Besta aðferðin til að elda nautalund!

Síðastliðinn vetur lærði ég skothelda eldunaraðferð á nautalund og ég hef ekki eldað hana á annan hátt síðan. Ég get lofað að lundin verður fullkomin í hvert einasta sinn!

Þar sem þetta er svo einfalt hef ég boðið upp á naut og bearnaise í flestum matarboðum sem ég hef haldið þetta árið.  Ég er komin á þann tímapunkt að ég neyðist að finna mér nýjan go-to rétt því ég er nokkuð viss um að ég sé komin hringinn og búin að bjóða öllum upp á þetta.

Ég hef boðið upp á ýmiskonar meðlæti með kjötinu en þetta kartöflugratín er frábært með og mjög þægilegt því hægt er að undirbúa það með góðum fyrirvara. Stundum hef ég líka bara djúpsteikt franskar með eða grillað bökunarkartöflu. Ég hef alltaf bernaise sósu með nautalundinni og hér er æðisleg uppskrift en ef ég á að vera hreinskilin þá hef ég oft rennt við á Askinum og keypt sósuna þar (hún kostar sitt en er góð).

Eldunaraðferðin er súpereinföld. Byrjið á að krydda nautalundina með pipar og vefjið hana síðan þétt í plastfilmu, þannig að filman fari amk fimmföld utan um lundina.  Setið lundina þar á eftir inn í 65° heitann ofn í 2 klst. Takið lundina út, saltið hana og brúnið snögglega á heitri pönnu eða grilli. Látið lundina hvíla aðeins áður en hún er skorin og borin fram.

 

Mongolian beef

Um daginn spurði Jakob mig hvort við gætum ekki haft kínverskan í kvöldmat fljótlega. Ég verð alltaf jafn ánægð þegar krakkarnir stinga upp á kvöldmat og set óskirnar beint inn á vikumatseðilinn. Þar sem ég átti nautakjöt í frystinum féll valið á Mongolian beef. Ég lumaði á uppskrift sem sagan segir að komi frá PF Chang’s (ég sel það þó ekki dýrar en ég keypti það!) sem mér þótti upplagt að prófa. Rétturinn var æðislegur! Fljótgerður og svo mikið betri en take away. Fullkominn föstudagsmatur!

Mongolian beef

 • 500 g nautakjöt, skorið í bita
 • ⅛ bolli kornsterkja (maizena mjöl)
 • ½ msk sesam olía
 • ½ msk canola eða grænmetisolía
 • 3 hvítlauksrif, pressuð
 • 1 tsk engifer, fínrifið
 • ½ bolli sojasósa
 • ½ bolli vatn
 • ¾ bolli púðursykur
 • olía til að steikja í
 • vorlaukur til að skreyta með (má sleppa)

Veltið nautakjötinu upp úr maizena mjölinu (gott að setja saman í poka og hrista vel) og látið standa í ísskáp í 10 mínútur. Á meðan er sósan gerð.

Hitið sesam og canola eða grænmetisolíu á pönnu. Bætið hvítlauki og engiferi á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur. Hrærið sojasósu, vatni og púðursykri saman við. Látið suðuna koma upp og sjóðið í 2-3 mínútur. Takið af hitanum og leggið til hliðar.

Hitið olíu á djúpri pönnu (um 1 bolli eða 2,5 dl er passlegt) og djúpsteikið nautakjötið. Passið að setja það í skömmtum á pönnuna, svo það sé ekki of mikið kjöt á henni í einu. Brúnið kjötið á báðum hliðum, í um 1-2 mínútur á hvorri hlið. Takið kjötið úr olíunni og látið renna af því á eldhúspappír.

Setjið nautakjötið í sósuna og blandið vel saman. Látið suðuna koma aftur upp og sjóðið í 2-3 mínútur (sósan þykknar aðeins við þetta). Stráið vorlauk yfir og berið strax fram með hrísgrjónum.

Plankasteik

Plankasteik

Mig hefur lengi langað að eignast steikarplanka en ekki látið verða af því að kaupa þá, einfaldlega vegna þess að ég hef ekki vitað hvar þeir fást. Þegar við síðan vorum í Stokkhólmi um daginn datt ég niður á svo fína planka að við slógum til og keyptum þá. Um helgina vígðum við plankana með nautasteik, bearnaise, kartöflumús og góðu rauðvíni í glasinu. Þvílík veisla!

Plankasteik

Þar sem Gunnar var að keppa í fótboltanum um kvöldið komum við seint heim. Við gerðum okkur því einfalt fyrir og keyptum tilbúna bearnaise sósu á Askinum fyrr um daginn. Mér þykir sósan þar alveg æðislega góð og hef stundum rennt þar við og keypt hana þegar ég vil einfalda matargerðina. Annars er uppskriftin sem ég nota þegar ég geri sósuna sjálf hér. Kartöflumúsina gerði ég áður en við fórum á leikinn og því tók skamma stund að klára réttinn eftir að við komum heim.

Plankasteik

Nú veit ég ekki hvar steikarplankar fást hér heima en dettur helst í hug Kokka, Duka eða jafnvel Byggt og búið eða Byko. Ef einhver veit hvar þeir fást þá eru allar ábendingar vel þegnar. Ég mun uppfæra færsluna með upplýsingunum ef niðurstaða fæst í málið!

Uppfært: Á Facebook síðu bloggsins var bent á að plankarnir fáist í Grillbúðinni og arius.is

Plankasteik

 • 4 steikarplankar
 • 4 tómatar
 • salt
 • 600 g nautakjöt
 • salt og pipar
 • 1 búnt ferskur grænn aspas
 • bearnaisesósa (keypt tilbúin eða heimagerð, uppskriftin er hér)

Kartöflumús

 • 1 kg kartöflur
 • 2 dl rjómi eða mjólk
 • salt og pipar

Afhýðið kartöflurnar, skerið þær í bita og sjóðið í söltu vatni þar til þær eru orðnar mjúkar (það tekur um 10-15 mínútur). Hellið vatninu frá og notið kartöflupressu til að pressa kartöflurnar. Hrærið mjólk eða rjóma saman við og smakkið til með salti og pipar. Kartöflumúsin má vera örlítið blaut í sér svo hægt sé að sprauta henni á plankann og hún verði ekki of þurr í ofninum.

Skerið toppinn af tómötunum þannig að um tveir þriðju standa eftir. Setjið tómatana í dældina á plankanum, saltið sárið og setjið í 200° heitann ofn (225° ef það er ekki blástursofn) í um 20 mínútur.

Á meðan tómatarnir eru í ofninum eru kjötið og aspasinn undirbúið. Skerið endann af stilkanum af aspasnum. Setjið vatn í pott og látið suðuna koma upp. Saltið vatnið og leggið aspasinn í, látið sjóða í 2-3 mínútur. Skerið kjötið í passlegar sneiðar og steikið á háum hita á grillpönnu. Saltið og piprið.

Þegar tómatarnir hafa verið í ofninum í um 20 mínútur eru þeir teknir út. Sprautið kartöflumúsinni fyrir innan röndina á plankanum. Leggið kjötið fyrir innan kartöflumúsina og aspasinn við hliðina á kjötinu. Hækkið hitann á ofninum í 250° (275° ef það er ekki blástursofn) og setjið plankana inn í ofninn i um 12 mínútur. Setjið bearniessósu yfir og berið strax fram.

Gúllas með rauðu karrý og kókosmjólk

Gúllas með rauðu karrý og kókosmjólk

Ef það er einhvern tímann árstími fyrir gúllas þá er það þegar daginn tekur að stytta og veðrið fer kólnandi. Þá held ég að það sé fátt notalegra en að leyfa gúllas að malla í eldhúsinu á meðan verið er að dunda sér við annað. Ég hef prófað allmargar uppskriftir af gúllas og verð að segja að þessi er með þeim bestu. Það sem gerir hana kannski frábrugðna hefðbundum gúllasuppskriftum er að í henni er rautt karrý, mango chutney og kókosmjólk sem fer alveg svakalega vel með tómötunum og engiferinu. Útkoman verður alveg hreint ótrúlega bragðgóð og það voru allir á einu máli um að gúllasið væri stórgott.

Gúllas með rauðu karrý og kókosmjólk

Uppskriftin er frekar stór og dugði okkur í tvær máltíðir. Ég bar gúllasið fram með hrísgrjónum og snittubrauði fyrra kvöldið og heimagerðri kartöflumús það seinna. Bæði meðlætin voru góð en mér þótti kartöflumúsin þó eiga vinninginn. Þessi réttur verður eldaður aftur og aftur hér á bæ, svo mikið er víst.

Gúllas með rauðu karrý og kókosmjólk (uppskrift fyrir 8 manns)

 • 2 tsk olía
 • um 1 kg. gúllasbitar
 • 1 tsk salt
 • 1/2 tsk pipar
 • 1 stór laukur, skorinn í teninga
 • 3-4 hvítlauksrif, pressuð
 • 3 tsk rautt karrýmauk (thai red curry paste)
 • 2 lárviðarlauf
 • 1 dós (400 ml) hakkaðir tómatar
 • 1 dós (400 ml) kókosmjólk
 • 3 msk mango chutney
 • 3 msk sítrónusafi
 • 1 grænmetisteningur
 • 2 tsk fínrifið engifer
 • 3-4 dl gulrætur, skornar gróflega niður
 • 1 rauð paprika, skorin í teninga

Hitið olíu í góðum þykkbotna potti og brúnið kjötið í tveimur skömmtum. Takið kjötið úr pottinum og leggið til hliðar. Kryddið með salti og pipar.

Bætið smá olíu í pottinn ef þörf er á og setjið lauk og hvítlauk í hann. Látið mýkjast í um 3-5 mínútur (passið að hafa hitann ekki of háann) og bætið síðan kjötinu aftur í pottinn. Hrærið karrýmauki saman við og steikið í eina mínútu. Bætið þá tómötum, kókosmjólk, mangó chutney, sítrónusafa, engifer og lárviðarlaufi í pottinn og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann, setjið lok á pottinn og látið sjóða við vægan hita í 75 mínútur.  Bætið þá gulrótunum og grænmetisteningi í pottinn og sjóðið áfram í 30-45 mínútur, eða þar til kjötið er orðið meyrt og gulræturnar mjúkar.  Bætið þá paprikunni saman við og sjóðið án loks í 5 mínútur. Takið lárviðarlaufin úr pottinum áður en rétturinn er borinn fram.