London!

Ég, mamma og Malín skelltum okkur til London yfir helgina og eyddum þar langri helgi saman með bróður mínum sem flutti þangað í vor. Ferðin var æðisleg, veðrið gott og yndislegt að fá smá frí saman.

Við flugum til London snemma á fimmtudagsmorgninum og ég var svo þreytt að það náði engri átt. Mamma var þó fersk og til í fjörið sem var framundan.

Eyþór bróðir vinnur í Seðlabankanum og við fengum að heimasækja hann og skoða bankann. Skoðunarferðin endaði á hádegismat í mötuneyti bankans (frábært úrval og góður matur) og rúnt um fjármálahverfið, með viðkomu á helstu börum á svæðinu sem voru allir þéttsetnir. Svo gaman að sjá! Það voru strangar reglur varðandi heimsókn okkar í bankann og bannað að taka myndir þar. Þessi mynd var tekin af okkur mæðgunum á einum af börunum við bankann.

Við gengum hátt í 15 km á dag, kíktum í búðir og fengum okkur hressingu inn á milli. Við vorum dauðar þegar við komum upp á hótel á kvöldin og ég var svo fegin að hafa tekið mér frídag í gær og geta sofið út.

Það sem þessar tvær eru mér dýrmætar! Yndislegir dagar að baki sem gáfu ómetanlega inneign í minningabankann.

New York!

 

Ég var búin að lofa færslu um New York ferðina okkar og ætla að standa við það. Mér þykir sjálfri svo skemmtilegt að eiga smá dagbók hér á blogginu yfir ferðalögin okkar og vil því gjarnan skrifa smá færslur um þau. New York heillaði mig upp úr skónum! Það sem við höfðum það gaman!! Veðrið lék við okkur og borgin sýndi sínar bestu hliðar. Mig langaði mest til að framlengja…

SSSskutlurnar! Ég kynntist þessum tveim í gegnum fótboltann hjá Gunnari síðasta sumar, en synir okkar æfa allir með 3. flokki hjá Breiðablik. Við skemmtum okkur svo vel á leikjunum hjá strákunum að við ákváðum að halda smá uppskeruhátíð eftir sumarið. Síðan þá höfum við verið óaðskiljanlegar! Heitum Svava, Sunna og Sigrún og skiptumst á að skutla strákunum á æfingar (búum allar í göngufæri)… aka SSSskutlurnar! Skemmtilegustu skutlur í heimi!!

Í New York kynntumst við síðan megaskutlu, Julie Bowen sem leikur Claire Dunphy í Modern Family.

 

Eftir að hafa rölt um Central Park og legið í sólinni fórum við á The Met. Við skoðuðum þó nánast ekkert af safninu heldur borguðum okkur inn til að taka lyftuna rakleiðis upp á rooftop barinn, þar sem við fengum okkur drykki í sólinni og nutum útsýnisins yfir garðinn. Síðan tókum við eina klósett-selfie á safninu á leiðinni út…

Við byrjuðum einn daginn á Drybar í hárdekri á meðan mennirnir sváfu út. Meganæs!

Við vorum búin að bóka veitingastaði bæði fyrir hádegin og kvöldin. Ég hef þó aldrei verið jafn ódugleg að mynda eins og í þessari ferð. Hér erum við á Balthazar

Hádegisverður á The Wayfarer. Góður matur og frábær félagsskapur… líka á borðunum í kringum okkur en á einu þeirra sat Whoopi Goldberg!

Við borðuðum á Keens Steakhouse fyrsta kvöldið. Þar fengum við æðislegan mat en einhverja hluta vegna voru pípurnar í loftinu það eina sem festist á mynd það kvöldið.

Zuma var matarupplifun sem við munum seint gleyma. Við pöntuðum óvissuferð sem við héldum á tímabili að myndi engan enda taka. Við töldum 15 rétti (og vorum örugglega að gleyma einhverjum) og bróðurparturinn af þeim samanstóð af hráum fiskum. Eftir það fengum við 7 eftirrétti, en þá voru allir fyrir lifandis löngu búnir að fá nóg…

Við duttum fyrir tilviljun inn á Eataly eftir að hafa skoðað Ground Zero og vorum svo heppin að fá hornborðið með útsýni.

Sézane er dásamlega falleg búð, bæði að utan og innan. Ég stillti mér auðvitað upp og lét taka mynd.

Hæ sjálfur!

Ground Zero. Mychal F. Judge var prestur hjá slökkviliðinu í New York og sá fyrsti sem lést í árásinni. Við vorum þarna á afmælisdeginum hans og því rós við nafnið.

Trump Tower í baksýn. Fólk gekk framhjá með fokkmerki…

Flatiron building í öllu sínu veldi. Svo mögnuð!

The High Line í sól og blíðu.




Hótelið okkar var með æðislegum rooftop sem við fórum fyrst á síðasta kvöldið. Takið eftir sjónvarpsstofunni á þakinu á húsinu á móti.

Glaðar vinkonur í langþráðu og kærkomnu fríi frá skutli og öðru hversdagsamstri. Þetta verður sko endurtekið!

Stokkhólmur

Eins og þeir sem fylgja mér á Instagram hafa eflaust tekið eftir þá framlengdum við jólafríinu með langri helgi í Stokkhólmi. Við gerðum það sama í fyrra og vorum svo lukkuleg með ferðina að þessi ferð var bókuð sama dag og við komum heim.

Ég er svo hrifin af Stokkhólmi og get ekki dásamað borgina nóg. Þar er gaman að rölta um og fullt af frábærum veitingastöðum. Við gistum ýmist á Berns hótelinu eða Haymarket. Berns er súpervel staðsett en Haymarket er þó skemmtilegra hótel og í uppáhaldi hjá okkur. Það er vel staðsett en þar er einnig frábær veitingastaður, kaffihús og bar sem er þéttsetinn öll kvöld og frábær stemning þar. Við vorum á Haymarket núna og ég mæli algjörlega með því. Á báðum hótelunum eru herbergin lítil og við höfum í síðustu ferðum bókað stærri herbergi. Það er vel þess virði.

Morgunmaturinn á hótelinu er frábær og ég tek alltaf tvo diska í einu. Annan með hrökkbrauði og áleggi og hinn með pönnukökum, eggjahræru og beikoni (sem vantar á diskinn).

Við vorum búin að lesa góða dóma um veitingastaðinn á Haymarket, Paul´s, og borðuðum þar eitt kvöldið. Maturinn var svo góður og notalegt að geta bara sest niður á barinn eða tekið lyftuna upp á herbergi eftir matinn. Mér þykir upplagt að borða þar fyrsta kvöldið, þegar þreytan er farin að segja til sín eftir morgunflug með litlum nætursvefni eins og svo oft vill verða (hver kannast ekki við að vera að pakka fram á nótt og ná bara rétt að leggja sig fyrir morgunflug!), þá er þægilegt að þurfa ekki að fara af hótelinu.

Það er orðin hefð fyrir því hjá okkur að byrja Stokkhólmsferðir á rækjubrauði og hvítvínsglasi á Sturehof. Ég veit fátt betra. Besta rækjubrauð í heimi! Það er líka hefð að fara í Svenskt Tenn eftir Sturehof. Við förum aldrei tómhent þaðan út og í þetta sinn keyptum við kertastjaka sem við höfum haft augastað á og er svo fínn hér heima.

Pa&co dásamlegur staður sem við fórum á síðasta sumar og aftur núna. Ég hélt mér við kjötbollurnar enda algjörlega skotheldur réttur.

Taverna Brillo er eitt elsta brasseri Stokkhólms og þar er virkilega gaman að borða. Við pöntuðum okkar uppáhald, osta og plokk, og borðuðum svo mikið að við hættum við aðalréttinn sem við vorum búin að ákveða.

Ég virðist ekki geta farið erlendis án þess að versla hluti sem er vesen að ferðast með og í Stokkhólmi kaupi ég alltaf eitthvað úr Mateus stellinu. Það er handgert og mér þykir það svo fallegt að ég er alveg tilbúin til að drösla því í handfarangri heim. Þið sjáið bara hvað ég er glöð þarna innan um diska, föt og skálar!

Síðan verslaði ég smá fínerí, meðal annars seðlaveski sem leynist þarna í pokanum. Maður verður að leyfa sér aðeins!

Kampavín og snakk í Mood gallerian. Ljúft að setjast niður og hvíla lúin bein.

Eins dásamlegt og það er að fara í frí þá er alltaf jafn gott að koma aftur heim. Ég byrjaði að vinna aftur í dag eftir 18 daga jólafrí og í kvöld borðuðum við fiskibollur með karrýsósu, kartöflum og hrásalati. Á meðan ég hef setið hér við tölvuna hafa strákarnir setið á móti mér yfir heimanáminu. Hversdagsleikinn eins og hann gerist bestur!

SaveSave

SaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Heima!

 

Við erum komin heim eftir ævintýralega ferð til Balí. Ferð sem fór allt öðruvísi en við höfðum planað en fór sem betur fer vel á endanum.

 

Eftir að hafa dvalið bæði í Nusa Dua og Seminyak enduðum við í Ubud. Ubud stendur klárlega upp úr og ef ég fer aftur mun ég eyða meiri tíma þar. Seminyak var annasamari en ég átti von á (ég var þar á mesta ferðamannatímanum) en hótelið sem ég var á þar var mjög gott. Ströndin í Nusa Dua er æðisleg og hótelið sem við vorum á var frábært og með besta hótelmorgunmat sem ég hef smakkað. Ubud stendur þó upp úr, andrúmsloftið þar er yndislegt og við erum svo ánægð með að hafa endað ferðina þar.

Það hefur aldrei verið jafn gott að koma heim eins og núna. Að hitta krakkana aftur eftir mánaðarfjarveru var dásamlegt. Ég elska haustin, þegar allt fer í gang eftir sumarfrí. Besti árstíminn!

Ég ætla ekki að setja inn uppskrift núna heldur langaði mig bara til að kíkja aðeins inn með nokkrum myndum úr ferðinni. Ég er með svo mikið af myndum að ég mun eflaust aldrei ná að fara í gegnum þær.

Í Ubud byrjaði ég alla daga á nuddstofunni og fór upp í 3 meðferðir á dag þar. Ég prófaði nýtt nudd á hverjum degi (stundum tvö á dag!), fór í handsnyrtingu, fótsnyrtingu og dekurmeðferð fyrir hárið. Öll nudd byrja og enda á tebolla og eftir nuddið er einnig boðið upp á papaya spjót. Dásemd!

Byggingarvinna í hverfinu. Allir hjálpast að og vinnuvélar eru óþafar!

Það var æðislegur sushistaður á hótelinu okkar við enduðum á að borða þar nokkrum sinnum. Fyrir 8 bita borguðum við 400 krónur. Við borðuðum á okkur gat í hvert einasta sinn. Á kvöldin voru þeir með lifandi jazztónlist og kokteilarnir voru frábærir.

Við hliðina á hótelinu okkar var hamborgarastaðurinn. Fyrsti hamborgarastaðurinn í Ubud og einn sá mest sjarmerandi sem ég hef séð.

Við fórum í Monkey Forest og vorum næstum rænd af apa. Hef aldrei lent í því áður…

Ég fór í jóga í fallegastu jógastöð sem ég hef á ævinni séð. Ég hefði viljað framlengja ferðinni til þess eins að geta byrjað fleiri daga þar. Síðasta daginn okkar í Ubud reif ég mig upp eldsnemma, fór í sunrise yoga og síðan beint yfir á snyrtistofuna í fjögurra handa nudd. Lúxus!

Gönguleiðin að jógastöðinni var bæði skreytt með listaverkum og fallegu útsýni.

Við skoðuðum hrísgrjónaakrana í Telangalang. Svo fallegir!!

Þessi mynd drepur mig! En sjáið útsýnið! Ég veit ekki hvað gerðist því það var blanka logn en þegar ég stóð þarna fauk kjóllinn minn upp og aumingja ferðamennirnir sem stóðu þarna fyrir neðan að dást að útsýninu fengu heldur betur annað útsýni en þeir höfðu hugsað sér!

Við fórum í Holy Water Temple. Mér fannst magnað að koma þangað.

Og fórum í kaffismökkum við stórkostlegt útsýni. Þessi ferð mun seint gleymast og mig dreymir um að fara aftur og taka krakkana með. Þau myndu þrífast eins og fiskar í vatni þarna! Ubud er yndisleg og ef einhver er að velta ferð þangað fyrir sér þá mæli ég með þessari stórgóðu grein hennar Tobbu Marinós. Við prófuðum flesta veitingastaðina sem hún mælir með og vorum alsæl!

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Tacos með tælenskum kjúklingi, avokadó og kasjúhnetum

 

Í gærkvöldi bókaði ég gistingu í Ubud og við komum hingað seinnipartinn í dag. Við borðuðum hér á hótelinu okkar í kvöld og fengum æðislegan mat, sushi og nautakjöt. Svo ólýsanlega gott, bæði maturinn og að vera komin hingað saman. Þeir sem vilja geta fylgt mér á Instagram, þar set ég í Insta stories.

Ég er svo rugluð í dögunum hérna, þeir renna allir saman og það er enginn munur á mánudegi og laugardegi. Ég þurfti því að hugsa eftir til að átta mig á að það er föstudagur í dag og helgi framundan! Það er aldeilis við hæfi að setja þessa uppskrift inn fyrir helgina því þetta er fullkominn helgarmatur sem vekur lukku hjá öllum.

Tacos er jú bara svo gott og þessi útfærsla er æðisleg tilbreyting frá hinu hefðbundna tacos. Kjúklingurinn er svo bragðgóður og með hnetunum, avokadó, kóriander og sýrðum rjóma verður rétturinn ómótstæðilegur.

Mér þykir gott að þurrsteikja kasjúnhetur (og furuhnetur þegar ég er með þær) og hella síðan smá soja- eða tamarinsósu yfir þær í lokin þannig að sósan festist á hnetunum. Þetta poppar öll salöt upp og líka frábært snarl. Hér gerði ég þetta við hneturnar en rétturinn er góður þó því sé sleppt.

Ég tvöfaldaði uppskriftina fyrir okkur 5 og það kláraðist allt. Þetta var bara svo gott að það var ekki hægt að hætta að borða!

Tacos með tælenskum kjúklingi (uppskrift fyrir 3-4)

  • 2 kjúklingabringur
  • 1 kjúklingateningur (kraftur)
  • 1 líter vatn

Marinering

  • 1/2 dl appelsínudjús
  • 1/2 dl Hoisin sósa
  • 1 tsk hunang
  • 1 kjúklingateningur (kraftur)
  • 1 tsk hvítvínsedik
  • 1/2 chillí, hakkað (hafið fræin með ef þið viljið hafa sterkt, sleppið þeim annars)
  • 1 msk sojasósa
  • 1/2 lime

Meðlæti

  • laukur
  • paprika
  • tortillur
  • ferskt kóriander
  • avokadó
  • vorlaukur
  • kasjúhnetur (gott að þurrsteikja þær og hella síðan smá sojasósu yfir undir lokin)
  • sýrður rjómi

Byrjið á að setja vatn í pott og láta suðuna koma upp. Bætið kjúklingateningi og kjúklingabringum í pottinn og látið sjóða við vægan hita í 15 mínútur. Á meðan kjúklingurinn sýður er marineringin útbúin. Hrærið öllum hráefnunum í marineringuna saman. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann rifinn niður og settur út í marineringuna.

Skerið lauk og papriku í strimla. Hitið olíu á pönnu og steikið þar til mjúkt og laukurinn hefur fengið smá lit, það tekur um 8-10 mínútur (passið að hafa ekki of háan hita). Takið af pönnunni og leggið til hliðar. Steikið kjúklinginn á sömu pönnu (óþarfi að þrífa hana á milli) þar til marineringin er orðin þykk og klístruð.

Hitið tortillurnar örlítið og berið fram með kjúklingnum, grænmetinu, kóriander, vorlauk, avokadó, kasjúhnetum og sýrðum rjóma.

 

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Rjómasoðið hvítkál með parmesan

Það átti nú ekki að líða svona langt milli færslna en lífið er stundum ófyrirsjáanlegt. Veikindi og spítalavist settu strik í plönin hjá okkur og þurfti því að breyta öllum ferðaplönum. Ég hef því verið ein að þvælast hér um á Balí og er núna stödd í Seminyak í góðu yfirlæti á Double-Six hótelinu, þar sem ég bý í 80 fm herbergi með minn eigin butler sem sér meira að segja um að taka upp úr töskunum fyrir mig. Lúxus!

Seminyak er öðruvísi en ég átti von á. Hér er umferðin gjörsamlega galin og það getur tekið hátt í 90 mínútur að fara með leigubíl þá 8 km sem eru frá hótelinu yfir á spítalann. Ég mun aldrei aftur kvarta undan föstudagsumferðinni heima! Flestir ferðast um á vespum og rafmagnsstaurarnir eru vel nýttir.

Það er afslappandi að rölta eftir ströndinni hérna en ég mun þó seint eyða dögunum í sólbaði þar. Í Nusa Dua var ströndin gjörólík ströndinni hér. Þar var meiri ró og þá lagðist ég gjarnan þar með bókina mína snemma í morgunsárið eða undir lok dags og fylgdist með deginum byrja eða sólinni setjast.

Það er ítalskur veitingastaður hér á hótelinu sem ég er búin að borða á undanfarin kvöld. Ég er búin að fá mig fullsadda af pastaréttum og mun eflaust ekki elda pasta heima í bráð. Hakk og spaghetti er eflaust vinsæll hversdagsréttur á fleiri heimilum en mínu (og ef þið hafið ekki prufað þessa uppskrift þá mæli ég með því!) en fyrir þá sem vilja breyta til og jafnvel hvíla sig á pastanu þá er rjómasoðið hvítkál með parmesan æðislega gott með kjötsósunni. Bragðmeira en spaghetti og skemmtileg tilbreyting!

Rjómasoðið hvítkál með parmesan (uppskriftin er fyrir ca 4)

  • 1 lítill hvítkálshaus
  • 3 dl rjómi
  • 1 dl parmesan
  • salt og pipar

Mýkið hvítkálið í smjöri á pönnu. Hellið rjóma og parmesanosti yfir og látið sjóða saman við vægan hita þar til blandan hefur þykknað og hvítkálið er orðið mjúkt. Smakkið til með salti og pipar.

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Heimagerð vanillusósa sem fullkomnar allar sætar bökur

Í dag var planið að færa okkur til Ubud en aðstæður breyttust og við erum búin að framlengja dvölinni hér í Nusa Dua um óákveðinn tíma. Hótelið okkar hér er æðislegt og umhverfið svo afslappandi að það nær engri átt.

Það eru nokkrir veitingastaðir hér á hótelinu og þeir eru hver öðrum betri. Í gærkvöldi fékk ég snakk með mismunandi ídýfum í forrétt (brjálæðislega gott!) og karrýkjúkling í aðalrétt.

Síðan þykir mér ósköp notalegt að sitja í skugganum með bók á meðan mesti hitinn er. Ég fer í gegnum bók á dag hérna og það kom sér vel að við millilentum í Stokkhólmi á leiðinni hingað, þar sem ég komst í bókabúð á flugvellinum.

Ég lofaði uppskrift af vanillusósunni sem ég bar fram með rababarabökunni sem ég setti inn um daginn. Í Svíþjóð er algengt að bera vanillusósu fram með sætum bökum en það fer lítið fyrir því á Íslandi. Þessi uppskrift er bæði einföld og góð, og lítið mál að þeyta sósuna upp til að fá léttari áferð á hana. Ég mæli með að prófa!

Vanillusósa

  • 2 eggjarauður
  • 1 msk sykur
  • 1 msk kartöflumjöl
  • 4 dl rjómi
  • 1 msk vanillusykur

Setjið allt nema vanillusykurinn í pott. Látið suðuna koma upp við miðlungsháann hita. Látið sósuna sjóða þar til hún hefur þykknað og passið að hræra stöðugt í pottinum á meðan. Takið pottinn af hitanum og hrærið vanillusykri saman við. Látið kólna.

Berið vanillusósuna fram eins og hún er eða þeytið hana upp með handþeytara til að fá léttari áferð.

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Rabbabarabaka með vanillu

Ég er loksins komin í frí og ætla að eyða næstu vikum í afslöppun hér á Balí. Við komum hingað í hádeginu á föstudaginn og ég hef nánast verið sofandi síðan við lögðum af stað frá Keflavík. Ég svaf öll flugin, var sofnuð kl. 20 á föstudagskvöldinu og svaf alla nóttina án þess að rumska. Eftir morgunverðinn fórum við niður á strönd (hótelið okkar er á ströndinni) og þar sofnaði ég aftur. Seinni partinn settumst við í setustofuna við móttökuna og það var svo notalegt að sitja þar í sófanum í skugganum að ég sofnaði aftur. Nú er ég hins vegar að súpa seyðið af öllum þessum svefni og sit hér glaðvakandi við tölvuna kl. 3 um nóttu, með svalahurðina opna upp á gátt og hlusta á fuglasönginn sem berst inn til okkar. Á milli þess sem ég hef sofið hef ég náð að klára tvær bækur síðan ég kom hingað og hlakka til að byrja á þeirri þriðju þegar sólin kemur upp.

Við ætlum að eyða fyrstu nóttunum hér í Nusa Dua en förum síðan á þriðjudaginn til Ubud. Hér er sláandi fallegt, herbergið okkar er með einu besta rúmi sem við höfum sofið í og maturinn er svo góður að það nær engri átt. Morgunverðarhlaðborðið á hótelinu okkar er svakalegt, með öllu því sem hugurinn girnist. Ég hef aldrei séð annað eins. Nýbökuð brauð, álegg, eggjahrærur gerðar eftir óskum, beikon, pylsur, núðlur, steikt kínversk hrísgrjón, núðlusúpur, sushi, pönnukökur með súkkulaðisósu, belgískar vöfflur með sýrópi og berjum, ávaxtabar… úrvalið er endalaust! Ég get varla beðið eftir að klukkan slái sjö og mun eflaust hanga á húninum þegar þeir opna.

 

Í gærkvöldi borðuðum við á veitingastað hér í Nusa Dua sem heitir Kayiputi. Þar fengum við rækjuforrétt, æðislega nautasteik með grænmeti og kartöflumús með truffluolíu í aðalrétt og súkkulaðiköku sem var hjúpuð með súkkulaðimús og toppuð með súkkulaðiís í eftirrétt. Hrein dásemd! Ég setti myndir á Insta stories og ætla að reyna að vera dugleg að uppfæra þar á þessu ferðalagi mínu.

Þetta er í fyrsta sinn sem ég tek tölvuna með mér í frí og hef hugsað mér að blogga á meðan ég er hérna. Ég er nefnilega með svo mikið af uppskriftum sem eiga eftir að rata hingað inn að mér fannst upplagt að nýta tækifærið á meðan ég er hér að dunda mér við bloggið. Fyrsta uppskriftin héðan er svo sannarlega ekki framandi heldur ljúffeng rababarabaka sem passar vel núna þegar allir garðar eru að springa úr rababörum. Ég bauð upp á bökuna kvöldið áður en við lögðum af stað hingað út, í tilefni af afmæli mömmu. Með bökunni bar ég fram heimagerða vanillusósu (skal setja uppskriftina inn fljótlega) en vanilluís eða rjómi fara líka vel með henni.

Rabbabarabaka með vanillu

  • 3 rababarar (ca 30 cm að lengd)
  • 1 dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 tsk kartöflumjöl

Deig

  • 2 dl hveiti
  • 1 dl haframjöl
  • 4 tsk sykur
  • 150 g smjör
  • 1 tsk vanillusykur
  • sýróp (ég notaði ljóst sýróp sem kemur í brúsum, mjög þægilegt að sprauta beint úr flöskunni yfir bökuna)

Hitið ofninn í 200°. Skerið rababarann í ca 1 cm stóra bita. Smyrjið eldfast mót með smjöri og setjið rababarann í botninn á mótinu. Blandið sykri, vanillusykri og kartöflumjöli saman og stráið yfir rababarann.

Degið: Setjið hveiti, haframjöl, sykur, vanillusykur og smjör í skál og vinni saman þar til það myndast gróf mylsna. Dreifið henni yfir rababarana og endið á að láta sýróp í mjórri bunu yfir bökuna (það á ekki að þekja hana alla). Bakið í um 25 mínútur, eða þar til bakan hefur fengið gylltan lit og rababarinn er orðinn mjúkur.

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Vestmannaeyjar og ný krydd frá lækninum í eldhúsinu

Við eyddum helginni í Vestmannaeyjum og ég má til með að deila nokkrum myndum úr ferðinni. Vestmannaeyjar eru dásamlegar að heimsækja og eru mér kannski sérlega kærar þar sem ég er ættuð úr Eyjum. Ég hef þó aldrei búið þar sjálf.

Þegar við komum til Eyja á föstudeginum tóku rigning og rok á móti okkur. Það var því upplagt að keyra beint út á Stórhöfða og leyfa krökkunum að finna hversu hvasst getur orðið þar. Það var varla stætt!

Eins og vill verða um helgar þá var nánast borðað út í eitt. Við grilluðum bæði föstudags- og laugardagskvöld, vorum með bröns á laugardeginum og kaffi og kvöldkaffi báða dagana! Þess á milli var borðaður ís og nammi. Hamingjan hjálpi mér hvað lífið getur verið ljúft.

Laugardagurinn bauð hins vegar upp á sól og blíðu. Við gengum um bæinn, fengum okkur ís, sprönguðum, björguðum ungum sem höfðu fallið úr hreiðri, fórum í sund og gengum á Heimaklett. Það er æðislega gaman að ganga á hann og tekur stuttan tíma (tekur í það heila um klukkutíma með góðu stoppi á toppnum). Stigarnir eru brattir og kannski ekki fyrir lofthrædda en gangan er annars lauflétt. Við mættum þó túristum með þrjú lítil börn í Crocks skóm á leiðinni upp. Mér leist ekkert á það! Eftir matinn fóru krakkarnir aftur að spranga og þegar þau komu heim settust þau niður og spiluðu Fimbulfamb langt fram eftir nóttu. Þau hafa endalaust úthald!

Á sunnudeginum fórum við á Eldheimasafnið og ef einhver lesandi er á leið til Eyja þá mæli ég hiklaust með viðkomu þar. Ég veit ekki hvort það megi taka myndir þar inni en ég sá fólk mynda og smellti þá af þessari einu mynd. Þetta hús var grafið upp og það er magnað að sjá inn í það og heyra lýsingu íbúanna frá nóttinni sem gosið hófst (það fá allir heyrnatól með frásögnum). Safnið er bæði áhrifamikið og áhugavert!

Í lokin má ég til með að segja ykkur að þegar ég kom heim frá Stokkhólmi um daginn beið mín glaðningur frá Ragnari Frey (Læknirinn í eldhúsinu) en hann hafði litið við og skilið eftir handa mér Grillbókina og nýju kryddlínuna frá honum. Grillbókin hefur staðið á óskalistanum hjá mér og ég var því alsæl að eignast hana. Síðan get ég í fullri hreinskilni sagt að kryddin eru himnesk! Við tókum Yfir holt og heiðar með okkur til Eyja og krydduðum lambalundir með því. Lyktin af kryddunum er ólýsanlega góð og gæðin eftir því, enda ekki við öðru að búast frá honum. Ég mæli svo sannarlega með þeim! 

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Löng helgi í Stokkhólmi

Við tókum skyndiákvörðun síðasta miðvikudag og bókuðum okkur ferð til Stokkhólms yfir helgina. Við vorum heppin að ná síðasta herberginu á Berns (Haymarket var uppbókað) og fengum stórt og gott herbergi á efstu hæð. Veðrið var æðislegt, sól og yfir 20 gráður langt fram eftir kvöldi. Við nutum til hins ýtrasta!

Þar sem fyrirvarinn var stuttur (innan við sólarhringur!) náði ég ekki að bóka veitingastaði eins og ég er vön að gera en það kom ekki að sök. Við borðuðum æðislegan mat og ég uppgötvaði í leiðinni nýjan stað sem varð strax uppáhalds. Eftir ferðina eru nokkrir staðir sem mig langar að benda á.


Það er ekkert nýtt að ég dásami Sturehof en þangað fer ég í hverri einustu Stokkhólmsferð og panta alltaf það sama, toast skagen og hvítvínsglas. Best í heimi!

Koh Phangan er góður tælenskur staður  með frábærum mat á góðu verði. Við vorum heppin að ná borði uti og sátum frameftir kvöldi yfir matum.

Taverna Brillo er annnar góður staður sem við borðuðum tvisvar á og í bæði skiptin fengum við borð úti í sólinni. Í fyrra skiptið fengum við okkur trufflu mac & cheese sem var æði og í það seinna pizzu með ítalskri skinku, parmesan, ruccola, valhnetum og sítrónu sem var ekki síðri.

Phils burger er vinsæll hamborgarastaður sem er á nokkrum stöðum um Stokkhólm og er með æðislega hamborgara. Ég fékk mér með karamelluseruðum lauki og trufflu majónesi sem var brjálæðislega góður.  Með borgurunum fengum við okkur bæði venjulegar og sætkartöflufranskar, bearnaise og Phil´s dipp sauce. Ég komst varla heim því ég var svo södd.

Síðast en ekki síst er nýjasti uppáhalds veitingastaðurinn, PA&Co. Ég get ekki hætt að hugsa um matinn sem við fengum þar, hann var himneskur! Eftir matinn röltum við yfir á Grand hotel og fengum okkur drykk undir lifandi píanóleik og söngi. Útsýnið frá barnum á Grand hotel er æðislegt og sérstaklega á svona fallegum sumarkvöldum.


Fallegasti kokteill sem ég hef séð fengum við á Hotel Kung Carl. Þar eru þaksvalir sem fáir vita um og virkilega notalegt að sitja þar á sumarkvöldum.


Eftir að hafa rölt borgina þvera og endilanga og gengið vel yfir 20 km á laugardeginum settumst við niður á þaksvölunum á Scandic Continental. Það var 23 gráðu hiti, glampandi sól og æðisleg stemning. Skemmtilegur staður með útsýni yfir borgina.

Ég læt hér við sitja í þetta sinn en hér má lesa fleiri ábendingar varðandi Stokkhólm.

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave