Í dag var planið að færa okkur til Ubud en aðstæður breyttust og við erum búin að framlengja dvölinni hér í Nusa Dua um óákveðinn tíma. Hótelið okkar hér er æðislegt og umhverfið svo afslappandi að það nær engri átt.
Það eru nokkrir veitingastaðir hér á hótelinu og þeir eru hver öðrum betri. Í gærkvöldi fékk ég snakk með mismunandi ídýfum í forrétt (brjálæðislega gott!) og karrýkjúkling í aðalrétt.
Síðan þykir mér ósköp notalegt að sitja í skugganum með bók á meðan mesti hitinn er. Ég fer í gegnum bók á dag hérna og það kom sér vel að við millilentum í Stokkhólmi á leiðinni hingað, þar sem ég komst í bókabúð á flugvellinum.
Ég lofaði uppskrift af vanillusósunni sem ég bar fram með rababarabökunni sem ég setti inn um daginn. Í Svíþjóð er algengt að bera vanillusósu fram með sætum bökum en það fer lítið fyrir því á Íslandi. Þessi uppskrift er bæði einföld og góð, og lítið mál að þeyta sósuna upp til að fá léttari áferð á hana. Ég mæli með að prófa!
Vanillusósa
- 2 eggjarauður
- 1 msk sykur
- 1 msk kartöflumjöl
- 4 dl rjómi
- 1 msk vanillusykur
Setjið allt nema vanillusykurinn í pott. Látið suðuna koma upp við miðlungsháann hita. Látið sósuna sjóða þar til hún hefur þykknað og passið að hræra stöðugt í pottinum á meðan. Takið pottinn af hitanum og hrærið vanillusykri saman við. Látið kólna.
Berið vanillusósuna fram eins og hún er eða þeytið hana upp með handþeytara til að fá léttari áferð.