Það hefur verið rólegt hér á blogginu undanfarna daga þar sem ég skellti mér í helgarferð til Stokkhólms. Eftir að ég póstaði mynd úr ferðinni á Instagram var ég beðin um Stokkhólmsfærslu sem ég ákvað að setja strax inn. Stokkhólmur er ein af mínum uppáhalds borgum. Strákarnir mínir eru fæddir í Svíþjóð og við bjuggum bæði í Uppsölum og Stokkhólmi í fjögur ár. Það er því alltaf notalegt tilfinning að koma þangað.
Við vorum síðast í Stokkhólmi í maí og gistum þá á Berns hotel. Núna gistum við á Haymarket sem hefur verið hælt mikið á sænskum bloggum síðan það opnaði í maí. Staðsetningin er frábær og hótelbarinn er þéttsetinn frá hádegi og fram á nótt. Þar er lifandi jazztónlist á kvöldin og stemningin er æðisleg. Á hótelinu er einnig kaffihús og veitingastaður sem hefur fengið góða dóma. Frábært hótel í alla staði!
Það er mikið af góðum veitingastöðum í Stokkhólmi og vandamálið er að velja úr þeim. Það eru þó nokkrir staðir sem eru í uppáhaldi:
- Sturehof er elsti sjávarréttarstaður Stokkhólms. Ég fer þangað í hverri Stokkhólmsferð og panta alltaf það sama, toast skagen og hvítvínsglas. Ég fer helst í hádeginu og á sumrin bið ég um borð úti. Þar er auðveldlega hægt að sitja fram á kvöld og fylgjast með mannlífinu.
- Riche. Hér fæ ég mér sænskar kjötbollur og enda máltíðina á klassíska sænska eftirréttinum Gino. Súpergott!
- Berns Aisatiska. Góður matur undir stórum kristalljósakrónum í fallegu umhverfi. Líf og fjör!
- Farang. Ég borðaði þar í fyrsta sinn núna eftir að vinkonur mínar mæltu með honum. Prófið Farang meny eða Meny Fan Si Pan. Matarupplifun sem gleymist seint.
Síðan er nóg af góðum skyndibitum í Stokkhólmi. Ég mæli með:
- Vapiano. Ítalskur matur sem svíkur engann. Hér færðu góðar pizzur og æðislegt pasta. Við höfum dottið hér inn á milli búða og pantað okkur ostabakka, bruchetta og rauðvín á meðan við hvílum fæturnar.
- Burger and lobster. Einfaldur matseðill þar sem einungis hamborgari og humar eru í boði. Verðið er það sama á báðum réttunum, 285 sek. Gott!
- Phils burger er vinsæll hamborgarastaður sem margir líkja við Shake Shack.
- Max hamburger. Svo margfalt betri en McDonalds. Melted cheddar dip er möst með frönskunum. Ég kaupi minn á flugvellinum á heimleiðinni.
Það væri synd að fara til Svíþjóðar án þess að fá sér kanilsnúð. Fyrir alvöru snúð er Saturnus málið!
Hvað verslun varðar þá má finna allar helstu búðir í Stokkhólmi. Ég eyði góðum tíma í NK sem er á Hamngatan. Þar er hægt að þræða hverja hæðina á fætur annarri og setjast niður á kaffihúsin inn á milli. Í kjallaranum er matvörubúð sem ég kem alltaf við í. Síðan fer ég yfir á Biblioteksgatan þar sem m.a. Cos, And other stories og Sephora eru. Þar á eftir fer ég í Sturegallerian þar sem m.a. Massimo Dutti er að finna. Lagerhaus er við hliðina á Sturegallerian, þar má finna ýmislegt skemmtilegt fyrir heimilið. Uppáhalds búðin mín er síðan Svenskt tenn. Þangað fer ég alltaf og kem aldrei tómhent út. Í miðbænum eru einnig Gallerian og Mood (ég er hrifnari af Mood). Södermalm er skemmtilegt hverfi sem gaman er að rölta um og fyrir þá sem vilja komast í góða verslunarmiðstöð þá er Mall of Scandinavia málið. Lestin fer beint úr miðbænum og stoppar þar beint fyrir utan.
Ég fer sjaldan á söfn en Moderna museet og Fotografiska museet eru bæði í göngufæri við miðbæinn og á báðum stöðum er hægt að gera góð kaup í gjafaverslunum (það er t.d. gott úrval af plakötum á Fotografiska). Eins er Vasasafnið skemmtilegt og ef börn eru með í för þá eru Junibacken og Skansen ómissandi. Eins er Gröna Lund tívolígarðurinn skemmtilegur. Á vorin er fallegt að sjá kirsuberjatréin í blóma í Kungsträdgården og Humlegården stendur alltaf fyrir sínu á hlýrri dögum. Allt er þetta í göngufæri við miðbæinn.
2 athugasemdir á “Stokkhólmur”