Ef það er einhvern tímann árstími fyrir gúllas þá er það þegar daginn tekur að stytta og veðrið fer kólnandi. Þá held ég að það sé fátt notalegra en að leyfa gúllas að malla í eldhúsinu á meðan verið er að dunda sér við annað. Ég hef prófað allmargar uppskriftir af gúllas og verð að segja að þessi er með þeim bestu. Það sem gerir hana kannski frábrugðna hefðbundum gúllasuppskriftum er að í henni er rautt karrý, mango chutney og kókosmjólk sem fer alveg svakalega vel með tómötunum og engiferinu. Útkoman verður alveg hreint ótrúlega bragðgóð og það voru allir á einu máli um að gúllasið væri stórgott.
Uppskriftin er frekar stór og dugði okkur í tvær máltíðir. Ég bar gúllasið fram með hrísgrjónum og snittubrauði fyrra kvöldið og heimagerðri kartöflumús það seinna. Bæði meðlætin voru góð en mér þótti kartöflumúsin þó eiga vinninginn. Þessi réttur verður eldaður aftur og aftur hér á bæ, svo mikið er víst.
Gúllas með rauðu karrý og kókosmjólk (uppskrift fyrir 8 manns)
- 2 tsk olía
- um 1 kg. gúllasbitar
- 1 tsk salt
- 1/2 tsk pipar
- 1 stór laukur, skorinn í teninga
- 3-4 hvítlauksrif, pressuð
- 3 tsk rautt karrýmauk (thai red curry paste)
- 2 lárviðarlauf
- 1 dós (400 ml) hakkaðir tómatar
- 1 dós (400 ml) kókosmjólk
- 3 msk mango chutney
- 3 msk sítrónusafi
- 1 grænmetisteningur
- 2 tsk fínrifið engifer
- 3-4 dl gulrætur, skornar gróflega niður
- 1 rauð paprika, skorin í teninga
Hitið olíu í góðum þykkbotna potti og brúnið kjötið í tveimur skömmtum. Takið kjötið úr pottinum og leggið til hliðar. Kryddið með salti og pipar.
Bætið smá olíu í pottinn ef þörf er á og setjið lauk og hvítlauk í hann. Látið mýkjast í um 3-5 mínútur (passið að hafa hitann ekki of háann) og bætið síðan kjötinu aftur í pottinn. Hrærið karrýmauki saman við og steikið í eina mínútu. Bætið þá tómötum, kókosmjólk, mangó chutney, sítrónusafa, engifer og lárviðarlaufi í pottinn og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann, setjið lok á pottinn og látið sjóða við vægan hita í 75 mínútur. Bætið þá gulrótunum og grænmetisteningi í pottinn og sjóðið áfram í 30-45 mínútur, eða þar til kjötið er orðið meyrt og gulræturnar mjúkar. Bætið þá paprikunni saman við og sjóðið án loks í 5 mínútur. Takið lárviðarlaufin úr pottinum áður en rétturinn er borinn fram.
Hvernig kjöt varstu með ?
Ég var með gúllasbita (nautakjöt).
Takk, takk og líka fyrir síðuna þína sem er algjörlega frábær og ég nota hana mikið 🙂
Ég keypti grísagúllas og velti upp úr pipruðu og söltu hveiti og steikti með lauk o.fl. Uppskriftin þín var á
hliðarlínunni og mun ég gera hana seinna. Sammála þér að gúllas er betra með kartöflumús.
Takk Sigríður, kveðja frá Guðrúnu.