Ég eyddi langri helgi í bústað við Hreðavatn í dásemdar veðri og kom gjörsamlega endurnærð heim. Við gerðum lítið annað en að fara í göngur, slappa af í pottinum og borða. Ostar, rauðvín, hráskinka, pekanhjúpuð ostakúla (eru þið ekki örugglega búin að prófa hana? Ég býð upp á hana við hvert tækifæri sem gefst!), kaffiformkaka með súkkulaði, brauðið góða (gömul uppáhaldsuppskrift), heilgrillað lambalæri, bernaise sósa og alveg hreint æðislega gott kaftöflugratín var meðal þess sem stóð á borðum hjá okkur yfir helgina. Uppskriftin af kartöflugratíninu er sú sem ég nota orðið í hvert einasta skipti sem ég geri kartöflugratín og vekur alltaf lukku.
Kartöflugratín (Uppskrift úr The Pioneer Woman Cooks, Food From my Frontier)
- ca 1 kg kartöflur
- 2 msk mjúkt smjör
- 1/4 bolli nýmjólk
- 1 ½ bolli rjómi
- 2 msk hveiti
- 3 hvítlauksrif
- 1 tsk salt
- pipar úr kvörn
- 1 bolli rifinn cheddar ostur
- 2 vorlaukar, bara hvíti og ljósgræni hlutinn
Hitið ofninn í 200° og smyrjið eldfast mót með smjöri. Skerið kartöflurnar í teninga og setjið í smurt eldfasta mótið. Blandið saman mjólk og rjóma í skál og bætið hveiti, pressuðum hvítlauk, salti og pipar saman við. Hrærið vel saman þar til blandan er kekkjalaus. Hellið rjómablöndunni yfir kartöflurnar og setjið álpappír yfir. Bakið í 30 mínútur, takið þá álpappírinn yfir og bakið áfram í 20 mínútur til viðbótar. Undir lokin er rifinn cheddarostur settur yfir og látinn bráðna síðustu mínúturnar í ofninum. Stráið þunnt skornum vorlauk yfir og berið fram heitt.
Flottar myndir og girnilegar uppskriftir.
Takk 🙂
Hvað seturu í litlu skeljarnar?
Camembert, mango chutney og hakkaðar pekanhnetur 🙂