Öggi hefur oft furðað sig á því hvernig hægt sé að vera jafn mikið jólabarn og ég er. Ég hreinlega ræð ekki við mig og eftir að ég eignaðist börnin náði tilhlökkunin hæðstu hæðum. Til að toppa gleðina þá á ég afmæli 22. desember og strákarnir 27. desember. Við höfum því fulla ástæðu til að fagna desembermánuði sem styttist óðum í.
Ég reyni hvað ég get að sitja á mér og byrja ekki að hlusta á jólalögin og skreyta fyrr en í desemberbyrjun. Ég ætla þó ekki að reyna að neita því að þegar ég er ein í bílnum þá er útvarpið komið á Létt-bylgjuna áður en ég veit af. Í gær fékk ég síðan alveg frábæra hugmynd um að nýta Freemover-stjakana mína sem auka aðventuljós. Þeir eru jú fjórir (og mig dauðlangar í fleiri) og það var því lítið mál að hengja tölustafi á þá til að fá smá aðventustemningu. Nú þarf ég bara að kaupa ný kerti og þá verður þetta klárt. Aðal-aðventustjakinn kemur svo upp fyrir næstu helgi og ég hlakka svo mikið til.
Við ætlum að taka forskot á jólagleðina í dag og fara á fyrsta jólahlaðborð ársins með krakkana. Við Malín lökkuðum neglurnar með uppáhalds litnum í tilefni dagsins. Síðan er ég að spá í að baka smákökur á meðan Öggi hengir upp útiseríurnar (ó, hvað hann verður glaður þegar ég segi honum frá því).
En fyrst ætla ég að gefa uppskrift af slíkri dásemd að það er ekki hægt að lýsa því með orðum hvað hún er góð. Ég hef bakað þessa köku fyrir ótal tilefni, bæði fyrir mig og aðra, og alls staðar slær hún í gegn. Stundum sker ég hana niður í litla bita og þá er hún eins og konfektmoli. Ég veit ekki hversu oft ég hef gefið þessa uppskrift og ég gaf hana meira að segja í Gestgjafanum í haust, en ég hef þó aldrei fyrr gefið hana hér á blogginu.
Súkkulaðikaka með kókos
Botn
- 200 g smjör
- 4 egg
- 5 dl sykur
- 2 tsk vanillusykur
- ¼ tsk salt
- 1 dl kakó
- 3 dl hveiti
Ofanbráð
- 200 g gróft kókosmjöl
- 1 dl síróp
- 2 dl sykur
- 1,5 dl rjómi
- 75 g smjör
Hitið ofninn í 200°. Bræðið smjörið og leggið til hliðar. Hrærið egg og sykur saman. Hrærið vanillusykri, salti og kakói saman við. Bætið hveiti og bráðnu smjörinu saman við og hrærið þar til deigið verður slétt.
Klæðið skúffukökuform með bökunarpappír og setjið deigið í formið. Bakið í miðjum ofni í 15 mínútur.
Á meðan kakan er í ofninum er ofanbráðin gerð. Setjið síróp, sykur, rjóma, smjör og kókosmjöl í pott við meðalháan hita. Látið smjörið bráðna og blandið vel saman. Sjóðið í 5 mínútur.
Þegar kakan hefur verið í ofninum í 15 mínútur er hún tekin út og ofanbráðin smurð varlega yfir. Að því loknu er kakan sett aftur í ofninn og bökuð áfram í 10 mínútur eða þar til hún hefur fengið fallegan lit. Kakan geymist í frysti í allt að 6 mánuði og þá getur verið sniðugt að skera hana í sneiðar og raða í plastbox með smjörpappír milli laga áður en kökunni er stungið í frystinn.
Vá hvað þetta er fallegt allt saman. Fallegir litir í kökunni og jarðarberin og Marimekko skálin bara bjútífúl. Og ég verð bara að segja þér frá því að nákvæmlega þetta naglalakk Chanel Rouge noir nr 18 var vinsælasta naglalakkið í Jeddah, Sádi Arabíu árið 1996 (og pottþétt í París) og ég held ég geti fullyrt að stór hluti Air Atlanta flotans hafi átt nákvæmlega þetta naglalakk. Ég á það ennþá og tékkaði m.a.s. á því hvort þetta væri ekki það sama. Júbb og pældu í því hvað það eldist vel. Ég er að tala um að glasið mitt er 16 ára gamalt og enn í lagi….ekki í ísskáp. Chanel gæði :o)
Þetta erum við í hnotskurn Brynja! Þú alltaf jafn smart og ég tek svo við mér 16 árum síðar hihihi 🙂
Elsku Svava mín. Tengdamamma kemst bara í yndislegan jólafíling við þessa færslu hjá þér. Allt svo fallegt. Reyndar er ég búin að kaupa í þessa æðislegu köku sem þú ert með núna. Ætla að hafa hana í saumaklúbb á þriðjudaginn. – Við gæddum okkur á restinni af ostakökubrownis kökunni í gærkvöldi og hún var alveg dúndur góð, miklu betri en fyrr um daginn, þegar ég tók hana beint úr ísskápnum.
Kossar og knús í jólahús.
Þín Malín
Ég er alveg sammála þér með ostakökubrownis kökuna, hún verður bara betri eftir því sem hún eldist. Hlakka til að heyra hvernig saumaklúbbnum leist á þessa köku 🙂
Þessi er frábær – ég gerði hana upp úr Gestgjafanum um daginn – klikkar ekki frekar en annað hjá þér. Þarf að fara að koma mér í jólagírinn!
Takk fyrir góða síðu og frábærar og fjölskylduvænar uppskriftir!
Mig langar að spyrja þig hvar þú fékkst tölustafina sem þú ert með á stjökunum þínu fallegu?
Ég keypti tölustafina í Sirku á Akureyri um síðustu helgi. Þeir kostuðu rétt undir 1000 kr. allir saman 🙂
Kakan sló í gegn í fikanu í vinnunni í dag! Algjör dásemd:)
Ó, hvað mér þykir gaman að heyra þetta Unnur. Við hlökkum mikið til að fika með ykkur um jólin 🙂
Skemmtilegt bloggið þitt! og flott hvernig þú hengir tölur á kertastjakana.. gerðir þú þær sjálf úr þykkum pappa eða keyptir tölurnar?
Takk fyrir þessi fallegu orð. Ég keypti tölustafina á kertunum í Sirku á Akureyri um daginn 🙂
Hæ vil byrja á þvì að hrósa þér fyrir æðislega sìðu, enn hefur ekkert klikkað og er ég nù með sandkökuna ì ofninum og sùkkulaðikakan með kókos næst á dagskrá : fer hùn ì ofnskùffuna ?
Kveðja frá malmö
En gaman að heyra Hildur. Súkkulaðikakan með kókos fer í skúffukökuform (mitt er ca 32 x 23 cm).
Bakaði þessa fyrir vinkonu mína sem afmælisköku og VÁ hvað hún er góð og afmælisbarnið ekkert smá ánægð plús allir gestirnir 🙂
Gerði hana eina og hálfa og setti í tvö hringform, kemur mjög vel út