Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!

 

Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!

Það hefur verið mikið beikonæði hjá strákunum hér á heimilinu undanfarnar vikur og á tímabili kom ég varla heim úr vinnunni án þess að beikonlykt tæki á móti mér. Ég ákvað að lokum draga úr beikoninnkaupum því það getur bara ekki verið neinni manneskju gott að borða svona mikið beikon.

Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!

Ég bauð þó upp á fljótlegt carbonara hér í síðustu viku við miklar vinsældir. Svo miklar að það var ekki svo mikið sem ein makkaróna eftir af matnum! Réttinn tekur örskamma stund að gera, er með fáum hráefnum og hentar því fullkomlega í amstri dagsins.

Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!

Makkarónu carbonara – uppskrifti fyrir 5

  • 500 g makkarónur (ósoðnar)
  • 300 g beikon
  • 6 eggjarauður
  • 150 g parmesan, rifinn
  • salt og pipar

Sjóðið makkarónurnar eftir leiðbeiningum á pakkningu. Takið um 1-2 dl af pastavatninu frá áður en því er hellt af soðnum makkarónunum.

Skerið beikonið í teninga/sneiðar. Hitið ólífuolíu á pönnu og steikið beikonið þar til það er orðið stökkt. Bætið makkarónum á pönnuna ásamt parmesanostinum. Hrærið saman þannig að osturinn bráðni. Bætið pastavatni saman við þannig að blandan fái mjúka áferð. Takið pönnuna af hitanum og hrærið eggjarauðum saman við. Smakkið til með salti og vel af pipar. Berið fram með auka parmesanosti.

Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!Makkarónu carbonara með aðeins 4 hráefnum!

 

Pylsupasta sem rífur í

Pylsupasta sem rífur í

Í einum af dýrustu og annasömustu mánuðum ársins passar kannski vel að koma með uppskrift af pastarétti sem tekur lítið úr buddunni og örskamma stund að útbúa. Þessi pastaréttur er svo brjálæðislega góður að það hálfa væri nóg. Ég fer varlega í cayenne piparinn út af krökkunum en það má auðvitað bæta honum yfir réttinn þegar hann er kominn á diskinn og þar með velur hver og einn styrkleikann á réttinum.

Pylsupasta sem rífur í

Pulsupasta sem rífur í

  • 10 pulsur
  • 1 græn eða rauð paprika
  • 2 skarlottulaukar
  • 3 dl rjómi
  • 1 dl sýrður rjómi
  • 1/2 dl sweet chili sósa
  • 1 tsk oregano
  • salt
  • svartur pipar
  • cayenne pipar

Skerið pulsurnar niður í bita og steikið á pönnu ásamt papriku og skarlottulauk þar til aðeins mjúkt. Bætið rjóma, sýrðum rjóma, oregano og sweet chili sósu á pönnuna og látið suðuna koma upp. Smakkið til með salti, svörtum pipar og cayenne pipar. Látið sjóða saman í um 5 mínútur.

Berið fram með pasta og nýrifnum parmesan.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Í gærkvöldi kom ég í seint heim og þá hentaði ósköp vel að eiga hráefni í einfaldasta og fljótgerðasta pastarétt sem ég veit um. Kvöldmaturinn var kominn á borðið á innan við 15 mínútum eftir að ég kom heim og var svo dásamlega góður.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Ég nota ferskt tortellini í þennan rétt, það þarf að sjóða í 1 mínútu og er mjög gott. Salvíusmjörið tekur nokkrar mínútur að útbúa og þá er rétturinn tilbúinn. Ég bar hann fram með hvítlauksbrauði ásamt vel af parmesan og smá rauðu í glasinu. Dásemdar veislumatur!

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri (uppskrift fyrir 2)

  • 50 g smjör
  • 10 fersk salvíublöð
  • 1½  msk hunang
  • 2 msk balsamik edik
  • maldonsalt
  • svartur pipar úr kvörn
  • parmesan
  • Ferkst tortellini, gjarnan með ostafyllingu eða skinku- og ostafyllingu

Bræðið smjörið í potti (eða á lítilli pönnu) og bætið salvíublöðunum í. Látið malla við miðlungsháan hita þar til smjörið hefur brúnast. Bætið hunangi og balsamik ediki saman við og smakkið til með salti og pipar. Sjóðið tortellini samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Blandið sósunni saman við nýsoðið tortellini og stráið ríkulega af rifnum parmesan yfir.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöriHér hefur smjörið verið brætt og salvíu bætt á pönnuna

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöriHér er smjörið tekið að brúnast

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Hér hefur hunangi og balsamik edik verið bætt saman við. Tilbúið!

 

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÞvílík helgi sem við fengum! Ég og strákarnir nýttum veðurblíðuna á laugardeginum og fórum í dagsferð um suðurlandið með vinkonu minni. Við heimsóttum meðal annars sundlaugina á Hellu (frábær sundlaug), Seljalandsfoss og vinnufélaga okkar sem var staddur í Þykkvabænum. Ferðina enduðum við síðan í þriggja rétta humarveislu á Fjöruborðinu á Stokkseyri. Æðislegur dagur í alla staði.

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Við vorum ekki í neinu stuði fyrir fisk í kvöld og ég skellti því í stórgóðan pastarétt sem við fáum seint leið á. Þessi hefur lengi verið í uppáhaldi og ég geri yfirleitt tvöfaldan skammt því krökkunum þykir svo gott að hita hann upp daginn eftir. Það er svo einfalt og fljótlegt að útbúa þennan rétt og í kvöld lögðum við á borð í sjónvarpsholinu og horfðum á Tyrant yfir matnum. Frábærir þættir sem eru sýndir seint á sunnudagskvöldum og því hentar okkur betur að taka þá á frelsinu daginn eftir. Ég mæli með þeim ef ykkur vantar þætti til að horfa á!

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Pasta í rjómasósu með beikoni og sveppum (uppskrift fyrir 3-4)

  • 250 g sveppir (1 box)
  • 130 g beikon (ég nota 1 bréf af eðalbeikoni)
  • 1 laukur
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 2 dl rjómi
  • 1/2 grænmetisteningur
  • salt og pipar
  • smá af cayenne pipar (má sleppa)

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Skerið sveppina í fernt, hakkið laukinn og skerið beikonið í bita. Hitið smjör á pönnu (mér þykir alltaf betra að steikja úr smjörlíki) og steikið sveppina þar til þeir eru komnir með góða steikingarhúð, bætið þá lauk og beikoni á pönnuna og steikið áfram þar til beikonið er fullsteikt og laukurinn orðinn mjúkur. Hellið rjóma og sýrðum rjóma yfir og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Smakkið til með grænmetiskrafti, salti og pipar. Endið á að setja örlítið af cayenne pipar fyrir smá hita.

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu. Ég er hrifin af pastanu frá De Cecco og í þennan rétt nota ég spaghetti n°12 sem ég sýð al dente (10 mínútur). Mér þykir þykktin á því vera svo góð og passa vel í réttinn.

Blandið pastanu saman við pastasósuna og hrærið smá af pastavatninu saman við. Það skemmir ekki fyrir að rífa parmesan yfir áður en rétturinn er borinn fram en það má þó vel sleppa því. Dásamlega gott á báða vegu.

Spaghetti alla carbonara

Spaghetti alla carbonara

Það styttist í helgina og eflaust margir farnir að huga að helgarmatnum. Ég ætla því að setja inn uppskrift af einföldum en ljúffengum föstudagsmat sem tekur stutta stund að útbúa og gæti verið kjörið að enda vinnuvikuna á. Mér þykir svo notalegt að eyða föstudagskvöldunum heima og það hentar vel að borða þennan rétt í sjónvarpssófanum til að gera kvöldið enn notalegra.

Spaghetti alla carbonara

Stundum þurfa hlutirnir að gerast í einum grænum og þá koma svona uppskriftir sér vel. Þessi réttur er ó, svo góður og það tekur eflaust styttri tíma að útbúa hann en að panta pizzu. Með öðrum orðum, fullkominn föstudagsmatur!

Spaghetti alla carbonara

Spaghetti alla carbonara (fyrir 4) – uppskrift frá Allt om mat

  • 1 laukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 250 g beikon
  • 50 g pecoriono ostur
  • 50 g parmesan ostur
  • 2 msk ólífuolía
  • 2 egg
  • 2 eggjarauður
  • pipar úr kvörn
  • 400 g spaghetti

Fínhakkið lauk og skerið hvítlauk í sneiðar. Skerið beikon í bita og fínrífið pacoriono og parmesan ostana.

Hitið olíuna á pönnu og steikið hvítlaukinn í henni þar til hann byrjar að fá gylltan lit. Takið hvítlaukinn af pönnunni. Setjið lauk og beikon á pönnuna (í olíuna sem hvítlaukurinn var í) og steikið þar til laukurinn er mjúkur og beikonið fallegt á litinn, það tekur um 3 mínútur. Hrærið egg og eggjarauður saman við ostana og kryddið með pipar.

Sjóðið spaghettí samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Geymið 1 dl af pastavatninu.

Hærið saman spaghettí, lauk og beikon. Hrærið eggja- og ostablöndunni saman við og blandið vel saman. Hrærið pastavatninu saman við, smátt og smátt, þar til réttri áferð er náð. Mér þykir 1 dl. passlegt.

Berið fram með ferskrifnum parmesan, pipar og jafnvel steinselju.

Tortellini í pestósósu

Ferskt tortellini í pestósósuUm helgar eyði ég yfirleitt meiri tíma í kvöldverðinn. Þá vil ég bjóða upp á betri mat og nýt þess að hafa góðan tíma í eldhúsinu. Það gerist þó að tíminn hleypur frá mér og þá þykir mér gott að eiga góðar uppskriftir sem tekur stuttan tíma að matreiða.

Á laugardaginn áttum við Malín mæðgnadag og komum seint heim. Við eyddum deginum tvær saman, litum í búðir og á kaffihús, keyptum smá jólaskraut og enduðum á því að gera vikuinnkaupin. Þegar við komum heim fór ég í eldhúsið og útbjó ljúffengan pastarétt sem tók svo stuttan tíma að elda að Öggi rétt náði að leggja á borð og kveikja á kertum áður en maturinn var tilbúinn.

Ferskt tortellini í pestósósu

Það sem gerir réttinn svona fljótlegan er að ég notaði ferskt tortelini sem þarf bara að sjóða í 1 mínútu. Mér þykir ferskt tortellini sérlega gott og það er hægt að leika sér endalaust með það. Á laugardaginn bjó ég til sósu úr pestó, rjóma og ferskrifnum parmesan og blandaði saman við pastað ásamt rauðri papriku, rauðlauk og kirsuberjatómötum sem ég skar niður á meðan ég beið eftir að suðan á pastavatninu kæmi upp.  Það væri líka hægt að bæta við ólívum, salami, sólþurrkuðum tómötum, ruccola, spínati eða hverju því sem hugurinn girnist. Með góðu pasta er ekki hægt að mistakast og best af öllu, ljúffeng máltíð stóð á eldhúsborðinu á innan við korteri.

Ferskt tortellini í pestósósu

Tortellini með rjómapestósósu

  • 2 pokar ferskt tortellini með þurrkaðri skinku og osti
  • 1 peli rjómi (2,5 dl.)
  • 1 dl grænt pestó
  • 1 dl ferskrifinn parmesan
  • 1 rauð paprika
  • 1/2-1 rauðlaukur
  • 1 pakki kirsuberjatómatar (250 g)

Ferskt tortellini í pestósósu

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningu á pakkningu. Ég var með pasta frá RANA sem þarf bara að sjóða í 1 mínútu. Setjið rjóma og pestó í pott og hitið við vægan hita þar til blandan þykknar örlítið. Hrærið parmesan út í og leggið til hliðar.

Skerið papriku og rauðlauk í fína bita og kirsuberjatómata í tvennt. Hrærið um helmingi af pestósósunni saman við pastað og blandið svo papriku, rauðlauk og kirsuberjatómötum saman við. Myljið svartan pipar yfir og endið á að rífa vel af parmesanosti yfir diskinn. Berið fram með því sem eftir var af pestósósunni, ferskum parmesan og hvítlauksbrauði.

Pylsupasta með piparostasósu – Gunnar Berg eldar

Pylsupasta með piparostasósu

Ég sá að læknirinn í eldhúsinu leyfir dóttir sinni að sjá um kvöldmatinn einu sinni í viku. Mér þykir það stórsniðugt og ákvað að stela hugmyndinni eins og hún leggur sig. Við ákváðum að byrja með að prófa þetta í október, Malín sá um kvöldmatinn þriðjudagskvöldið í síðustu viku og Gunnar í þessari viku.

Pylsupasta með piparostasósu

Það er áhugavert að sjá hvað krakkarnir velja að hafa í matinn og gaman að sjá hvað þau eru áhugasöm. Malín ætlaði að steikja fisk en breytti yfir í soðinn fisk á síðustu stundu. Gunnar valdi að elda pylsupasta. Ég er þeim því innan handar í eldhúsinu en þau fá að spreyta sig á matseldinni sjálf. Þetta er sérlega skemmtilegt. Þessi kvöld eru orðin að tilhlökkunarefni því ég fæ gæðastund með einu barni í einu og svo er gaman að sjá þau stolt bera kvöldmatinn á borð. Læknirinn á hrós skilið, bæði fyrir skemmtilegt blogg og góða hugmynd!

Pylsupasta með piparostasósu

Pylsupasta með piparostasósu

  • 10 pylsur (ég nota SS-pylsur)
  • smjör
  • 1 piparostur
  • ½ líter matreiðslurjómi
  • ½ grænmetisteningur
  • smá cayanne pipar

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakka.

Skerið pylsurnar í bita og steikið á pönnu upp úr smjörinu. Þegar pylsurnar eru komnar með fallega húð er matreiðslurjómanum hellt yfir og smátt skornum piparostinum og grænmetisteningnum bætt í. Látið sjóða þar til osturinn hefur bráðnað og smakkið til með cayanne pipar.

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Við erum ósköp löt eftir þessa stuttu vinnuviku. Það er alltaf jafn erfitt að þurfa að vakna aftur og gera eitthvað af viti eftir svona góð frí. Í kvöld nennti ég ómöglega að standa í eldhúsinu en eins og svo oft áður langaði okkur samt í eitthvað gott.

Ég leitaði í smiðju Nigellu og fann þessa einföldu uppskrift sem reyndist bjargvættur okkar í kvöld. Og þvílík dásemd sem þessi réttur var. Með svona fáum hráefnum og lítilli fyrirhöfn voru væntingarnar ekki miklar og því kom skemmtilega á óvart hvað rétturinn reyndist góður. Strákarnir voru yfir sig hrifnir og eftir matinn báðu þeir mig um að elda réttinn fljótlega aftur. Það þarf ekki að vera flókið til að vera gott.

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

  • 2 msk hvítlauksólívuolía
  • 250 g beikon
  • 250 g spaghetti
  • steinselja (má sleppa)
  • ferskur parmesanostur (má sleppa)

Hitið ofninn í 240°.  Fyllið stóran pott af vatni og látið suðuna koma upp.

Setjið hvítlauksólívuolíu í botn á ofnskúffu eða eldföstu móti. Skerið beikon í bita og blandið saman við olíuna, reynið að láta hana þekja allt beikonið.

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Þegar vatnið byrjar að sjóða er spaghettíið sett í pottinn og beikonið sett í ofninn. Spaghettíið og beikonið þurfa svipaðan eldunartíma, ca 10 mínútur.

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Þegar spaghettíið er fullsoðið er 1 bolli af spaghettívatninu lagður til hliðar og restinni hellt af. Takið beikonið úr ofninum og bætið spaghettíinu í ofnskúffuna. Blandið vel saman og bætið spaghettívatninu sem var lagt til hliðar varlega saman við. Byrjið smeð smá og bætið við eftir þörfum.

Það er gott að bera réttinn fram með ferskri steinselju og ferskrifnum parmesan og mér þykir nauðsynlegt að mylja svartan pipar yfir hann.

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Kjúklingapasta með spínati og hvítlauk

Í kvöld nutum við góðs af því að eiga afgang af kvöldmatnum síðan í gær. Við byrjuðum vikuna á pasta með kjúklingi, sveppum, hvítlauk og spínati ásamt heimabökuðu brauði með pestó og hummus. Þetta var hrein dásemd sem strákarnir voru ekki síður ánægðir með en við Öggi.

Ég eldaði hins vegar allt of mikinn mat og komst síðan að því að Malín myndi borða kvöldmat á stelpukvöldi í félagsmiðstöðinni.  Við sem eftir sátum borðuðum á okkur gat en samt sá varla högg á vatni. Ég pakkaði afgangnum inn í ískáp og var ósköp fegin að geta nýtt hann í kvöld. Þá setti ég réttinn í eldfast mót, pipraði og saltaði, og stráði rifnum osti yfir áður en ég setti hann í ofninn. Rétturinn vakti ekki minni lukku í kvöld og kláraðist upp til agna, kannski til að tryggja að hann verði ekki á borðum þriðja daginn í röð 🙂

Kjúklingapasta með spínati og hvítlauk

  • 2 bakkar kjúklingalæri
  • ólífuolía
  • 3 hvítlauksrif
  • pipar og gott salt (ég nota salt frá Jamie Oliver með sítrónu og timjan)

Hrærið saman ólífuolíu, pressuðum hvítlauskrifjum, pipar og salti og penslið á kjúklinginn. Eldið kjúklinginn í 180° heitum ofni þar til hann er eldaður í gegn.

  • 1 bakki sveppir
  • ½ laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1-2 dl rjómi
  • 1 grænmetisteningur

Sneiðið sveppi , fínhakkið lauk og hvítlauk og steikið við miðlungsháan hita upp úr smjöri.  Bætið sýrðum rjóma, rjóma og grænmetisteningi á pönnuna og látið sjóða saman við vægan hita.

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er kjötið hreinsað af beinunum og bætt út í sósuna á pönnunni ásamt soðnu pasta og fersku spínati. Kryddið með pipari og salti og berið fram með ferskum parmesan.

Pastagratin

Ég er ósköp fegin því að sjá fyrir endan á „eldað úr frystinum“ vikunni og er farin að hlakka til að skipuleggja matarinnkaupin fyrir næstu viku. Í kvöld tók ég síðasta matinn úr frystinum, nautahakksbakka, og eftir eru þá bara ís og frosnir ávextir í skyrdrykki fyrir krakkana.

Þeir allra gleggstu gætu munað eftir að ég notaði hálfan beikonsmurost í skinku- og spergilkálsbökuna á þriðjudaginn. Núna notaði ég seinni helminginn í ostasósu til að setja yfir pastagratin. Rétturinn var dásamlega góður og mjög fjölskylduvænn.

Pastagratin

  • soðið pasta
  • kjötsósa (steikið 1 bakka af nautahakki, kryddið og setjið niðursoðna tómata eða pastasósu yfir og látið sjóða saman)
  • kirsuberjatómatar
  • vorlaukur
  • mozzarella ostur

Ostasósa

  • 4 dl rjómi
  • 100 g beikonsmurostur
  • 1-2 dl rifinn ostur
  • salt og pipar

Hitið ofninn í 220°. Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu. Steikið nautahakk og kryddið eftir smekk. Setjið góða pastasósu eða niðursoðna tómata yfir og látið sjóða saman.

Setjið rjóma í pott ásamt beikonsmurostinum og látið suðuna koma upp. Bætið rifnum osti í pottinn og látið bráðna saman við. Saltið og piprið og takið af hitanum.

Setjið pastað í eldfast mót og hellið kjötsósunni yfir. Skerið kirsuberjatómata í tvennt og setjið yfir kjötsósuna ásamt niðurskornum vorlauki. Hellið ostasósu yfir og endið á að strá rifnum mozzarella yfir.

Setjið í ofn í um 20 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og fengið fallegan lit.