Ég sá að læknirinn í eldhúsinu leyfir dóttir sinni að sjá um kvöldmatinn einu sinni í viku. Mér þykir það stórsniðugt og ákvað að stela hugmyndinni eins og hún leggur sig. Við ákváðum að byrja með að prófa þetta í október, Malín sá um kvöldmatinn þriðjudagskvöldið í síðustu viku og Gunnar í þessari viku.
Það er áhugavert að sjá hvað krakkarnir velja að hafa í matinn og gaman að sjá hvað þau eru áhugasöm. Malín ætlaði að steikja fisk en breytti yfir í soðinn fisk á síðustu stundu. Gunnar valdi að elda pylsupasta. Ég er þeim því innan handar í eldhúsinu en þau fá að spreyta sig á matseldinni sjálf. Þetta er sérlega skemmtilegt. Þessi kvöld eru orðin að tilhlökkunarefni því ég fæ gæðastund með einu barni í einu og svo er gaman að sjá þau stolt bera kvöldmatinn á borð. Læknirinn á hrós skilið, bæði fyrir skemmtilegt blogg og góða hugmynd!
Pylsupasta með piparostasósu
- 10 pylsur (ég nota SS-pylsur)
- smjör
- 1 piparostur
- ½ líter matreiðslurjómi
- ½ grænmetisteningur
- smá cayanne pipar
Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakka.
Skerið pylsurnar í bita og steikið á pönnu upp úr smjörinu. Þegar pylsurnar eru komnar með fallega húð er matreiðslurjómanum hellt yfir og smátt skornum piparostinum og grænmetisteningnum bætt í. Látið sjóða þar til osturinn hefur bráðnað og smakkið til með cayanne pipar.
Þetta er frábær hugmynd, flottur strákur sem þú átt 🙂