Súkkulaðipavlova með mascarponerjómakremi, Maltesers, Daim, ristuðum pekanhnetum, og súkkulaðisósu

Súkkulaðipavlova með maltesers, daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu

Ég hef fengið fyrirspurnir um uppskriftina að þessari dásemd sem ég birti mynd af hér á blogginu í júní. Það er tvennt sem ég bara skil ekki, hvernig gat ég gleymt að setja inn uppskriftina og hvernig gat sumarið liðið svona fljótt? Mér finnst eins og ég hafi bakað kökuna síðast í gær.

Súkkulaðipavlova með maltesers, daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu

Mér þykir þessi pavlova hafa allt og vera draumi líkast. Hún er svo góð og hráefnin passa svo fullkomlega saman. Það er varla hægt að lýsa því en kakan er svo mikil súkkulaðisæla að hún gerir alla glaða og lífið örlítið betra.

Súkkulaðipavlova með maltesers, daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu

Til að flýta fyrir er kjörið að baka botnana kvöldið áður en það á að bera kökuna fram. Setjið hana síðan saman samdægurs og geymið í ískáp þar til veislan hefst. Það eiga allir eftir að falla í stafi við fyrsta bita – ég lofa!

Súkkulaðipavlova með maltesers, daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu

Súkkulaðipavlova með mascarponerjómakremi, Maltesers, Daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu (uppskrift frá Lindu Lomelino)

Súkkulaðimarensbottnar:

  • 50 g dökkt súkkulaði (70%)
  • 6 stórar eggjahvítur
  • 3 dl sykur
  • 3 msk kakó
  • 1 msk maizena mjöl
  • 1 tsk hvítvínsedik

Mascarponekrem:

  • 250 g mascarpone ostur
  • 2-3 msk sykur
  • 5 dl rjómi
  • 2 msk espresso

Fylling:

  • Maltesers
  • Daimkúlur
  • Ristaðar pekanhnetur (ristaðar í 175° heitum ofni í 5 mínútur)

Súkkulaðisósa:

  • 3/4 dl sykur
  • 1 dl sterkt kaffi
  • 3 msk kakó

Súkkulaðimarensbottnar

Brjótið súkkulaðið í bita og bræðið það varlega yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Látið kólna.

Hitið ofninn í 175°. Teiknið tvo eða þrjá hringi sem eru um 15 cm í þvermál á bökunarpappír. Staðsetjið þá eins langt frá hvor öðrum og mögulegt er. Snúið bökunarpappírnum við og leggið hann á ofnplötu.

Þeytið eggjahvíturnar þar til þær byrja að mynda froðu og bætið þá sykrinum smátt og smátt saman við. Þeytið áfram þar til blandan er orðin stífþeytt. Það á að vera hægt að halda skálinni á hvolfi án þess að marensdeigið renni úr henni. Sigtið kakó og maizenamjöl út í deigið, bætið hvítvínsediki saman við og blandið öllu vel saman. Hrærið að lokum bræddu súkkulaðinu gróflega í marensdeigið.

Skiptið marensdeiginu jafnt á hringina á bökunarpappírnum. Botnarnir eiga eftir að renna aðeins út þegar þeir bakast. Setjið marensinn í ofninn og lækkið hitann í 125°.  Bakið marensinn í 60-75 mínútur. Botnarnir eiga að vera harðir og stökkir við kantana en seigir  í miðjunni. Slökkvið á ofninum en látið botnana vera áfram á eftirhitanum í honum, með ofnhurðina hálfopna þar til ofninn er orðinn kaldur.

Mascarponekrem:

Hrærið mascarponeostinn og sykurinn saman þar til blandan verður mjúk og kremkennd. Bætið rjómanum saman við og þeytið þar til blandan þykknar. Bætið espresso saman við og þeytið áfram þar til það hefur blandast saman við kremið.

Súkkulaðisósa:

Blandið öllu saman í pott og látið suðuna koma upp. Sjóðið í 3-5 mínútur eða þar til sósan hefur tekið að þykkna aðeins. Látið kólna.

Setja kökuna saman:

Leggið fyrsta botninn varlega á kökudisk og smyrjið helmingnum af mascarponekreminu yfir. Stráið grófhökkuðu maltesers, daimkúlum og ristuðum pekanhnetum yfir. Leggið seinni botninn yfir og smyrjið því sem eftir er af mascarponekreminu yfir. Skreytið með maltesers, daimkúlum, pekanhnetum og súkkulaðisósu. Látið tertuna gjarnan standa í ískáp í að minnsta kosti klukkutíma áður en hún er borin fram.

26 athugasemdir á “Súkkulaðipavlova með mascarponerjómakremi, Maltesers, Daim, ristuðum pekanhnetum, og súkkulaðisósu

  1. Þú ert að gera út af við mig!!! Það stefnir í að ég verði að „blokkera“ síðuna þína!!! Stend mig að því að gleyma mér tímunum saman við að skoða uppskriftirnar þínar og láta mig dreyma… læt svo af og til verða af því að nýta mér þær, vinnufélögum og fjölskyldu til ánægju, en síðast en ekki síst, mér til mikillar ánægju, en veit ekki hvort það dugar til að réttlæta vinnutapið sem verður þegar ég dett inn á þessa síðu í vinnutíma! Takk fyrir frábæra síðu og uppskriftir :0) ..og það er satt, svona dásemdir eru til að njóta og gera lífið bjartara og skemmtilegra;-)

  2. Þessi kaka lítur svoooo vel út! Takk fyrir að deila með okkur 🙂
    Bara eitt sem ég þarf að spyrja um: Ég er alltaf svolítið óörugg þegar kaffi kemur fyrir í uppskriftum og það er svo misjafnt hvort kaffið á að vera instant (bara duftið) eða lagað kaffi (á vökvaformi). Í súkkulaðisósunni fyrir þessa köku á greinilega að vera 1 dl af löguðu kaffi, en hvað með þetta espresso í mascarpone-kremið? Er það espresso-duft eða lagað espresso?

    1. Gunnlaug…ég var að prófa þessa köku og setti kaffiduft í kremið…fattaði svo um leið og ég var búin að sleppa því í kremið að þetta hefði átt að vera lagað kaffi. Því annars hefði örugglega átt að leysa það upp í einhverju. Ég held allavega að það hafi ekki átt að vera svona sterkt kaffi bragð af því….jæja gengur betur næst 😉

      1. Æ, en klaufalegt af mér að hafa þetta svona óskýrt í uppskriftinni. Kaffið á að vera lagað, bæði í kreminu og í súkkulaðisósunni. Ég vona að kakan hafi verið boðleg Aðalheiður, þrátt fyrir sterka kaffibragðið 🙂

  3. Þessi er hrikalega girnilegum og er á leið á jóladesertborðið hjá mér! Aðeins ein spurning – getur verið að botnarnir séu bara 15cm í þvermál?? Úr 6 eggjahvítum?

  4. Þessi var borðið upp til agna á aðfangadagskvöld 😉 samt var búið að borða forrétt, aðalrétt og einnig var jóladesert. Æðisleg kaka, hélt að strákarnir mínir mundu ekki borða hana útaf kaffinu , en þeir (3jaog 6) borðuðu sína sneið og vildu meira 🙂

  5. Sæl og takk fyrir góðar uppskriftir. Get ég bakað botnana, sett kremið, nammið og hneturnar á milli og fryst hana? Tekið hana svo út daginn sem veislan verður og skreytt hana? Kv. Íris

  6. Hæhæ, er að fara að prófa þessa í fyrsta skipti… á maður að þeyta edikið, kakóið og maísmjölið saman við eða hræra það saman sjálf með sleif?, finnst það pínu óljóst þarna hvort ég eigi að gera

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s