Gúllas með rauðu karrý og kókosmjólk

Gúllas með rauðu karrý og kókosmjólk

Ef það er einhvern tímann árstími fyrir gúllas þá er það þegar daginn tekur að stytta og veðrið fer kólnandi. Þá held ég að það sé fátt notalegra en að leyfa gúllas að malla í eldhúsinu á meðan verið er að dunda sér við annað. Ég hef prófað allmargar uppskriftir af gúllas og verð að segja að þessi er með þeim bestu. Það sem gerir hana kannski frábrugðna hefðbundum gúllasuppskriftum er að í henni er rautt karrý, mango chutney og kókosmjólk sem fer alveg svakalega vel með tómötunum og engiferinu. Útkoman verður alveg hreint ótrúlega bragðgóð og það voru allir á einu máli um að gúllasið væri stórgott.

Gúllas með rauðu karrý og kókosmjólk

Uppskriftin er frekar stór og dugði okkur í tvær máltíðir. Ég bar gúllasið fram með hrísgrjónum og snittubrauði fyrra kvöldið og heimagerðri kartöflumús það seinna. Bæði meðlætin voru góð en mér þótti kartöflumúsin þó eiga vinninginn. Þessi réttur verður eldaður aftur og aftur hér á bæ, svo mikið er víst.

Gúllas með rauðu karrý og kókosmjólk (uppskrift fyrir 8 manns)

 • 2 tsk olía
 • um 1 kg. gúllasbitar
 • 1 tsk salt
 • 1/2 tsk pipar
 • 1 stór laukur, skorinn í teninga
 • 3-4 hvítlauksrif, pressuð
 • 3 tsk rautt karrýmauk (thai red curry paste)
 • 2 lárviðarlauf
 • 1 dós (400 ml) hakkaðir tómatar
 • 1 dós (400 ml) kókosmjólk
 • 3 msk mango chutney
 • 3 msk sítrónusafi
 • 1 grænmetisteningur
 • 2 tsk fínrifið engifer
 • 3-4 dl gulrætur, skornar gróflega niður
 • 1 rauð paprika, skorin í teninga

Hitið olíu í góðum þykkbotna potti og brúnið kjötið í tveimur skömmtum. Takið kjötið úr pottinum og leggið til hliðar. Kryddið með salti og pipar.

Bætið smá olíu í pottinn ef þörf er á og setjið lauk og hvítlauk í hann. Látið mýkjast í um 3-5 mínútur (passið að hafa hitann ekki of háann) og bætið síðan kjötinu aftur í pottinn. Hrærið karrýmauki saman við og steikið í eina mínútu. Bætið þá tómötum, kókosmjólk, mangó chutney, sítrónusafa, engifer og lárviðarlaufi í pottinn og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann, setjið lok á pottinn og látið sjóða við vægan hita í 75 mínútur.  Bætið þá gulrótunum og grænmetisteningi í pottinn og sjóðið áfram í 30-45 mínútur, eða þar til kjötið er orðið meyrt og gulræturnar mjúkar.  Bætið þá paprikunni saman við og sjóðið án loks í 5 mínútur. Takið lárviðarlaufin úr pottinum áður en rétturinn er borinn fram.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Mamma keypti hluta úr nauti beint frá býli í vor og gaf okkur… ja eflaust bróðurpartinn af því. Ég hef aldrei smakkað jafn gott kjöt og hef legið á því eins og ormur á gulli.

Um daginn datt ég niður á uppskrift af gúllas sem vakti áhuga minn, þó aðallega vegna þess að í henni voru sólþurrkaðir tómatar og bjór. Ég ákvað að uppskriftin væri nógu spennandi til að splæsa gúllasbitunum frá mömmu í hana.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Ég byrjaði eldamennskuna um leið og ég kom heim úr vinnunni því ég hafði tekið eftir að rétturinn ætti að sjóða við vægan hita í tvo tíma áður en gulrótum og kartöflum væri bætt út í og þá soðið áfram í hálftíma. Það er því óhætt að segja að rétturinn er ekki reiddur fram í snatri.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Ég verð að viðurkenna að þegar ég var búin að brúna kjötið, laukinn og hvítlaukinn og hellti því næst bjórnum á pönnuna féllu á mig tvær grímur. Mér leist ekkert á þetta lengur en það var ekki aftur snúið úr þessu. Það var ekki fyrr en kjötkrafturinn, sólþurrkuðu tómatarnir og kryddin voru komin út í, byrjað að sjóða og dásamlegur ilmur tók að berast frá pottinum að ég andaði léttar. Það lék engin vafi á að þetta yrði gott.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Þó að eldunartíminn sé langur þá fer ekki mikill tími í að útbúa réttinn. Aðalatriðið er að byrja nógu snemma og síðan er hægt að dunda sér við önnur störf á meðan rétturinn sýður við vægan hita á pönnunni.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Ég bar nýbakað New York-times brauð fram með réttinum. Ég mæli með því. Stökk skorpan og mjúkt brauðið fer vel með gúllasinu og ég get lofað að þú átt ekki eftir að geta hætt að dýfa brauðinu í sósuna. Notalegur og góður matur, sérstaklega núna þegar fer að hausta.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

 • um 900 g nautagúllas
 • 2 msk ólívuolía
 • 1 laukur, hakkaður
 • 4 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 1 litil bjórdós (33 cl.). Ég var með Víking.
 • 2 msk Worcester sósa
 • 4 bollar vatn
 • 2 nautateningar
 • 1 grænmetisteningur
 • ½ bolli sólþurrkaðir tómatar, hakkaðir
 • ½ tsk salt
 • ½-1 tsk paprika
 • ½ msk dijon sinnep
 • rauðar kartöflur, skornar í fernt
 • gulrætur, skornar í sneiðar

Hitið ólívuolíu í stórum potti eða djúpri pönnu og brúnið kjötið á öllum hliðum. Færið kjötið yfir á hreinan disk og setjið lauk og hvítlauk í pottinn. Þegar laukurinn er orðinn mjúkur er bjórnum hellt yfir. Hrærið í pottinum þannig að krafturinn á botninum blandist í vökvann. Bætið Worcester sósu, vatni, krafti, sólþurrkuðum tómötum, salti, papriku og sinnepi í pottin og látið suðuna koma upp. Bætið kjötbitunum í pottinn og lækkið hitann í væga suðu. Látið lokið á pottinn og látið sjóða við vægan hita í 2 klukkustundir. Bætið þá kartöflum og gulrótum í pottinn og látið sjóða í 30 mínútur til viðbótar. Rétt áður en rétturinn er borinn fram er tekinn 1 bolli af vökva úr pottinum, hrært 2 msk af hveiti saman við og hrært aftur út í pottinn. Þetta er gert til að þykkja sósuna. Berið réttinn fram með góðu brauði með grófri skorpu.