax ofan í krakkana.

6. Krydduð pretzel- og hnetublanda passar stórvel með köldum bjór og fótboltaleik.

7. Tortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avókadó og sýrðum rjóma og kælt hvítvín… þarf að segja eitthvað meira??

8. Pekanhjúpuð ostakúla hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan ég gerði hana fyrst og ég býð upp á hana við hvert tækifæri sem gefst. Mér þykir passa best að bera hana fram með Ritzkexi.

9. Beikonvafin pulsubrauð er réttur sem kemur skemmtilega á óvart. Stundum er það einfalda bara best. Þetta hverfur alltaf hratt af borðinu og vekur alltaf lukku.

10. Beikonvafið brauð með rjómaosti, döðlum og valhnetum er einfaldlega klikkgott og passar við öll tilefni

Ostar og annað gott

Á morgun förum við með vinum okkar til New York en ferðina keypti hópurinn eftir að hafa tekið skyndiákvörðun rétt fyrir miðnætti á þorláksmessukvöldi. Síðan þá höfum við haldið undirbúningsfundi sem hafa ekki skilað neinu öðru en tómum diskum, tómum vínflöskum og rækilegri inneign í gleðibankann. En nú er að koma að þessu og við stelpurnar ákváðum að hittast hér heima á föstudagskvöldinu og græja okkur fyrir ferðina. Við lituðum augnhár og augabrúnir, settum á okkur maska, lökkuðum fingur og tær og enduðum kvöldið á að bóka okkur tíma í hárdekur í New York. Það sem ég hlakka til!

Ég bauð upp á osta og plokk (það besta sem ég veit! … og einfaldasti maturinn til að bjóða upp á) og má bara til með að mæla með sælkeraborðinu í Hagkaup í Kringlunni (hafið þið farið í búðina eftir breytingarnar? Hún er svo flott!). Þar er frábært úrval af ostum og þjónustan engu lík. Ég talaði við mömmu þegar ég kom heim og sagði henni frá því hvað ég hefði fengið frábæra þjónustu í sælkeraborðinu og þá hafði hún sömu sögu að segja. Sá sem afgreiddi mig var svo áhugasamur um ostana, leyfði mér að smakka þá og bera þá saman, og var klár í að ráðleggja mér um hvaða ostar færu saman á ostabakkanum. Síðan benti hann mér á að kaupa ost úr kælinum hjá þeim til að bæta við þá sem ég var búin að velja úr borðinu hjá honum. Í sælkeraborðinu fæst líka besti ostur í heimi, svartur Primadonna. Ef þið hafið ekki smakkað hann þá skulið þið gera það prontó! Ég fæ ekki nóg af honum.

Ég er vön að bera osta fram með nýbökuðu snittubrauði (kaupi þau frosin og hita upp heima) en nýjasta æðið eru þó tengdamömmutungurnar. Ég smakkaði þær í fyrsta skipti í einum af undirbúningsfundunum og það var ekki aftur snúið. Mér þykja þær passa fullkomlega með ostum.

Og fyrst ég er komin í gír þá er eins gott að halda áfram að telja upp nýjustu æðin hér heima, en þessi snakkpoki frá Lay´s með þroskuðum cheddar lendir orðið ansi oft í innkaupakerrunni hjá okkur. Svo góður með köldu freyðivíns- eða hvítvínsglasi. Tips fyrir heitu sumarkvöldin sem bíða okkar (maður má alltaf vona!).

Að lokum vil ég gjarnan hafa smá súkkulaði með ostabakkanum, sérstaklega ef ég er ekki með eftirrétt. Hér leyndist dökkt súkkulaði með karamellu og sjávarsalti, lakkrís karameluperlur og Nóa piparkropp. Gott!

Föstudagskvöld

Fyrir nokkrum vikum keypti ég stand fyrir síma og ipad í Ikea. Þessi einfaldi hlutur hefur nánast verið í stöðugri notkun síðan. Það er frábært að hafa hann í eldhúsinu þegar verið er að nota uppskriftir af netinu og eins er hann nánast ómissandi þegar verið er að Facetime-a. Malín og Oliver tóku standinn meira að segja með sér þegar þau fóru til New York um daginn og voru þá búin að hlaða niður bíómyndum á Netflix til að horfa á í fluginu. Ég gerði mér að lokum ferð í Ikea til að kaupa fleiri standa, þannig að núna er til einn á mann hér heima. Og ódýrir eru þeir, 245 kr. Tips, tips!

Síðasti dagurinn í páskafríinu

 

Gleðilega páska! Ég vona að þið séuð búin að eiga gott páskafrí. Veðrið hefur jú leikið við okkur hér á höfuðborgarsvæðinu og undir lokin var ég næstum farin að óska eftir slagveðri svo ég gæti eytt deginum í sófanum án þess að fá samviskubit. Ég get nú ekki sagt að við höfum verið dugleg í útivistinni þrátt fyrir veðurblíðuna en ég dreif mig út og þreif gluggana hér heima og svo gengum við einn daginn hringinn í kringum Hvaleyrarvatn og enduðum ferðina á Brikk.

Við byrjuðum páskafríið á að grilla okkur hamborgara. Mér þykja hamborgarar svo góðir en elda þá sárasjaldan. Þessir voru eins einfaldir og hægt er að hafa þá en góðir engu að síður. Ostur, kál, laukur og margar sósur til að velja á milli. Gott!

Krakkarnir hafa verið að koma með páskaegg heim vikurnar fyrir páska  og síðan fékk ég eitt frá vinnunni. Ég ákvað því að kaupa ekki fleiri páskaegg (í fyrra voru þau svo mörg að við vorum borðandi þau langt fram á vor) heldur gaf krökkunum frekar páskagjafir. Malín fékk bkr brúsa og tilheyrandi klakabox sem ég vissi að hana langaði í (hún drekkur vatn með öllu og er alltaf í ræktinni, þannig að brúsinn nýtist vel) og strákarnir fengu Playstation heyrnatól sem hefðu varla getað vakið meiri lukku. Þeir eru með tvær tölvur hér heima og geta núna talað á milli.

Ég eyddi mörgum stundum í horninu á sófanum yfir páskana, ýmist með prjónana eða bók og kaffibolla. Fyrir páskafríið fyllti ég vel á kaffibyrgðirnar og taldi mig ekki þurfa að fara í Nespressobúðina næstu vikurnar. Þar hafði ég nú heldur betur rangt fyrir mér…

Ég bakaði pizzasnúða á skírdag og flýtti mér að setja helminginn í frysti áður en þeir kláruðust. Ég sé fyrir mér að krakkarnir geti fengið sér þá þegar þau koma heim úr skólanum.  Á myndinni sést kannski að það eru tvenns konar form á snúðunum, þ.e. sumir eru hærri en aðrir. Ég setti helminginn af snúðunum beint á bökunarpappír en hinn helminginn (þeir sem eru hærri) setti ég í bökunarform fyrir möffins (álform sem er fyrir nokkur möffins, ekki pappaform). Snúðarnir uðru háir og fínir við það.

Við fórum í mat til mömmu á föstudeginum langa. Mamma gerði súpu sem hún hefur gert áður og uppskriftin endaði þá hér á blogginu. Svo góð!! Í eftirrétt gerði hún Söru Bernharðs-köku sem hún bar fram með rjóma. Ég var gjörsamlega afvelta eftir þetta.

Ég bauð mömmu og bróður mínum í mat á páskadag í hefðbundið páskalæri. Lærið fór inn í ofn fyrir hádegi í lokuðum ofnpotti við 100° og fékk að dúsa þar yfir daginn. Gæti ekki verið þægilegra. Meðlætið var einfalt, brúnaðar kartöflur, sveppasósa, gular baunir og salat. Eftirréttinn mun ég setja hingað inn fljótlega, hann var æði!

Þessum síðasta frídegi verður eytt í afslöppun. Við hituðum okkur crossant í morgunmat (kaupi þau frosin) og í kvöld verður afgangur síðustu tveggja kvölda í kvöldmat. Nú tekur stutt vinnuvika við, bara fjórir dagar, áður en helgarfrí skellur á. Vorið er alltaf ljúft hvað frídaga varðar. Eftir veislumat síðustu daga langar mig mest til að taka grænmetisviku hér heima en veit að það fengi ekki góðar undirtektir hjá strákunum. Við sjáum hvað setur…

Föstudagskvöld

Ég las um daginn svo skemmtilega bók sem ég má til með að benda áhugasömum á, Amy Schumer – The Girl with the Lower Back Tattoo. Ég gat ekki lagt bókina frá mér og skemmti mér konunglega yfir lestrinum. Hló oft upphátt og las upp úr henni fyrir krakkana, sem hlógu jafnvel enn meira en ég. Léttmeti eins og það gerist best!

Uppáhald í snyrtibuddunni

Í dag er síðasti dagurinn á tax free dögum Hagkaups. Ég nýti þá alltaf til að fylla á snyrtivörurnar mínar og eitt af því sem ég kaupi nánast alltaf er augnblýanturinn frá Chanel. Ég nota hann á hverjum degi og finnst ég varla vöknuð fyrr en hann er kominn á. Hann helst allan daginn og mér þykir þægilegt að þurfa ekki að ydda hann þar sem hann er skrúfaður upp. Uppáhald til margra ára og tips fyrir þær sem eru í leit að góðum augnblýanti.

Föstudagur

Síðasta haust las ég viðtal við konu sem sér um förðunarhluta sænska tímaritisins Mama. Ég man varla um hvað viðtalið fjallaði en það sem hins vegar sat eftir var sólarpúður sem hún sagðist nota á hverjum degi og gæti ekki verið án. Ég fór strax daginn og keypti púðrið. Nú er ég á púðurdós númer tvö og gæti ekki verið ánægðari. Púðrið gefur fallegan lit sem er ekki of dökkur og með örlitlum ljóma í. Svo er það ódýrt, um 3.500 kr ef ég man rétt. Í seinna skiptið keypti ég það á tax free dögum í Hagkaup og þá fór verðið undir 3.000 kr.

Púðrið er því föstudagstips fyrir þá sem hafa áhuga, það heitir Creme Bronzer frá Max Factor í litnum 05 Light Gold. Svo gott!

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Vinsælustu uppskriftirnar árið 2017

Það er orðin hefð fyrir því hér á blogginu um áramót að birta vinsælustu uppskriftir ársins sem leið. Það er svolítið gaman að sjá sömu uppskriftir ár eftir ár á listanum og margar þeirra eru einmitt þær uppskriftir sem ég nota sjálf hvað oftast. Við þessa samantekt fékk ég óstjórnanlega löngun í skúffukökuna sem er í öðru sæti á listanum og ef ég þekki mig rétt verð ég ekki róleg fyrr en ég verð komin með kökuna fyrir framan mig. Það stefnir því í notalegt kvöldkaffi hér heima.

10 vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2017

Tíunda vinsælasta uppskrift ársins var Rice Krispies kaka með bananarjóma og karamellu. Þessi kaka vekur lukku hjá öllum aldurshópum og það tekur enga stund að útbúa hana. Það er því ekki skrítið að kakan sé vinsæl.

Í níunda sæti er uppskrift sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér til fjölda ára, mexíkóskt kjúklingalasagna. Ég hef boðið upp á þennan rétt í veislum, matarboðum og haft hann oftar í kvöldmat en ég get talið. Súpergott!

Ofnbakaðar kjötbollur eru áttunda vinsælasta uppskriftin. Þær klikka aldrei og hafa verið með vinsælustu uppskriftum hér á blogginu síðan uppskriftin kom inn.

Í sjöunda sæti eru heimsins bestu súkkulaðibitakökur. Ég myndi vilja eiga þær alltaf í frystinum til að geta nælt mér í þegar löngunin kemur yfir mig.

Sjötta vinsælasta uppskriftin er þykk og góð mexíkósk kjúklingasúpa. Þessi uppskrift er dásamleg en einhverja hluta vegna elda ég hana sjaldan. Það er hins vegar aðra sögu að segja um kjúklingasúpuna sem er í fimmta sæti á listanum.

Fimmta vinsælasta uppskriftin er nefnilega sú uppskrift sem ég elda hvað oftast, mexíkósk kjúklingasúpa. Ég er fyrir lifandis löngu hætt að fylgja uppskriftinni enda gæti ég eldaði þessa súpu í svefni. Hún er í algjöru uppáhaldi hér heima.

Í fjórða sæti á listanum er pizzabotninn sem klikkar aldrei. Það er fátt sem toppar heimagerða pizzu og þessi uppskrift, eins og nafnið gefur til kynna, klikkar aldrei.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti hefur verið ein vinsælasta uppskriftin á blogginu síðan hún var birt og er núna í þriðja sæti yfir vinsælustu uppskriftir ársins. Mér þykir þessi réttur æðislegur og skil því vel vinsældir hans.

Í öðru sæti á listanum er einföld og góð skúffukaka. Þessi kaka er gjörsamlega ómótstæðileg með köldu mjólkurglasi.

Vinsælasta uppskrift ársins var uppáhalds bananabrauðið. Ég hef heyrt frá lesendum sem segja þetta bananabrauð vera það besta sem þeir hafa bakað og ég tek undir hvert orð. Ég geri alltaf orðið tvöfalda uppskrift því það hverfur eins og dögg fyrir sólu hér heima.

 

 

SaveSaveSaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSaveSaveSave