Gunnar ákvað skyndilega á gamlárskvöldi að hafa árið 2017 sælgætislaust. Hann hefur enn sem komið er ekki fengið sér svo mikið sem nammibita, nokkuð sem ég dáist að og gæti eflaust aldrei leikið eftir. Hann er þó svo staðfastur í því sem hann tekur sér fyrir hendi að ég hef fulla trú á því að hann klári þetta með glans.
Sælgætisbindindið gerir það að verkum að ég kaupi síður nammi og set í skál fyrir framan sjónvarpið á laugardagskvöldum, heldur reyni að finna annað góðgæti til að bjóða upp á. Eðla stendur auðvitað alltaf fyrir sínu en Nutellaídýfa er þó vinsælasta helgargóðgætið. Það er hægt að dýfa hvaða ávöxtum sem er í hana en við mælum sérstaklega með berjum og bönunum. Einfalt og vinsælt!
Nutellaídýfa – uppskrift frá Mitt Kök
- 2,25 dl rjómi
- 2,25 dl rjómaostur (ég var með frá Philadelphia)
- 1,5 – 2 dl Nutella
- 3 msk flórsykur
Þeytið rjómann loftkenndan og léttann. Setjið rjómaost og flórsykur í aðra skál og hrærið saman. Hrærið Nutella saman við rjómaostinn. Hrærið að lokum þeytta rjómanum varlega saman við.
Setjið í skál og berið fram með ávöxtum, berjum og/eða banana.
Ég gerði þessa fyrir Eurovisionpartýið í gær. Rosalega góð. En ég er að velta fyrir mér hvort þú hafir prófað að nota þessa uppskrift sem grunn að ostaköku? Sé alveg fyrir mér að hún gæti verið góð með hafrakexi í botninnn og jarðaberjum ofan á.
Þessi ídýfa var eftirétturinn í gær á 17 júní og úúúffffff hvað þetta er gottt sérstaklega með jarðaberjum 😋😋😋😋