Nú fer vonandi tími grillkvölda að renna upp og hann er svo kærkominn. Það jafnast fátt á við góða grillsteik á sumarkvöldum. Mér þykir meðlætið ekki minna mikilvægt en kjötbitinn og góð sósa getur hreinlega fullkomnað máltíðina.
Ég elska bernaise sósu og þessi uppskrift er mín uppáhalds. Hún er himnesk! Uppskriftina fann ég á heimasíðu Hagkaups og hún kemur upphaflega frá Rikku. Ég mæli með að þið prófið, þið verðið ekki fyrir vonbrigðum!
BERNAISE SÓSA
- 350 g smjör
- 4 eggjarauður
- 2 msk hvítvínsedik
- 1/2 msk sterkt sinnep
- karrý á hnífsoddi
- cayenne pipar á hnífsoddi
- 1/4 nautakraftskubbur
- 1/2 msk þurrkað estragon
- Sjávarsalt og nýmalaður pipar
Bræðið smjörið í potti við vægan hita. Setjið eggjarauðurnar í pott ásamt ediki, sinnepi, karrý og cayenne pipar og þeytið vel yfir vatnsbaði þar til að blandan verður ljós og létt. Gætið þess að eggjarauðurnar hlaupi ekki. Leggið pottinn á vinnuborðið og hellið smjörinu smám saman við og hrærið vel á milli. Þegar 1/3 af smjörinu er kominn saman við blönduna er kjötkraftskubbi og estragoni bætt við og síðan haldið áfram að bæta smjörinu smám saman við þar til að það er uppurið. Kryddið til með salti og pipar.
Takk fyrir þessa frábæru uppskrift af þessari guðdómlegu sósu! (Jaa..og reyndar allar hinar frábæru uppskriftirnar líka) er að gera hana núna í þriðja sinn og ég er nú ekki einu sinni það mikið fyrir bernaise…mmm hún er æði 🙂