Þegar ég kom heim úr vinnunni í gær voru strákarnir úti á trampolíni, á stuttbuxum og stuttermabol einum klæða. Þeir sögðust vera að kafna úr hita, rétt eins og það gengi hitabylgja yfir landið. Malín sat með vinkonu sinni úti á palli að læra. Þvílíkur munur sem það er þegar veðrið er svona gott, hverfið lifnar við og börnin gefa sér varla tíma til að koma inn að borða.
Við ákváðum að gera okkur glaðan dag og buðum vinum okkar yfir í léttan kvöldverð. Ég gerði tvo smárétti, tómatcrostini með þeyttum fetaosti og smjörsteiktar perur með brie og furuhnetum á ruccolabeði. Þetta var svo dásamlega gott að við gátum ekki hætt að borða. Við Öggi höfum ekki getað hætt að hugsa um matinn og ætlum að endurtaka leikinn mjög fljótlega.
Með smáréttunum drukkum við hvítvín. Svo dæmalaust gott.
Og ef þið eruð að spá í hvað sé ofan í flöskunni þá get ég upplýst ykkur um að það er nokkurs konar grýlukerti sem er heldur víninu köldu. Grýlukertið er geymt í frysti og eftir að flaska hefur verið opnuð er því stungið ofan í hana. Flaskan getur þá staðið köld á borðinu allt kvöldið. Grýlukertið fæst í Púkó og Smart á Laugaveginum. Frábær gjöf fyrir bæði kynin!
Tómatcrostini með þeyttum fetaosti
- 250 g fetakubbur
- ca 60 g rjómaostur, við stofuhita
- ca. 1,5 dl ólívuolía
- 2 msk ferskpressaður sítrónusafi
- gróft salt og pipar
- 2 msk furuhnetur
- 2 msk fínhakkaður skarlottulaukur
- 2 msk pressuð hvítlauskrif
- 2 msk rauðvínsedik
- 5 tómatar
- 3 msk fersk basilika + meira til að bera fram með
- Baquettsneiðar, steiktar í ólívuolíu á pönnu til að fá þær stökkar
Setjið fetaost og rjómaost í matvinnsluvél og mixið þar til ostarnir hafa alveg blandast. Setjið ca. 0,5-0,75 dl af ólívuolíu, sítrónusafa, 0,5 msk gróft salt og 0,25 msk pipar. Mixið þar til blandan er slétt. Geymið í kæli þar til á að bera fram.
Ristið furuhneturnar á þurri pönnu við lágan hita í ca 5-10 mínútur. Hrærið oft því þær brenna auðveldlega.
Blandið skarlottulauk, hvítlauk og rauðvínsediki í skál. Látið standa í 5 mínútur svo að laukurinn nái að draga í sig edikið. Blandið því sem eftir var af ólívuolíunni, 0,5-1 msk gófu salti og 0,5 msk pipar saman við og hrærið. Skerið tómatana í smáa teninga og bætið í skálina. Hrærið öllu saman og látið standa í 10 mínútur. Skerið basilikuna niður og blandið saman við.
Skerið baquette í sneiðar og ristið í ólívuolíu á heitri pönnu.
Breiðið vel af fetaostkreminu á ristaðar baquettesneiðarnar og setjið þar á eftir tómatmaukið yfir. Leggið sneiðarnar á diska og stráið ristuðu furuhnetunum og feskri basiliku yfir.
Jammí! Þetta mun èg prófa fljótlega. Þú ert æði mín kæra!
Soffía
Ég fékk vatn í munninn af því að lesa uppskriftina, ætla að prófa þetta um helgina:)
Mmmm, lítur mjög vel út. Ég væri líka til íað fá peru brie uppskriftina 🙂
og þarf enga uppskrift af þessum perum? þær hljóma mjög girnilega
Profadi tetta i gaer svona sem “ tilltugg“ a undan mat ( ekkert gott ord f tad)– Bjarni spurdi nu hvad eg vaeri eiginl ad vesenast og eg sagdi nu bara biddu rolegur—- hann tagdi svo bara og skildi allti einu voda vel af hverju eg vaeri ad “ vesenast“og vid vorum 5 sem atum upp Heilt snittubraud m tessu gumsi.. Tad var voda mikid eftir af fetakreminu en get nu bara sagt ad tad bar eg nu bara fram sem kalda sosu med nautalund sem var svo i matinn og ekki er fetaosasosan slaem i dag med venjulegum saenskum Kjötbollum ( ekki Scan, hef fundid eh lyxköttbullar her sem eru aetar)– sjaumst bradum/ halla