Súkkulaðikaka í steypujárnspönnu

Mér þykir gaman að setja inn uppskriftir fyrir helgar sem gætu hentað sem helgarmatur. Nú er hins vegar ekki um auðugan garð að gresja í uppskriftabankanum hjá mér þar sem ég hef satt að segja ekki staðið mig neitt sérlega vel í eldhúsinu upp á síðkastið. Eftir að við komum frá New York hefur verið stöðugt útstáelsi á mér og eini maturinn sem ég hef reitt fram eru hversdagsréttir á borð við steiktan fisk, pulsupasta og hakk og spaghetti.

Ég ætla því að gefa uppskrift af köku núna og það ætti enginn að verða svikinn af henni. Kakan er algjör súkkulaðidraumur! Ef þið eigið ekki steypujárnspönnu þá er hægt að nota eldfast mót eða venjulegt kökuform. Ég notaði pönnuna af því að ég hafði fyrir því að drösla henni heim frá Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum og hef lítið sem ekkert notað hana síðan þá (ég furða mig á útlitinu á henni því hún er svo lítið notuð). Það var því kominn tími til að draga hana fram. Berið kökuna fram heita með ís og jafnvel auka súkkulaðisósu. Súpergott!!

Súkkulaðikaka í steypujárnspönnu

  • 100 g smjör
  • 1 dl hveiti
  • 3 dl sykur
  • 3 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 tsk salt
  • 3 egg

Bræðið smjörið. Blandið þurrefnunum saman og hrærið þeim út í smjörið. Hrærið eggjunum saman við og hellið deiginu í steypijárnspönnu. Bakið við 175° í um 15 mínútur. Gerið súkkulaðikremið á meðan.

Súkkulaðikrem

  • 200 g mjólkur- eða rjómasúkkulaði, gjarnan með hnetum í (ég var með mjólkursúkkulaði með salthnetum í)
  • 1 dl rjómi

Bræðið súkkulaði og rjómi saman í potti. Hellið blöndunni yfir kökuna þegar hún kemur úr ofninum. Látið standa í smá stund (þannig að mesti hitinn rjúki úr henni) en berið kökuna fram meðan hún er ennþá heit/volg.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s