Mjúkís ársins 2017 og dásamleg hindberjabaka

Mjúkís ársins 2017 og dásamleg hindberjabaka

Vissuð þið að Mjúkís ársins er kominn í verslanir? Í ár er ísinn með pistasíuhnetum og fær því fullt hús stiga hjá mér. Mér þykja pistasíuhnetur svo æðislega góðar og ef þið hafið ekki smakkað þær í ís þá mæli ég með að prófa. Ísinn er dásamlegur einn og sér en þegar ég bar hann fram með nýbakaðri hindberjaböku í gær ætlaði allt um koll að keyra.

Mjúkís ársins 2017 og dásamleg hindberjabakaMjúkís ársins 2017 og dásamleg hindberjabaka

Það er allaf gott að eiga ís í frystinum því þá er hægt að galdra fram eftirrétt á svipstundu. Hér er mjög góð súkkulaðisósa sem fer frábærlega með ís. Eins þykir mér ís nánast ómissandi með heitum bökum. Eplabaka með vanilluís hittir alltaf í mark og þar sem mér þykja hindber og pistasíuhnetur passa svo vel saman þá langaði mig að sjálfsögðu að baka hindberjaböku til að bera fram með pistaísuísnum. Til að gera stórgott enn betra splæstum við í smá karamellusósu yfir.  Þetta verður seint toppað!

Mjúkís ársins 2017 og dásamleg hindberjabaka

Hindberjabaka

Deig

 • 125 g smjör
 • 1 dl sykur
 • 2 dl hveiti
 • 1 msk vanillusykur

Fylling

 • um 5 dl hindber, frosin eða fersk
 • 1 msk kartöflumjöl
 • 1 msk sykur

Hitið ofninn í 200°.

Setjið öll hráefnin í deigið saman í skál og vinnið saman með gaffli eða fingrunum þannig að úr verði mulningur

Blandið hindberjum, kartöflumjöli og sykri saman í annarri skál.

Smyrjið eldfast mót. Setjið hindberjablönduna í botninn og deigmulninginn yfir. Bakið við 200° í 25-35 mínútur, eða þar til bakan hefur fengið fallegan lit.

Berið bökuna fram heita með Mjúkís með pistasíuhnetum.

Mjúkís ársins 2017 og dásamleg hindberjabaka

 

 

 

Súkkulaðimús með Oreo og sætum rjóma

Súkkulaðimús með Oreo og sætum rjóma

Ég hef eflaust oft skrifað hér að súkkulaðimús sé uppáhalds eftirréttur strákanna. Gunnar gæti lifað á henni og fengi hann að ráða þá væri súkkulaðimús í eftirrétt á hverju kvöldi. Eftir að hafa prófað óteljandi uppskriftir þá er þessi sú sem stendur upp úr. Ég held mér orðið alfarið við hana en passa að hafa rjómann bara léttþeyttann. Það þykir mér gera músina sérlega góða. Ég ber súkkulaðimúsina alltaf fram með berjum en í gærkvöldi ákvað ég að poppa hlutina upp.

Súkkulaðimús með Oreo og sætum rjóma

Fyrir utan að gera gömlu góðu súkkulaðimúsina þeytti ég rjóma sem ég sætti aðeins og muldi Oreo kex. Þetta setti ég síðan á víxl í skálar og úr varð þessi fíni eftirréttur sem er óhætt að segja að sló í gegn!

Súkkulaðimús með Oreo og sætum rjóma (uppskrift fyrir 5)

Það sem þarf er:

Gerið súkkulaðimús (uppskriftin sem ég linka á er einföld og góð!) og leggið til hliðar.

Þeytið rjóma og flórsykur saman og leggið til hliðar.

Myljið Oreo kexið í matvinnsluvél eða með öðrum hætti.

Setjið súkkulaðimús í botn á glasi eða skál, rjóma yfir og síðan Oreo mulning. Setjið síðan annað lag af súkkulaðimús, rjóma yfir og endið á Oreo. Geymið í ísskáp þar til borið fram.

Tillögur af eftirréttum fyrir gamlárskvöld

Tillögur af eftirréttum fyrir gamlárskvöld

Eru þið búin að kíkja á útsölurnar? Ég ætla að halda mér frá þeim en gerði þó eina undantekningu og keypti mér þriggja hæða fatið sem þið sjáið hér fyrir ofan í Ilvu fyrir 1500 krónur. Mér þótti það svo fallegt og kjörið til að bera fram sætindin í um áramótin.

Tillögur af eftirréttum fyrir gamlárskvöld

Ég ætla að gera hlé á vikumatseðlinum þessa vikuna þar sem áramótin einkenna hana með viðeigandi frídögum. Ég er alltaf með heilsteiktan kalkún á gamlárskvöld en í ár ætla ég að bregða út af vananum og prófa smjörsprautuðu kalkúnabringurnar frá Hagkaup. Ég hef heyrt vel af þeim látið og hlakka til að prófa. Við verðum líka með kalkúnabringur í salvíusmjöri sem Öggi fékk í jólagjöf frá vinnunni sinni. Hvað eftirréttinn varðar þá hallast ég að því að gera tíramísú úr nýju bókinni hennar Rikku, Veisluréttir Hagkaups, sem ég fékk í afmælisgjöf. Ég hef undanfarin jól gert tíramísú eftir gamalli uppskrift frá Rikku en þar sem ég get ómögulega fundið hana þá ætla ég að prófa nýju uppskriftina (þú finnur hana hér). Kannski er þetta sama uppskriftin en ég man þó að sú gamla var með núggatsúkkulaði.

Ef þið eruð líka í eftirréttahugleiðingum fyrir komandi veisluhöld þá er ég með nokkrar tillögur sem ég mæli með:

Ísbaka með bourbon karamellu

1. Ísbaka með bourbon karamellu. Brjálæðislega góð baka úr smiðju Nigellu Lawson sem ég er að gæla við að bæta á eftirréttaborðið hjá mér um áramótin.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

2. Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi. Ég á hálfa böku í frystinum síðan um daginn sem ég hef bannað fjölskyldumeðlumum að snerta því ég ætla að draga hana fram um áramótin, þó að það sé búið að borða helminginn af henni! Ég þarf bara aðeins að fegra bökuna með jólastafabrjóstsykri eða bismarkbrjóstsykri og þá mun hún sóma sér vel á eftirréttaborðinu.

Oreo-ostakaka

3. Oreo-ostakaka þykir mér fara vel á eftirréttaborðinu og get lofað að hún mun falla í kramið hjá öllum aldursflokkum.

Súkkulaðipavlova með maltesers, daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu

4. Súkkulaðipavlova með mascarponerjómakremi, Maltesers, Daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu er algjör bomba og fullkomin áramótaterta. Það væri smart að stinga stjörnuljósum í hana rétt áður en hún er borin fram.

súkkulaðimús með karamelluhúðuðum hnetumulningi

5. Einföld súkkulaðimús með karamelluhúðuðum hnetumulningi er einfaldur eftirréttur sem krakkarnir mínir elska. Mér þykir hnetumulningurinn ómissandi með.

Ísbaka með bourbon karamellu.

Ísbaka með bourbon karamellu

Við höfum undanfarin ár boðið gestum hingað til okkar um áramót í kalkún. Ég geri alltaf tvenna eftirrétti fyrir þetta síðasta kvöld ársins. Annar eftirrétturinn er alltaf marensrúlla með ástaraldin, sem allir elska og má alls ekki sleppa,  en hinn eftirrétturinn er breytilegur og mér þykir alltaf gaman að velja hann og  prófa nýtt.

Ísbaka með bourbon karamellu

Í ár varð þessi ísbaka með bourbon karamellukremi fyrir valinu. Uppskriftin kemur frá engri annarri en Nigellu og eins og flestar uppskriftir sem ég hef gert frá henni var hún óendanlega góð. Börnin litu ekki við henni eftir að þau heyrðu að það væri kaffi í ísnum og whiskey í karamellusósunni en við fullorðna fólkið gátum ekki hætt að borða hana og fögnuðum því að hafa bökuna fyrir okkur.

Það er ekki vínbragð af karamellunni heldur gefur bourbonið henni einungis góðan keim. Ísinn er keyptur og ég valdi að nota cappucino-karamelluís Fabrikkunnar (fæst m.a. í Bónus) sem okkur fannst mjög góður.

Þessi ísbaka var stórkostlega góð og við höfum ekki getað hætt að hugsa um hana. Ég mun klárlega endurtaka leikinn við fyrsta mögulega tækifæri. Eins og svo oft áður fannst mér mikill kostur að geta útbúið hana með góðum fyrirvara og því er hún frábær eftirréttur fyrir matarboð.

Ísbaka með bourbon karamellu

Ísbaka með bourbon karamellu

Skel:

 • 375 g digestive kex
 • 75 g mjúkt smjör
 • 50 g dökkt súkkulaði
 • 50 g rjómasúkkulaði

Fylling:

 • 1 líter kaffiís

Toppur:

 • 300 g síróp (Lyle´s golden syrup)
 • 100 g ljós muscovado sykur (ég notaði 35 g ljósan púðursykur og 65 g venjulegan púðursykur)
 • 75 g smjör
 • 1/4 tsk maldon salt
 • 2 msk bourbon (ég notaði 1 msk)
 • 125 ml rjómi

Setjið hráefnin í skelina í matvinnsluvél og vinnið saman. Þrýstið deginu í botn og meðfram hliðum á bökumóti. Reynið að hafa hliðarnar háar, helst aðeins upp fyrir kanntinn á mótinu. Frystið í um klukkutíma til að botninn verði alveg harður.

Ísbaka með bourbon karamellu

Látið ísinn mýkjast í ískáp þar til hægt er að breiða honum í skelina. Passið að mýkja hann ekki of mikið, hann á ekki að bráðna. Breiðið ísnum í harða skelina. Setjið plastfilmu yfir og frystið.

Ísbaka með bourbon karamelluÍsbaka með bourbon karamellu

Setjið smjör, síróp, salt og sykur í pott og látið bráðna yfir miðlungshita. Hækkið hitann og sjóðið í 5 mínútur. Takið pottinn af hitanum, bætið  bourbon í hann (það mun krauma í blöndunni við þetta). Bætið rjómanum í pottinn og hrærið öllu vel saman.

Látið karamelluna kólna áður en hún er sett yfir ísinn. Þegar karamellan hefur kólnað er henni hellt yfir ísinn þannig að hún hylji hann og að því loknu er bakan sett aftur í frystinn. Þegar karamellan er frosin er plastfilma sett yfir og geymt þannig í frystinum þar til bakan er borin fram.

Súkkulaðikaka með kókos

Öggi hefur oft furðað sig á því hvernig hægt sé að vera jafn mikið jólabarn og ég er. Ég hreinlega ræð ekki við mig og eftir að ég eignaðist börnin náði tilhlökkunin hæðstu hæðum. Til að toppa gleðina þá á ég afmæli 22. desember og strákarnir 27. desember. Við höfum því fulla ástæðu til að fagna desembermánuði sem styttist óðum í.

Ég reyni hvað ég get að sitja á mér og byrja ekki að hlusta á jólalögin og skreyta fyrr en í desemberbyrjun. Ég ætla þó ekki að reyna að neita því að þegar ég er ein í bílnum þá er útvarpið komið á Létt-bylgjuna áður en ég veit af. Í gær fékk ég síðan alveg frábæra hugmynd um að nýta Freemover-stjakana mína sem auka aðventuljós. Þeir eru jú fjórir (og mig dauðlangar í fleiri) og það var því lítið mál að hengja tölustafi á þá til að fá smá aðventustemningu. Nú þarf ég bara að kaupa ný kerti og þá verður þetta klárt. Aðal-aðventustjakinn kemur svo upp fyrir næstu helgi og ég hlakka svo mikið til.

Við ætlum að taka forskot á jólagleðina í dag og fara á fyrsta jólahlaðborð ársins með krakkana. Við Malín lökkuðum neglurnar með uppáhalds litnum í tilefni dagsins. Síðan er ég að spá í að baka smákökur á meðan Öggi hengir upp útiseríurnar (ó, hvað hann verður glaður þegar ég segi honum frá því).

En fyrst ætla ég að gefa uppskrift af slíkri dásemd að það er ekki hægt að lýsa því með orðum hvað hún er góð. Ég hef bakað þessa köku fyrir ótal tilefni, bæði fyrir mig og aðra, og alls staðar slær hún í gegn. Stundum sker ég hana niður í litla bita og þá er hún eins og konfektmoli. Ég veit ekki hversu oft ég hef gefið þessa uppskrift og ég gaf hana meira að segja í Gestgjafanum í haust, en ég hef þó aldrei fyrr gefið hana hér á blogginu.

Súkkulaðikaka með kókos

Botn

 • 200 g smjör
 • 4 egg
 • 5 dl sykur
 • 2 tsk vanillusykur
 • ¼ tsk salt
 • 1 dl kakó
 • 3 dl hveiti

 Ofanbráð

 • 200 g gróft kókosmjöl
 • 1 dl síróp
 • 2 dl sykur
 • 1,5 dl rjómi
 • 75 g smjör

Hitið ofninn í 200°. Bræðið smjörið og leggið til hliðar. Hrærið egg og sykur saman. Hrærið vanillusykri, salti og kakói saman við. Bætið hveiti og bráðnu smjörinu saman við og hrærið þar til deigið verður slétt.

Klæðið skúffukökuform með bökunarpappír og setjið deigið í formið. Bakið í miðjum ofni í 15 mínútur.

Á meðan kakan er í ofninum er ofanbráðin gerð. Setjið síróp, sykur, rjóma, smjör og kókosmjöl  í pott við meðalháan hita. Látið smjörið bráðna og blandið vel saman. Sjóðið í 5 mínútur.

Þegar kakan hefur verið í ofninum í 15 mínútur er hún tekin út og ofanbráðin smurð varlega yfir. Að því loknu er kakan sett aftur í ofninn og bökuð áfram í 10 mínútur eða þar til hún hefur fengið fallegan lit.  Kakan geymist í frysti í allt að 6 mánuði og  þá getur verið sniðugt að skera hana í sneiðar og raða í plastbox með smjörpappír milli laga áður en kökunni er stungið í frystinn.

Súkkulaði- og bananabaka með rjóma

Í dag er síðasti dagurinn í sumarfríi og á morgun tekur vinnan við. Ég get ekki annað en farið sátt og glöð til vinnu eftir frábært sumarfrí. Við erum búin að fara til London, þræða alla Vestfirðina, hitta vini, halda og fara í nokkur matarboð, fara margar ferðir í núðlusúpur á Skólavörðustíginn, prjóna, lesa Hungurleikana með strákunum og gera svo margt skemmtilegt. Ég var búin að gera lista fyrir sumarfrí yfir hluti sem ég ætlaði að gera, m.a. að baka Franskar makkarónukökur og fara út að hlaupa að minnsta kosti annan hvern dag, en það gleymdist alveg.

Í gær fengum við Ernu, Óla og fjölskyldu í mat. Það telst varla til tíðinda því það líður varla sá dagur að við hittumst ekki, enda nágrannar og við Erna búnar að vera það síðan við vorum fimm ára. Við buðum þeim upp á Orange Chicken í aðalrétt en í eftirrétt gerði ég þessa dásamlegu súkkulaði- og bananaböku með rjóma.

Ég keypti mér nýlega bökuform með lausum botni og var spennt að nota það. Það var því engin spurning um að gera böku í eftirrétt. Þegar kom að því að velja uppskrift mundi ég eftir að hafa séð uppskrift að þessari böku og langað að prófa hana. Vandamálið var hins vegar að ég gat ekki fyrir mitt litla líf munað hvar ég hefði séð hana. En þrjóskan getur launað sig og eftir hálftíma leit fann ég uppskriftina. Því verður ekki neitað að leitin var vel þess virði því bakan var æðislega góð, svo gott að ég laumaðist í síðustu sneiðina um miðnætti því ég gat ekki hætt að hugsa um hana. Ég ætla að baka bökuna aftur við allra fyrsta tækifæri og hlakka til að leyfa fleirum að njóta.

Uppskriftin kemur frá Love & olive oil og eina breytingin sem ég gerði var að skipta vanilludropum út fyrir vanillusykur. Ég geri það nánast alltaf þegar ég baka því ég er ekki hrifin af dropabragði og finnst vanillusykurinn gefa svo mikið betra bragð.

Botninn

 • 1 bolli hveiti
 • 115 gr ósaltað kallt smjör
 • 1/4 tsk salt
 • 1/4 bolli kakó
 • 1/4 bolli sykur
 • 1/4 bolli vatn

Skerið smjörið í litla teninga og setjið í skál ásamt hveiti, salti, kakaói og sykri. Hnoðið saman í mulning og bætið þá vatninu við í smáum skömmtum. Notið bara eins mikið af vatni og þarf til að deigið haldist saman. Fletjið deigið út og leggði í bökuform (mitt form er 22 cm).  Þrýstið deiginu vel í botninn og upp á kantinn og leggið síðan álpappír yfir (þrýstið honum að deiginu). Setjið deigið í ískápinn í 10 mínútur eða á meðan þið hitið ofninn í 175°.  Til að deigið lyfti sér ekki í ofninum er gott að leggja baunir eða hrísgrjón ofan á álpappírinn. Bakið í 20 mínútur, takið þá álpappírinn af (og baunirnar eða grjónin) og bakið áfram í 10-15 mínútur. Takið úr ofninum og látið kólna alveg.

Vanillu- og súkkulaðikrem

 • 3/4 bolli sykur
 • 1/3 bolli hveiti
 • 1/4 tsk salt
 • 2 bollar nýmjólk
 • 3 eggjarauður
 • 1 msk ósaltað smjör
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1/4 bolli suðusúkkulaði, saxað

Blandið saman sykri, hveiti, salti og 1 bolla af nýmjólkinni í potti. Hrærið vel saman og látið suðuna koma upp yfir miðlungs hita. Hrærið stöðugt þar til blandan verður slétt og þykk, það tekur um 2 mínútur, og takið þá pottinn af hitanum og látið kólna aðeins.

Hrærið saman eggjarauðum og 1 bolla af nýmjólk í skál. Bætið þykkri mjólkurblöndunni úr pottinum saman við í 4 skömmtum og hrærið vel á milli. Setjið blönduna aftur í pottinn og látið suðuna koma aftur upp. Hrærið stöðugt í pottinum. Þegar suðan kemur upp er hitinn lækkaður og látið sjóða í ca 1 mínútur eða þar til blandan minnir á þykkan búðing. Takið pottinn af hitanum og hrærið strax smjöri og vanillusykri saman við. Setjið helminginn af blöndunni í skál og leggið til hliðar. Bætið söxuðu suðusúkkulaði saman við þann helming sem eftir er í pottinum og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað og blandan orðin slétt. Látið báðar fyllingarnar kólna aðeins.

Ofanálag og samsetning

 • 2 bananar, skornir í sneiðar
 • 1 bolli rjómi
 • 3 msk sykur
 • 1/2 tsk vanillusykur

Breiðið vanillufyllingunni yfir bökubotninn. Raðið einu lagi af niðurskornum banönum yfir og breiðið súkkulaðifyllingunni yfir bananana. Setjið í ískáp og leyfið að kólna alveg. Rétt áður en bakan er borin fram er rjóminn léttþeyttur, sykri og vanillusykri bætt út í og þeytt áfram þar til rjóminn er tilbúinn. Alls ekki þeyta hann of mikið. Breiðið rjómann yfir bökuna og skreytið með dökku súkulaði.