Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!

 

Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!

Það hefur verið mikið beikonæði hjá strákunum hér á heimilinu undanfarnar vikur og á tímabili kom ég varla heim úr vinnunni án þess að beikonlykt tæki á móti mér. Ég ákvað að lokum draga úr beikoninnkaupum því það getur bara ekki verið neinni manneskju gott að borða svona mikið beikon.

Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!

Ég bauð þó upp á fljótlegt carbonara hér í síðustu viku við miklar vinsældir. Svo miklar að það var ekki svo mikið sem ein makkaróna eftir af matnum! Réttinn tekur örskamma stund að gera, er með fáum hráefnum og hentar því fullkomlega í amstri dagsins.

Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!

Makkarónu carbonara – uppskrifti fyrir 5

 • 500 g makkarónur (ósoðnar)
 • 300 g beikon
 • 6 eggjarauður
 • 150 g parmesan, rifinn
 • salt og pipar

Sjóðið makkarónurnar eftir leiðbeiningum á pakkningu. Takið um 1-2 dl af pastavatninu frá áður en því er hellt af soðnum makkarónunum.

Skerið beikonið í teninga/sneiðar. Hitið ólífuolíu á pönnu og steikið beikonið þar til það er orðið stökkt. Bætið makkarónum á pönnuna ásamt parmesanostinum. Hrærið saman þannig að osturinn bráðni. Bætið pastavatni saman við þannig að blandan fái mjúka áferð. Takið pönnuna af hitanum og hrærið eggjarauðum saman við. Smakkið til með salti og vel af pipar. Berið fram með auka parmesanosti.

Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!

 

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Í gærkvöldi kom ég í seint heim og þá hentaði ósköp vel að eiga hráefni í einfaldasta og fljótgerðasta pastarétt sem ég veit um. Kvöldmaturinn var kominn á borðið á innan við 15 mínútum eftir að ég kom heim og var svo dásamlega góður.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Ég nota ferskt tortellini í þennan rétt, það þarf að sjóða í 1 mínútu og er mjög gott. Salvíusmjörið tekur nokkrar mínútur að útbúa og þá er rétturinn tilbúinn. Ég bar hann fram með hvítlauksbrauði ásamt vel af parmesan og smá rauðu í glasinu. Dásemdar veislumatur!

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri (uppskrift fyrir 2)

 • 50 g smjör
 • 10 fersk salvíublöð
 • 1½  msk hunang
 • 2 msk balsamik edik
 • maldonsalt
 • svartur pipar úr kvörn
 • parmesan
 • Ferkst tortellini, gjarnan með ostafyllingu eða skinku- og ostafyllingu

Bræðið smjörið í potti (eða á lítilli pönnu) og bætið salvíublöðunum í. Látið malla við miðlungsháan hita þar til smjörið hefur brúnast. Bætið hunangi og balsamik ediki saman við og smakkið til með salti og pipar. Sjóðið tortellini samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Blandið sósunni saman við nýsoðið tortellini og stráið ríkulega af rifnum parmesan yfir.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöriHér hefur smjörið verið brætt og salvíu bætt á pönnuna

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöriHér er smjörið tekið að brúnast

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Hér hefur hunangi og balsamik edik verið bætt saman við. Tilbúið!

 

Pylsupasta með piparostasósu – Gunnar Berg eldar

Pylsupasta með piparostasósu

Ég sá að læknirinn í eldhúsinu leyfir dóttir sinni að sjá um kvöldmatinn einu sinni í viku. Mér þykir það stórsniðugt og ákvað að stela hugmyndinni eins og hún leggur sig. Við ákváðum að byrja með að prófa þetta í október, Malín sá um kvöldmatinn þriðjudagskvöldið í síðustu viku og Gunnar í þessari viku.

Pylsupasta með piparostasósu

Það er áhugavert að sjá hvað krakkarnir velja að hafa í matinn og gaman að sjá hvað þau eru áhugasöm. Malín ætlaði að steikja fisk en breytti yfir í soðinn fisk á síðustu stundu. Gunnar valdi að elda pylsupasta. Ég er þeim því innan handar í eldhúsinu en þau fá að spreyta sig á matseldinni sjálf. Þetta er sérlega skemmtilegt. Þessi kvöld eru orðin að tilhlökkunarefni því ég fæ gæðastund með einu barni í einu og svo er gaman að sjá þau stolt bera kvöldmatinn á borð. Læknirinn á hrós skilið, bæði fyrir skemmtilegt blogg og góða hugmynd!

Pylsupasta með piparostasósu

Pylsupasta með piparostasósu

 • 10 pylsur (ég nota SS-pylsur)
 • smjör
 • 1 piparostur
 • ½ líter matreiðslurjómi
 • ½ grænmetisteningur
 • smá cayanne pipar

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakka.

Skerið pylsurnar í bita og steikið á pönnu upp úr smjörinu. Þegar pylsurnar eru komnar með fallega húð er matreiðslurjómanum hellt yfir og smátt skornum piparostinum og grænmetisteningnum bætt í. Látið sjóða þar til osturinn hefur bráðnað og smakkið til með cayanne pipar.

Franskt makkarónunámskeið hjá Salt eldhúsi og einfalt pylsupasta

Þessi vika hefur verið ein sú annasamasta í langan tíma en jafnframt æðislega skemmtileg. Ég fór á þriðjudaginn á frábært makkarónunámskeið hjá Salt eldhúsi. Ég var búin að heyra góðar sögur af því og fór full af tilhlökkun og spennu. Námskeiðið er haldið í fallegu bakhúsi á Laugarveginum og um leið og ég gekk inn vissi ég að kvöldið ætti eftir að vera gott. Okkur var strax boðið upp á kaffi og heimabakaðar sörur og allir fengu uppskriftarmöppu. Síðan var byrjað að baka makkarónurnar og það sem ég naut mín. Ég vildi ekki að kvöldið tæki enda og það hreinlega flaug frá mér. Þegar ég kom heim var ég svo uppnumin og langaði svo til að segja Ögga frá því hversu dásamlegt kvöldið hafði verið en ég gat það ekki. Það er svo erfitt að lýsa svona upplifun, andrúmsloftið var svo notalegt og umhverfið svo fallegt. Ég er enn að hugsa um hvað súpan og heimabakaða brauðið sem boðið var upp á í matarpásunni var gott og bíð spennt eftir að borða makkarónurnar sem eru svo fallegar að ég er alltaf að opna ískápinn bara til að kíkja á þær. Ég er að spara þær til kvöldsins því þá ætlum við Öggi að fá okkur kampavínsglas og makkarónur og ímynda okkur að við séum í París.

Ég sá að nú var að byrja nýtt námskeið fyrir jólin, Jóla-Galdrar. Þar á að búa til konfekt, baka sörur, gera chutney, paté, rauðkál og margt fleira spennandi og ég er þegar búin að skrá mig.  

Þar sem vikan var svona þéttbókuð þá hef ég ekki náð að sinna blogginu eins og ég vil. Núna er ég hins vegar búin að svara þeim spurningum  sem ég hef fengið, bæði í kommentum og á tölvupóstum, og ég vona að ekkert hafi farið framhjá mér. Enn og aftur vil ég þakka allar fallegu kveðjurnar og kommentin, mér þykir svo gaman að heyra frá ykkur og þið gerir bloggið svo skemmtilegt. Þúsund þakkir og takk fyrir mig.

Á öllum þessum handahlaupum hefur lítill tími gefist til dundurs í eldhúsinu. Þessi einfaldi pastaréttur varð til í einum hvelli og öllum þótti mjög góður. Notið þau krydd sem ykkur þykja góð og smakkið til.

Einfalt pylsupasta

 • 10 pylsur
 • 1 laukur
 • 1-2 grænar paprikur
 • 1 dós sýrður rjómi
 • 3 dl matreiðslurjómi
 • krydd lífsins frá Pottagöldrum
 • basil
 • oregano
 • timjan
 • cayenne pipar
 • salt
 • smjör

Skerið pylsur í bita og laukinn smátt. Steikið upp úr smjöri á pönnu. Bætið rjóma og sýrðum rjóma á pönnuna ásamt kryddum. Að lokum er fínhökkaðri papriku bætt út í og látið sjóða þar til hún verður mjúk. Berið fram með pasta.