Frosin Nutella-ostakaka með heslihnetum

 

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur. Ég hef undanfarin ár tekið saman árið og birt lista yfir vinsælustu uppskriftir ársins í kringum áramótin en klikkaði á því núna. Það getur þó verið að ég taki saman vinsældarlistann á næstu dögum. Mér þykir alltaf svo gaman að sjá hvaða uppskriftir falla í kramið og verða vinsælar.

Bloggfærslurnar voru færri undir lok árs en ég hefði viljað. Það gafst bara ekki tími fyrir meira. Lokaspretturinn á 2018 var öflugur með útskrift Malínar, þremur afmælum, jólahátíð, áramótum og svo Bostonferð beint í kjölfarið, þar sem ég er stödd í þessum skrifuðu orðum.

Um áramótin prófaði ég tvo nýja eftirrétti sem mig langar að setja hingað inn. Ég ætla að byrja á frosinni ostaköku sem krakkarnir elskuðu. Ég er svo hrifin af eftirréttum sem hægt er að undirbúa með góðum fyrirvara og þessi kaka er einmitt þannig. Leyfið henni aðeins að þiðna og setjið léttþeyttan rjóma og ristaðar heslihnetur yfir rétt áður en kakan er borin fram. Klikkaðslega gott!

Frosin Nutella-ostakaka með heslihnetum – Uppskrift frá Roy Fares

Botn:

  • 100 g smjör
  • 200 g digestivekex
  • 30 g sykur

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið og myljið kexið. Blandið saman hráefnunum og þrýstið blöndunni í 22 cm bökuform með lausum botni. Bakið í miðjum ofni í um 10 mínútur. Látið botninn kólna alveg áður en fyllingin er sett í hann.

Fylling:

  • 400 g Philadelphia rjómaostur, við stofuhita
  • 2,5 dl rjómi
  • 200 g Nutella
  • 100 g púðursykur
  • 1 msk vanillusykur

Hrærið saman Philadelphia rjómaosti, 0,5 dl af rjóma, Nutella, púðursykri og vanillusykri þar til blandan er létt í sér. Hrærið því sem eftir er af rjómanum saman við í smáum skömmtum og hrærið þar til fyllingin er mjúk og létt. Setjið fyllinguna í bökubotninn og látið standa í frysti í að minnsta kosti 2 klst.

Yfir kökuna:

  • 5 dl rjómi
  • 30 g ristaðar hakkaðar heslihnetur (ég þurrrista þær á pönnu)

Takið kökuna út 20 mínútum áður en hún er borin fram. Léttþeytið rjómann og setjið yfir kökuna og endið á að strá ristuðum hökkuðum heslihnetum yfir.

*Færslan er unnin í samstarfi við Innnes

Súkkulaðimús með bismark

Gleðilega hátíð kæru lesendur. Ég er með smá móral yfir að hafa ekki litið hingað inn fyrr en þessi jól fara í sögubækurnar þegar að veisluhöldum kemur. Malín útskrifaðist úr Menntaskólanum í Kópavogi 20. desember og við vorum með útskriftarveislu um kvöldið. Ég fór út að borða á afmælinu mínu, bæði í hádeginu og um kvöldið, og á þorláksmessukvöldi fórum við í humarsúpu á Messann og röltum svo Laugarveginn. Yndislegir dagar!

Jólin voru hefðbundin. Mamma og Eyþór bróðir komu til okkar á aðfangadag og jóladegi var eytt í náttfötum með bók í sófanum þar til við fórum í hangikjöt til mömmu um kvöldið. Allar uppskriftir af jólamatnum held ég að séu löngu komnar hingað inn en í ár gerði ég nýja útfærslu af súkkulaðimúsinni sem mig langar að deila með ykkur. Krakkarnir elska súkkulaðimús og hún er því ósjaldan hér á borðum þegar þau fá að velja eftirréttinn.

Súkkulaðimús með bismark (fyrir 8)

  • 150 g súkkulaði með bismark (ég var með frá Nóa Síríus)
  • 50 g suðusúkkulaði
  • 4 eggjarauður
  • 5 dl rjómi

Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Látið það kólna aðeins áður en eggjarauðum er hrært saman við. Hrærið þar til blandan er orðin slétt (ef hún verður kekkjótt eða of þykk er smá rjóma hrært saman við).

Þeytið rjómann en alls ekki of stífann. Hrærið léttþeyttum rjómanum saman við súkkulaðiblönduna í smáum skömmtum með sleikju. Hrærið blöndunni varlega saman þar til hún hefur blandast vel.

Látið súkkulaðimúsina standa í ísskáp þar til hún hefur stífnað. Berið fram með berjum og jafnvel þeyttum rjóma.

Banana-Dumle súkkulaðimús

Ég hef sagt frá því áður hér á blogginu að ég er búin að vera með algjört æði fyrir banana Dumle karamellunum sem hafa fengist síðan í sumar. Ég vil ekki vita hvað ég hef keypt marga poka af þeim og þeir eru alltaf fljótir að tæmast hér heima.

Ég bakaði kökulengjur úr karamellunum um daginn sem ég borðaði beint af ofnplötunni því þær voru gjörsamlega ómótstæðilegar. Síðan prófaði ég að gera súkkulaðimús úr þeim við ekki minni vinsældir. Þetta er einfaldasta súkkulaðimús sem hægt er að gera (hér er hún með hefðbundum Dumle karamellum) en það er þó best að bræða karamellurnar kvöldið áður svo blandan sé orðin vel köld þegar hún er þeytt upp. Ég setti banana og Daimkurl yfir músina sem kom mjög vel út en ég hugsa að það gæti líka komið vel út að skipta Daimkurlinu út fyrir hakkað súkkulaði. Þetta verðið þið að prófa!

Banana-Dumle súkkulaðimús

  • 1 poki banana-Dumle karamellur
  • 3 dl rjómi
  • Daimkurl og bananar sem skraut (má sleppa)

Skerið Dumle-karamellurnar í bita og leggið í skál. Hitið rjómann í potti að suðu og hellið yfir karamellurnar. Hrærið í blöndunni þar til karamellurnar hafa bráðnað og blandan er orðin slétt. Geymið í ísskáp yfir nóttu.

Takið karamellurjómann úr ísskápnum og hrærið í hrærivél þar til óskaðri áferð er náð. Setjið í skálar og skreytið með bönunum og Daimkurli.

After Eight súkkulaðimús

Ég hef varla verið heima undanfarnar vikur og hef því lítið náð að dunda mér í eldhúsinu. Það styttist þó í að það fari að róast hjá mér og þegar það gerist verður vonandi meira líf hér á blogginu því ég með langan lista af uppskriftum sem mig langar að prófa.

Þangað til nýt ég góðs af uppskriftum sem eiga eftir að fara hingað inn, eins og þessi súkkulaðimús. Þeir sem lesa hér reglulega vita eflaust að súkkulaðimús er sá eftirréttur sem ég geri hvað oftast því börnin mín vita fátt betra. Um daginn breytti ég út af vananum og bætti After Eight í súkkulaðimúsina. Útkoman var æðisleg!

After Eight súkkulaðimús ( uppskrift fyrir 6)

  • 100 g suðusúkkulaði
  • 15 plötur After Eight
  • 3 eggjarauður
  • 5 dl rjómi

Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Látið það kólna aðeins áður en eggjarauðum er hrært saman við. Hrærið þar til blandan er orðin slétt (ef hún verður kekkjótt eða of þykk er smá rjóma hrært saman við).

Þeytið rjómann en alls ekki of stífann. Hrærið léttþeyttum rjómanum saman við súkkulaðiblönduna í smáum skömmtum með sleikju. Hrærið blöndunni varlega saman þar til hún hefur blandast vel.

Setjið súkkulaðimúsina í skálar og látið standa í ísskáp þar til hún hefur stífnað. Berið fram með berjum og jafnvel þeyttum rjóma.

 

Kókoskúlur í ofnskúffu

Getum við verið sammála um að heimagerðar kókoskúlur eru óstjórnlega góðar? Sérstaklega þegar þær eru súkkulaðihúðaðar eins og þessar. Þegar þær eru kaldar úr ísskápnum þá er ekki hægt að standast þær með kaffibollanum. Það fer svo brjálæðislega vel saman.

Eins og mér þykja kókoskúlur góðar þá nenni ég sjaldan að gera þær. Jakob tekur sig stundum til og gerir skammt en er þá oftast fljótur að klára þær sjálfur, ef hann býður ekki vinum sínum upp á þær. Ég datt því heldur betur í lukkupottinn þegar ég sá þessa snjöllu aðferð á Instagram, að setja deigið einfaldlega í ofnskúffu, setja súkkulaði og kókos yfir og skera síðan í passlega stóra bita. Tekur enga stund. Stórkostlegasta uppfinning ever!

Kókoskúlur í ofnskúffu

  • 400 g smjör við stofuhita
  • 2 dl flórsykur
  • 1 dl kakó
  • 1 dl Nesquik (eða annað drykkjarkakaó)
  • 2 msk vanillusykur
  • 1 dl kaffi
  • 100 g rjómasúkkulaði
  • um 18 dl haframjöl

Yfir kókoskúlurnar

  • 200 g súkkulaði (ég var með suðusúkkulaði)
  • kókosmjöl

Byrjið á að þeyta smjör og flórsykur saman þar til blandan verður létt. Bætið kakói, Nesquik, vanillusykri, kaffi og bræddu rjómasúkkulaði í skálina og hrærið öllu vel saman. Hrærið haframjöli smátt og smátt saman við þar til réttri áferð er náð. Blandan á að vera blaut í sér en þéttur massi. Þrýstið blöndunni í ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír og látið standa í ísskáp í smá stund.

Bræðið súkkulaðið til að setja yfir kókoskúlurnar og dreifið því yfir kókoskúludeigið. Stráið kókosmjöli yfir og látið síðan standa í ísskáp í um 30 mínútur.

Skerið kókoskúlurnar í bita. Geymið í loftþéttum umbúðum í ísskáp eða frysti.

Súkkulaðikaka í steypujárnspönnu

Mér þykir gaman að setja inn uppskriftir fyrir helgar sem gætu hentað sem helgarmatur. Nú er hins vegar ekki um auðugan garð að gresja í uppskriftabankanum hjá mér þar sem ég hef satt að segja ekki staðið mig neitt sérlega vel í eldhúsinu upp á síðkastið. Eftir að við komum frá New York hefur verið stöðugt útstáelsi á mér og eini maturinn sem ég hef reitt fram eru hversdagsréttir á borð við steiktan fisk, pulsupasta og hakk og spaghetti.

Ég ætla því að gefa uppskrift af köku núna og það ætti enginn að verða svikinn af henni. Kakan er algjör súkkulaðidraumur! Ef þið eigið ekki steypujárnspönnu þá er hægt að nota eldfast mót eða venjulegt kökuform. Ég notaði pönnuna af því að ég hafði fyrir því að drösla henni heim frá Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum og hef lítið sem ekkert notað hana síðan þá (ég furða mig á útlitinu á henni því hún er svo lítið notuð). Það var því kominn tími til að draga hana fram. Berið kökuna fram heita með ís og jafnvel auka súkkulaðisósu. Súpergott!!

Súkkulaðikaka í steypujárnspönnu

  • 100 g smjör
  • 1 dl hveiti
  • 3 dl sykur
  • 3 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 tsk salt
  • 3 egg

Bræðið smjörið. Blandið þurrefnunum saman og hrærið þeim út í smjörið. Hrærið eggjunum saman við og hellið deiginu í steypijárnspönnu. Bakið við 175° í um 15 mínútur. Gerið súkkulaðikremið á meðan.

Súkkulaðikrem

  • 200 g mjólkur- eða rjómasúkkulaði, gjarnan með hnetum í (ég var með mjólkursúkkulaði með salthnetum í)
  • 1 dl rjómi

Bræðið súkkulaði og rjómi saman í potti. Hellið blöndunni yfir kökuna þegar hún kemur úr ofninum. Látið standa í smá stund (þannig að mesti hitinn rjúki úr henni) en berið kökuna fram meðan hún er ennþá heit/volg.

Gino

Einn af mínum uppáhalds veitingastöðum er Pa&Co í Stokkhólmi. Staðurinn er lítill, heimilislegur og alltaf þéttsetinn, handskrifaði matseðillinn sem hangir á veggnum er breytilegur og það virðist allt sem kemur úr eldhúsinu þeirra vera ólýsanlega gott. Ég hef tvisvar verið komin með matreiðslubókina sem þeir gáfu út í hendurnar en í bæði skiptin hætt við að kaupa hana, því mér þykja uppskriftirnar í henni ekki í takt við staðin (á staðnum er meiri heimilismatur en er í bókinni) og því hún er svo stór og plássfrek að ferðast með. Einhvern daginn fær hún kannski að fylgja með heim og reyna að standa undir vætningum. Nú veit ég ekki hvort sagan sé sönn en ég las einhvers staðar að einfaldi eftirrétturinn Gino komi upphaflega frá Pa&Co og það kæmi mér ekki á óvart ef satt reynist. Ótrólega einfaldur og brjálæðislega góður!

Gino (uppskrift fyrir 4-5)

  • 2 bananar
  • 4 kíví
  • 500 g jarðaber
  • 150 g hvítt súkkulaði

Meðlæti:

  • vanilluís eða rjómi

Hitið ofninn í 220°. Afhýðið banana og kíví og skerið í sneiðar. Skerið jarðaberin í sneiðar. Leggið ávextina í eldfast mót. Rífið súkkulaðið og stráið yfir. Gratínerið í ofninum í 4-5 mínútur eða þar til súkkulaðið hefur fengið stökka húð.

Berið strax fram með vanilluís eða rjóma.

Crépes með nutellamús

Ég hef í gegnum tíðina eignast svo mikið af matreiðslubókum að ég hef varla pláss fyrir fleiri. Ég reyni því að sitja á mér og kaupa ekki fleiri bækur en það er erfitt þegar það koma svo margar áhugaverðar út á hverju ári. Ég get skoðað þær endalaust en er því miður ekki jafn dugleg að nota uppskriftirnar. Það koma þó stundir sem ég tek mig á og þá gerast oft spennadi hlutir í eldhúsinu.

Fyrir jólin 2016 pantaði ég mér nokkrar bækur á netinu. Ég var búin að setja allt of margar bækur í körfu og endaði á að skilja matreiðslubækurnar eftir og kaupa frekar skáldsögur til að hafa yfir jólin. Malín stalst hins vegar í tölvuna mína þegar ég sá ekki til og sá hvaða bækur ég hafði skilið eftir í körfunni og pantaði þær. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég opnaði jólagjöfina frá henni og sá matreiðslubækurnar sem mig hafði langað  svo í en ekki pantað. Það sem ég var glöð!

Það gerðist svo núna, rétt rúmu ári síðar, að ég lét verða af því að gera eftirrétt úr einni bókinni, Pernillas Kök.. Eftir að hafa lesið bókina fram og til baka og í marga hringi varð crépes með nutellamús fyrir valinu. Þetta var svo brjálæðislega gott að það náði engri átt! Þetta skuluð þið prófa.

Crépes með nutellamús (uppskrift fyrir 4)

Crepes

  • 2 dl hveiti
  • 3 dl mjólk
  • 2 egg
  • 1/2 tsk salt
  • 1 tsk sykur
  • smjör til að steikja úr

Nutellamús

  • 1 dl nutella
  • 2 dl rjómi

Skraut

  • fersk ber
  • súkkulaðisósa
  • grófhakkaðar, ristaðar heslihnetur (ég sleppti þeim)

Setjið hveiti og mjólk í skál og hrærið saman. Hrærið eggjunum saman við og að lokum sykri og salti. Hrærið þar til deigið er slétt. Látið deigið standa í smá stund áður en pönnukökurnar eru steiktar. Bræðið smá smjör á pönnukökupönnu fyrir hverja pönnuköku og steikið þær gylltar á báðum hliðum. Leggið þær til hliðar og látið kólna.

Setjið nutella í skál með 1 dl af rjóma. Hrærið með handþeytara eða í hræivél þar til blandan hefur myndað slétta og loftkennda mús. Þeytið það sem eftir var af rjómanum í annarri skál og blandið svo varlega saman við nutellamúsina.

Fyllið pönnukökurnar með nutellamúsinni. Brjótið þær saman og setjið fersk ber, hakkaðar hnetur og súkkulaðisósu yfir.

 

SaveSave

SaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Fimm tillögur að áramótaeftirréttum

Það styttist óðum í gamlárskvöld og eflaust flestir búnir að negla matseðilinn niður. Ef einhver er að vandræðast yfir eftirréttnum þá koma hér fimm stórgóðar tillögur!

Súkkulaðibaka með sætum rjóma og berjum

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin

Sítrónumús með lakkrísskífu

Nutelladip

Djúpsteikt Oreo með súkkulaðisósu og ís

 

SaveSave

SaveSave

Gleðileg jól

Gleðilega hátíð kæru lesendur. Bloggið fór óvænt í smá jólafrí vegna veikinda og anna fyrir jól og síðan datt ég í heimsins mesta letikast yfir jólin og fór bara úr náttfötunum rétt til að mæta í jólaboð. Annars hef ég bara legið í sófanum og lesið á milli þess sem ég hef borðað jólamat og súkkulaði. Ég áttaði mig á því í dag að ég hef ekki einu sinni kveikt á sjónvarpinu öll jólin (það hefur samt verið í stöðugri Playstation notkun hjá strákunum). Ég hef þó verið nokkuð öflug á Instastories yfir jólin, eins og kannski einhverjir hafa orðið varir við.

Jólin voru í einu orði sagt yndisleg. Ég eldaði tvo hamborgarahryggi á aðfangadag sem við borðuðum í þrjá daga en í gærkvöldi fengum við nóg og drógum fram osta og rauðvín í kvöldmatinn. Krakkarnir voru í jólaboði og við vorum bara tvö heima þannig að það var upplagt að sleppa eldamennskunni. Þegar ég segist vera með osta og rauðvín í kvöldmatinn fæ ég stundum spurningar um hvort ég fái mér bara osta í kvöldmat. Stundum höfum við skinkur og salami eða annað plokk með en mín vegna má sleppa því. Við höfum þó oftast snittubrauð eða kex og einhverja góða sultu með. Ég er botnlaus þegar kemur að ostum og þegar við erum bara tvö í mat þá höfum við oftar en ekki osta eða sushi í matinn. Nýjasta æðið er salami með sterka sinnepinu sem er á myndinni og primadonna (skellt í hálfgerða samloku með sinnepinu á milli). Það er brjálæðislega góð blanda.

Það er hefð hjá okkur að vera með möndlugrautinn í hádeginu á aðfangadag. Gunnar er nánast ósigrandi þegar kemur að möndlugjöfum (og bingói, hann mokar alltaf til sín vinningum þar) og í ár ákvað Malín að prófa að stela sætinu við eldhúsborðið af honum, ef ske kynni að lukkan fylgdi því. Það virkaði og Malín fékk loksins möndluna. Mig grunar að það verði barist harkalega um þennan lukkustól um næstu jól…

Ég er í löngu jólafríi þetta árið sem ég ætla að njóta til hins ýtrasta. Við erum farin að huga að áramótamatnum en ég ætla að hvíla kalkúninn þetta árið. Planið er að hafa humar í forrétt og nautalund í aðalrétt. Ég hlakka til!

Ég ætla að slá botninn í þetta í bili og enda á uppskriftinni að jólaísnum okkar. Ég sýndi á Instastories hversu einfalt er að gera ísinn en það tekur grínlaust 5 mínútur að græja hann. Þessi ís er svo mjúkur og góður og það er hægt að bragðbæta hann hvernig sem er. Við vorum líka með súkkulaðimús (Gunnar óskar alltaf eftir súkkulaðimús þegar eitthvað stendur til) og þessi blanda fer svakalega vel saman á eftirréttaborðinu.

Bismark ís

  • 5 dl rjómi
  • 1 dós sæt niðursoðin mjólk
  • 1 poki bismark brjóstsykur (mulinn í matvinnsluvél eða með kökukefli/buffhamri)

Rjóminn er þeyttur þar til hann byrjar að mynda mjúka toppa. Hrærið áfram á lágum hraða og bætið niðursoðnu mjólkinni út í í mjórri bunu. Blandið vel saman. Hrærið brjóstsykrinum saman við og frystið í minnst 6 klukkutíma.

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave