Eins og þeir sem fylgja mér á Instagram hafa eflaust tekið eftir þá framlengdum við jólafríinu með langri helgi í Stokkhólmi. Við gerðum það sama í fyrra og vorum svo lukkuleg með ferðina að þessi ferð var bókuð sama dag og við komum heim.
Ég er svo hrifin af Stokkhólmi og get ekki dásamað borgina nóg. Þar er gaman að rölta um og fullt af frábærum veitingastöðum. Við gistum ýmist á Berns hótelinu eða Haymarket. Berns er súpervel staðsett en Haymarket er þó skemmtilegra hótel og í uppáhaldi hjá okkur. Það er vel staðsett en þar er einnig frábær veitingastaður, kaffihús og bar sem er þéttsetinn öll kvöld og frábær stemning þar. Við vorum á Haymarket núna og ég mæli algjörlega með því. Á báðum hótelunum eru herbergin lítil og við höfum í síðustu ferðum bókað stærri herbergi. Það er vel þess virði.
Morgunmaturinn á hótelinu er frábær og ég tek alltaf tvo diska í einu. Annan með hrökkbrauði og áleggi og hinn með pönnukökum, eggjahræru og beikoni (sem vantar á diskinn).
Við vorum búin að lesa góða dóma um veitingastaðinn á Haymarket, Paul´s, og borðuðum þar eitt kvöldið. Maturinn var svo góður og notalegt að geta bara sest niður á barinn eða tekið lyftuna upp á herbergi eftir matinn. Mér þykir upplagt að borða þar fyrsta kvöldið, þegar þreytan er farin að segja til sín eftir morgunflug með litlum nætursvefni eins og svo oft vill verða (hver kannast ekki við að vera að pakka fram á nótt og ná bara rétt að leggja sig fyrir morgunflug!), þá er þægilegt að þurfa ekki að fara af hótelinu.
Það er orðin hefð fyrir því hjá okkur að byrja Stokkhólmsferðir á rækjubrauði og hvítvínsglasi á Sturehof. Ég veit fátt betra. Besta rækjubrauð í heimi! Það er líka hefð að fara í Svenskt Tenn eftir Sturehof. Við förum aldrei tómhent þaðan út og í þetta sinn keyptum við kertastjaka sem við höfum haft augastað á og er svo fínn hér heima.
Pa&co dásamlegur staður sem við fórum á síðasta sumar og aftur núna. Ég hélt mér við kjötbollurnar enda algjörlega skotheldur réttur.
Taverna Brillo er eitt elsta brasseri Stokkhólms og þar er virkilega gaman að borða. Við pöntuðum okkar uppáhald, osta og plokk, og borðuðum svo mikið að við hættum við aðalréttinn sem við vorum búin að ákveða.
Ég virðist ekki geta farið erlendis án þess að versla hluti sem er vesen að ferðast með og í Stokkhólmi kaupi ég alltaf eitthvað úr Mateus stellinu. Það er handgert og mér þykir það svo fallegt að ég er alveg tilbúin til að drösla því í handfarangri heim. Þið sjáið bara hvað ég er glöð þarna innan um diska, föt og skálar!
Síðan verslaði ég smá fínerí, meðal annars seðlaveski sem leynist þarna í pokanum. Maður verður að leyfa sér aðeins!
Kampavín og snakk í Mood gallerian. Ljúft að setjast niður og hvíla lúin bein.
Eins dásamlegt og það er að fara í frí þá er alltaf jafn gott að koma aftur heim. Ég byrjaði að vinna aftur í dag eftir 18 daga jólafrí og í kvöld borðuðum við fiskibollur með karrýsósu, kartöflum og hrásalati. Á meðan ég hef setið hér við tölvuna hafa strákarnir setið á móti mér yfir heimanáminu. Hversdagsleikinn eins og hann gerist bestur!