Kjúklingapasta með spínati og hvítlauk

Í kvöld nutum við góðs af því að eiga afgang af kvöldmatnum síðan í gær. Við byrjuðum vikuna á pasta með kjúklingi, sveppum, hvítlauk og spínati ásamt heimabökuðu brauði með pestó og hummus. Þetta var hrein dásemd sem strákarnir voru ekki síður ánægðir með en við Öggi.

Ég eldaði hins vegar allt of mikinn mat og komst síðan að því að Malín myndi borða kvöldmat á stelpukvöldi í félagsmiðstöðinni.  Við sem eftir sátum borðuðum á okkur gat en samt sá varla högg á vatni. Ég pakkaði afgangnum inn í ískáp og var ósköp fegin að geta nýtt hann í kvöld. Þá setti ég réttinn í eldfast mót, pipraði og saltaði, og stráði rifnum osti yfir áður en ég setti hann í ofninn. Rétturinn vakti ekki minni lukku í kvöld og kláraðist upp til agna, kannski til að tryggja að hann verði ekki á borðum þriðja daginn í röð 🙂

Kjúklingapasta með spínati og hvítlauk

  • 2 bakkar kjúklingalæri
  • ólífuolía
  • 3 hvítlauksrif
  • pipar og gott salt (ég nota salt frá Jamie Oliver með sítrónu og timjan)

Hrærið saman ólífuolíu, pressuðum hvítlauskrifjum, pipar og salti og penslið á kjúklinginn. Eldið kjúklinginn í 180° heitum ofni þar til hann er eldaður í gegn.

  • 1 bakki sveppir
  • ½ laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1-2 dl rjómi
  • 1 grænmetisteningur

Sneiðið sveppi , fínhakkið lauk og hvítlauk og steikið við miðlungsháan hita upp úr smjöri.  Bætið sýrðum rjóma, rjóma og grænmetisteningi á pönnuna og látið sjóða saman við vægan hita.

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er kjötið hreinsað af beinunum og bætt út í sósuna á pönnunni ásamt soðnu pasta og fersku spínati. Kryddið með pipari og salti og berið fram með ferskum parmesan.

5 athugasemdir á “Kjúklingapasta með spínati og hvítlauk

    1. Ég nota bara það pasta sem ég á að hverju sinni. Núna var ég með pasta sem ég keypti í Kosti en er því miður búin að henda pakkningunni og hef því ekki hugmynd um hvað það heitir. Það er ágætis úrval af pasta í Kosti og mér þykir gaman að kaupa nýjar tegundir þar.
      Bestu kveðjur,
      Svava.

  1. Girnilegt heimabakaða brauðið. Vildir þú vera svo væn að deila uppskriftinni að því? Takk annars fyrir síðuna þína, er búin að elda fullt af uppskriftum frá þér.

Færðu inn athugasemd