
Ég er vön að eyða þessum degi í eldhúsinu frá morgni til kvölds en ákvað að breyta aðeins til þetta árið. Þannig að í staðin fyrir að elda kalkún með öllu tilheyrandi, eins og ég hef gert svo lengi sem minnið nær, þá ætlum við að vera með humar og nautalund í kvöld. Það var því engin vekjaraklukka sem hringdi í morgun þar sem það lá ekkert á að komast í eldhúsið. Lúxus!

Það er varla hægt að fara í gegnum þennan síðasta dag ársins án þess að líta yfir árið sem leið. 2017 var alls konar ár sem bauð upp á óteljandi gleðistundir en lífið minnti líka á sig með alvarlegum veikindum, sem fóru vel að lokum. Það sem stendur þó upp úr eru allar góðu stundirnar. Það var hellingur af þeim! Við kveðjum árið uppfull af þakklæti fyrir góða heilsu og allar þær skemmtilegu minningar sem urðu til á árinu.

Við ferðuðumst svolítið á árinu. Við fórum strax í byrjun árs til Stokkhólms þar sem við áttum svo yndislega daga að daginn sem við komum heim bókuðum við aðra ferð að ári (sem býður okkar núna eftir áramót). Það er lúxus að framlengja jólafríinu svona.

Í mars fórum við til Boston. Við nutum þess að rölta um borgina og þegar leið á daginn settumst við á Eataly yfir ostum og rauðvínsglasi áður en við rötlum áfram. Kvöldunum eyddum við ýmist í boðum eða á veitingastöðum. Dásamlegt í alla staði.

Við fögnuðum sumardeginum fyrsta í París með vinnunni minni. Ég hafði verið í París haustið áður og núna var gaman að upplifa vorið þar. Við fórum í vínsmökkun, hjólaferð, borðuðum æðislegan mat og röltum um borgina. Frábær ferð!

Í júní tókum við skyndiákvörðun og bókuðum aðra Stokkhólmsferð með dags fyrirvara. Veðrið lék við okkur og borgin sýndi sínar bestu hliðar.

Í ágúst héldum við svo á vit ævintýrana og flugum til Balí. Þar eyddum við ævintýralegum vikum en veikindi og spítaladvöl settu öll ferðaplön á hliðina. Ég endaði á að eyða 13 dögum af ferðinni ein á þvælingi um Balí og upplifið margt og mikið. Þrátt fyrir allt get ég ekki annað sagt en að Balí er yndisleg!

Við ferðuðumst lítið innanlands þetta árið en áttum þó yndislega helgi í Vestmannaeyjum í júní. Síðar um sumarið fórum við í dagsferð um suðurlandið með mömmu. Við komum víða við, fengum okkur hádegisverð í Friðheimum og enduðum daginn í kaffi í sveitinni. Ferðaárinu lauk svo með vinafólki í bústað í nóvember.

Í haust hófu strákarnir sitt síðasta grunnskólaár og ég get ekki vanist þeirri tilhugsun að eiga bara menntaskólabörn næsta haust. Það verður stórskrítið. Ef allt gengur eftir mun Malín klára stúentinn á árinu en ég er svo hjátrúarfull að ég þori varla að hugsa út í það…

Mig langar til að þakka ykkur samfylgdina á árinu. Ég er svo þakklát fyrir hvað þið eruð mörg sem lesið hér á hverjum degi og hvað ég fæ oft fallegar kveðjur frá ykkur. Þær eru ómetanlegar. Frá dýpstu hjartarótum óska ég ykkur gleðilegs árs og vona að 2018 muni dekra við okkur!

SaveSave
SaveSave
SaveSave
SaveSave
SaveSave
SaveSave
SaveSave
SaveSave
SaveSave
SaveSave
SaveSave
Líkar við:
Líkar við Hleð...