Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Mamma keypti hluta úr nauti beint frá býli í vor og gaf okkur… ja eflaust bróðurpartinn af því. Ég hef aldrei smakkað jafn gott kjöt og hef legið á því eins og ormur á gulli.

Um daginn datt ég niður á uppskrift af gúllas sem vakti áhuga minn, þó aðallega vegna þess að í henni voru sólþurrkaðir tómatar og bjór. Ég ákvað að uppskriftin væri nógu spennandi til að splæsa gúllasbitunum frá mömmu í hana.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Ég byrjaði eldamennskuna um leið og ég kom heim úr vinnunni því ég hafði tekið eftir að rétturinn ætti að sjóða við vægan hita í tvo tíma áður en gulrótum og kartöflum væri bætt út í og þá soðið áfram í hálftíma. Það er því óhætt að segja að rétturinn er ekki reiddur fram í snatri.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Ég verð að viðurkenna að þegar ég var búin að brúna kjötið, laukinn og hvítlaukinn og hellti því næst bjórnum á pönnuna féllu á mig tvær grímur. Mér leist ekkert á þetta lengur en það var ekki aftur snúið úr þessu. Það var ekki fyrr en kjötkrafturinn, sólþurrkuðu tómatarnir og kryddin voru komin út í, byrjað að sjóða og dásamlegur ilmur tók að berast frá pottinum að ég andaði léttar. Það lék engin vafi á að þetta yrði gott.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Þó að eldunartíminn sé langur þá fer ekki mikill tími í að útbúa réttinn. Aðalatriðið er að byrja nógu snemma og síðan er hægt að dunda sér við önnur störf á meðan rétturinn sýður við vægan hita á pönnunni.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Ég bar nýbakað New York-times brauð fram með réttinum. Ég mæli með því. Stökk skorpan og mjúkt brauðið fer vel með gúllasinu og ég get lofað að þú átt ekki eftir að geta hætt að dýfa brauðinu í sósuna. Notalegur og góður matur, sérstaklega núna þegar fer að hausta.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

  • um 900 g nautagúllas
  • 2 msk ólívuolía
  • 1 laukur, hakkaður
  • 4 hvítlauksrif, fínhökkuð
  • 1 litil bjórdós (33 cl.). Ég var með Víking.
  • 2 msk Worcester sósa
  • 4 bollar vatn
  • 2 nautateningar
  • 1 grænmetisteningur
  • ½ bolli sólþurrkaðir tómatar, hakkaðir
  • ½ tsk salt
  • ½-1 tsk paprika
  • ½ msk dijon sinnep
  • rauðar kartöflur, skornar í fernt
  • gulrætur, skornar í sneiðar

Hitið ólívuolíu í stórum potti eða djúpri pönnu og brúnið kjötið á öllum hliðum. Færið kjötið yfir á hreinan disk og setjið lauk og hvítlauk í pottinn. Þegar laukurinn er orðinn mjúkur er bjórnum hellt yfir. Hrærið í pottinum þannig að krafturinn á botninum blandist í vökvann. Bætið Worcester sósu, vatni, krafti, sólþurrkuðum tómötum, salti, papriku og sinnepi í pottin og látið suðuna koma upp. Bætið kjötbitunum í pottinn og lækkið hitann í væga suðu. Látið lokið á pottinn og látið sjóða við vægan hita í 2 klukkustundir. Bætið þá kartöflum og gulrótum í pottinn og látið sjóða í 30 mínútur til viðbótar. Rétt áður en rétturinn er borinn fram er tekinn 1 bolli af vökva úr pottinum, hrært 2 msk af hveiti saman við og hrært aftur út í pottinn. Þetta er gert til að þykkja sósuna. Berið réttinn fram með góðu brauði með grófri skorpu.

12 athugasemdir á “Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

  1. Sæl og takk fyrir frábært blogg! Með New York Times brauðið, lætur þú það alltaf hefast yfir nótt eða er til fljótlegri leið?

    1. Já, ég læt það alltaf hefast yfir nótt og held að það sé eina leiðin. Það tekur enga stund að gera deigið og síðan er ósköp þæginlegt að hella því bara í ofnpottinn daginn eftir. Einfaldara getur það varla orðið 🙂

      1. Sammála þetta er sáraeinfalt brauð, hef gert það nokkru sinnum, en það væri frábært að geta fundið uppskrift af jafn góðu brauði með stökkri skorpu sem tæki styttri tíma 🙂

  2. Var með þennan rétt í kvöldmatinn og hafði þetta geggjaða brauð með 😉 Allir í fjölskyldunni ánægðir og afi líka. Allt borðað upp til agna 🙂

  3. Takk fyrir frábæra uppskrift af gúllasi, var ekki með bjór en notaði pilsner, allt í lagi. En nota bene mér fannst saltinu ofaukið, það er svo miki salt í kraftinum, þetta varð aðeins of salt fyrir minn smekk. En annars bragðmikill og góður pottur á vetrarkvöldi…

  4. Þessi uppskrift er mjög góð, gerði hana með pilsner og hrossagúllasi og það lukkaðist svona líka vel. Það varð þó afgangur og ég bætti 1/2 l vatni útí og smá þurrkuðum kóríander og úr varð þessi líka fína gúllassúpa. Ódýr og drjúg máltíð 🙂

  5. Fràbær réttur. Eldaði með folaldagúllasi og bætti við sveppum sem ég átti til. Þykkti soðið líka smá með maizena mjöli. Súper bragðgott og ætla pottþétt að elda aftur 👍🏻

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s