Uppáhalds kartöflugratínið

Uppáhalds kartöflugratíniðÉg eyddi langri helgi í bústað við Hreðavatn í dásemdar veðri og kom gjörsamlega endurnærð heim. Við gerðum lítið annað en að fara í göngur, slappa af í pottinum og borða. Ostar, rauðvín, hráskinka, pekanhjúpuð ostakúla (eru þið ekki örugglega búin að prófa hana? Ég býð upp á hana við hvert tækifæri sem gefst!), kaffiformkaka með súkkulaði, brauðið góða (gömul uppáhaldsuppskrift), heilgrillað lambalæri, bernaise sósa og alveg hreint æðislega gott kaftöflugratín var meðal þess sem stóð á borðum hjá okkur yfir helgina. Uppskriftin af kartöflugratíninu er sú sem ég nota orðið í hvert einasta skipti sem ég geri kartöflugratín og vekur alltaf lukku.

Uppáhalds kartöflugratíniðUppáhalds kartöflugratíniðUppáhalds kartöflugratíniðUppáhalds kartöflugratíniðUppáhalds kartöflugratíniðUppáhalds kartöflugratíniðUppáhalds kartöflugratíniðUppáhalds kartöflugratíniðUppáhalds kartöflugratíniðUppáhalds kartöflugratíniðUppáhalds kartöflugratíniðUppáhalds kartöflugratínið

Kartöflugratín (Uppskrift úr The Pioneer Woman Cooks, Food From my Frontier)

  • ca 1 kg kartöflur
  • 2 msk mjúkt smjör
  • 1/4 bolli nýmjólk
  • 1 ½ bolli rjómi
  • 2 msk hveiti
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 tsk salt
  • pipar úr kvörn
  • 1 bolli rifinn cheddar ostur
  • 2 vorlaukar, bara hvíti og ljósgræni hlutinn

Hitið ofninn í 200° og smyrjið eldfast mót með smjöri. Skerið kartöflurnar í teninga og setjið í smurt eldfasta mótið.  Blandið saman mjólk og rjóma í skál og bætið hveiti, pressuðum hvítlauk, salti og pipar saman við. Hrærið vel saman þar til blandan er kekkjalaus. Hellið rjómablöndunni yfir kartöflurnar og setjið álpappír yfir. Bakið í 30 mínútur, takið þá álpappírinn yfir og bakið áfram í 20 mínútur til viðbótar. Undir lokin er rifinn cheddarostur settur yfir og látinn bráðna síðustu mínúturnar í ofninum. Stráið þunnt skornum vorlauk yfir og berið fram heitt.

Uppáhalds kartöflugratínið

Páskafríið og sykurbrúnaðar kartöflur

Páskafríið og sykurbrúnaðar kartöflur

Ég vaknaði með flensu á páskadagsmorgun og hef hreinlega bara versnað með hverjum deginum sem líður. Alveg glatað! Ég bind miklar vonir við að þessu fari að snúa og að ég komist til vinnu áður en vikan er öll. Þrátt fyrir veikindin höfum við átt ljúfa daga og svo sem ekki yfir neinu að kvarta. Dagana áður en ég lagðist í rúmið náðum við að fara á skíði, í hellaferð, fara í matarboð og halda matarboð. Það hefur því ekki væst um okkur.

Páskafríið og sykurbrúnaðar kartöflur

Ferðin í Leiðarenda var skemmtileg upplifun og kom mér á óvart hvað hellirinn er fallegur. Ef þið ætlið að fara þá eru hjálmar og höfuðljós nauðsynleg og mjög gott að vera á broddum. Það tekur sinn tíma að fara um hann og upplagt að taka með nesti. Ég bakaði pizzasnúða og hitaði súkkulaði sem við tókum með okkur og borðuðum í hellinum. Ævintýri fyrir alla aldurshópa!

Páskafríið og sykurbrúnaðar kartöflur

Við byrjuðum flesta daga í fríinu á heitu crossant (ég kaupi þau frosin) með skinku, osti og eggjahræru. Við virðumst ekki fá leið á þeirri blöndu. Krakkarnir setja stundum Nutella á sín, þið getið rétt ímyndað ykkur gleðina. Brjálæðislega gott þegar Nutella bráðnar aðeins í heitu crossantinu.

Páskafríið og sykurbrúnaðar kartöflur

Ég eldaði fyllt hátíðarlæri með frönskum camembert (frá Hagkaup) sem var súpergott og ég vona að hægt verði að kaupa áfram. Með lambinu bar ég meðal annars fram sykurbrúnaðar kartöflur. Ég veit að það kunna eflaust allir að brúna kartöflur en ég las einu sinni að það væri snjallt að setja sítrónusafa á sykurinn á meðan hann bráðnar því þá brennur hann ekki. Ég hef síðan þá stuðst við þessa uppskrift, sem mig minnir að komi úr Gestgjafanum, og hún klikkar ALDREI.

Sykurbrúnaðar kartöflur:

  • 2 dl sykur
  • 2 msk sítrónusafi
  • 40 g smjör
  • 1 kg kartöflur

Sykurinn og sítrónusafinn er sett á pönnu og látið bráðna við vægan hita (hrærið sem minnst í á meðan). Þegar sykurinn hefur bráðnað er smjörinu bætt út í og látið bráðna saman. Soðnum, skrældum kartöflum (passið að hafa þær þurrar) er þá bætt í.

Í eftirrétt var uppáhaldið hans Gunnars, súkkulaðimús (þú finnur uppskriftina hér). Við erum öll hrifin af súkkulaðimús en Gunnar gæti lifað á henni og hún verður því alltaf fyrir valinu þegar hann fær að ráða.

Páskafríið og sykurbrúnaðar kartöflur

 

Kjúklingabringur með himneskri fyllingu og sætri kartöflustöppu

Kjúklingabringur með himneskri fyllingu og sætri kartöflustöppu

Á morgun er Valentínusardagurinn. Ég elska alla svona daga og skil ekki þegar verið er að bölva því að Íslendingar séu að elta amerískar hefðir, að við eigum bóndadag og konudag sem dugi vel. Hvernig er hægt að vera á móti auka degi sem snýst um að gera vel við ástina sína, sérstaklega í þessum annars litlausa mánuði.

Kjúklingabringur með himneskri fyllingu og sætri kartöflustöppu

Við Öggi ætlum út að borða annað kvöld og ég er búin að hlakka til alla vikuna. Ef við hefðum ekki ákveðið að fara út að borða hefði ég lagst yfir uppskriftabækurnar og fundið eitthvað gott til að elda fyrir okkur. Öggi hefði komið með blóm heim og ég hefði lagt fallega á borð og kveikt á kertum.

Kjúklingabringur með himneskri fyllingu og sætri kartöflustöppu

Í síðustu viku voru systir mín og fjölskylda sem búa í Danmörku stödd á landinu. Þau komu í mat til okkar og ég eldaði kjúklingabringur með fyllingu sem er svo góð að það er engu líkt. Með kjúklingabringunum bar ég fram sæta kartöflumús og gott salat. Uppskriftina fékk ég hjá vinkonu minni um árið og hef oft dregið fram þegar ég vil slá í gegn. Þessi réttur klikkar aldrei og því þykir mér upplagt að elda þessa dásemd fyrir ástina sína annað kvöld, á sjálfan Valentínusardaginn.

Kjúklingabringur með himneskri fyllingu og sætri kartöflustöppu

Fylling:

  • 200 g döðlur
  • 1 krukka sólþurrkaðir tómatar
  • 1 poki furuhnetur
  • smá ólívuolía
  • vel af fersku rósmarín
  • Gullostur (eða annar góður hvítmygluostur)
  • 2-3 hvítlauksgeirar
  • svartur pipar

Ristið furuhnetur á pönnu. Skerið  döðlur, sólþurrkaða tómata og rósmarín smátt og steikið í ólívuolíu á pönnu. Pressið eða saxið hvítlaukinn smátt og steikið með í lokin. Setjið ostinn í bitum á pönnuna og látið bráðna. Bætið furuhnetum saman við og piprið.

Leggið kjúklingabringurnar í eldfast mót og skerið rauf ofan á þær. Setjið fyllinguna í raufarnar og yfir bringurnar. Setjið álpappír yfir formið (lokið því vel) og setið það í 200° heitan ofn í 40 mínútur. Undir lokin er hægt að taka álpappírinn af til að fá fallegan lit á kjúklingabringurnar.

Sæt kartöflustappa:

Afhýðið sætar kartöflur, skerið þær í bita og sjóðið þar til þær eru orðnar mjúkar. Hellið vatninu frá og stappið með vel af smjöri og púðursykri. Piprið með svörtum pipar. Smakkið til og stappan verður æði.

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Þar sem heimilislífið snýst um júróvisjón þessa dagana þá þykir mér við hæfi að koma aftur með tillögu að kvöldmat fyrir júróvisjónkvöldið. Fyrir síðustu helgi birti ég uppskrift að frábærum mexíkóskum rétti sem ég má til með að stinga aftur upp á fyrir annað kvöld ef þið hafið ekki þegar prófað hann. Nú kem ég þó með nýja tillögu sem mér þykir ekki síður góð.

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Ég eldaði þessa kjúklingabita og sætu kartöflufranskar um síðustu helgi. Uppskriftirnar sá ég hjá Ambitious Kitchen og vissi strax að ættu eftir að falla vel í kramið hjá mannskapnum. Kjúklingurinn er marineraður í grískri jógúrt, hunangi og dijon sinnepi sem gerir hann mjúkan og bragðgóðan. Þar á eftir er honum velt upp úr Kornflakes sem gefur honum stökka húð. Þetta getur ekki klikkað. Sætu kartöflufranskarnar eru hreinlega of góðar og við gátum ekki hætt að borða þær. Öggi sá síðan til þess að hunangssinnepssósan kláraðist upp til agna. Namm!

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Kjúklingabitar

  • 4 kjúklingabringur (ég notaði kjúklingalundir)
  • 2 bollar grísk jógúrt
  • 2 msk hunang
  • 2 msk dijon sinnep
  • 1/4 tsk sjávarsalt
  • 2 ½ bolli kornflakes

Hitið ofninn í 175°. Skerið kjúklingabringurnar í strimla (eða notið kjúklingalundir). Hrærið saman grískri jógúrt, hunangi, salti og dijon sinnepi í stórri skál. Bætið kjúklingnum í skálina og blandið saman þannig að marineringin hjúpi kjúklinginn. Setjið plastfilmu yfir kjúklinginn og geymið í ískáp í 20 mínútur.

Setjið helminginn af kornflakesinu í poka og myljið. Setjið helminginn af kjúklingnum í pokann og hristið hann svo að kornflakesið hjúpi kjúklinginn. Raðið kjúklingnum á bökunarpappírsklædda ofnplötu og spreyjið smá af olíu yfir. Bakið í 20-25 mínútur.

Bakaðar sætar kartöflufranskar

  • 2-4 stórar sætar kartöflur
  • 1-2 msk maizena mjöl
  • 1-2 ólívuolía
  • sjávarsalt
  • krydd eftir smekk

Hitið ofninn í 210°. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og spreyjið smá olíu á hann. Afhýðið kartöflurnar., skerið í strimla á stærð við franskar kartöflur og setjið í stóra skál. Stráið maizenamjöli yfir og hristið vel svo að mjölið myndi létta húð um kartöflurnar. Setjið ólívuolíu yfir og hristið aftur þannig að kartöflurnar fái létta olíuhúð (þið gætuð þurft að bæta við meiri olíu). Dreifið úr kartöflunum á bökunarpappírnum þannig að þær myndi einfalt lag og liggi ekki saman. Bakið kartöflurnar í 15 mínútur, snúið þeim og bakið áfram í 15 mínútur til viðbótar. Fylgist með kartöflunum undir lokin og passið að ofbaka þær ekki.

Hunangssinnepssósa

  • 1/4 bolli majónes
  • 1/4 bolli dijon sinnep
  • 2 msk hunang

Hrærið majónesi og sinnepi vel saman. Bætið hunangi saman við og hrærið aftur þar til allt hefur blandast vel. Geymið í ískáp þar til sósan er borin fram.

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Ofnbakaðir kartöfluhelmingar

Ofnbakaðir kartöfluhelmingar

Við krakkarnir ákváðum að fara ekki með Ögga í sjónvarpssal í kvöld heldur buðum mömmu til okkar í heimagerða pizzu og skammarlega mikið af snakki og nammi. Á eftir júróvisjón kemur Öggi heim og þá ætlum við að horfa saman á American Idol. Það er því óhætt að segja að það sé gott sjónvarpskvöld sem bíður okkar.

Ofnbakaðir kartöfluhelmingar

Ég er sérlega spennt fyrir að deila þessari frábæru uppskrift með ykkur. Ég elska kartöflur og hef eldað óteljandi (og misgóða) kartöflurétti í gegnum tíðina. Þegar ég sá þessa uppskrift á Pinterest réð ég varla við mig af kæti því ég var svo viss um að hún væri góð. Það bara lá í augum uppi og ég furða mig á því að ég hafi ekki eldað kartöflur svona fyrr. Þær verða svo stökkar að utan og mjúkar að innan, alveg eins og ég vil hafa þær. Að elda þær upp úr bræddu smjöri í staðin fyrir olíu gerir gæfumuninn.

Ég eldaði kartöfluhelmingana strax daginn eftir að ég sá uppskriftina og bar þá fram með pretzelpylsum sem vakti gífurlega lukku. Síðan þá hef ég eldað þá við hvert tækifæri sem gefst og við fáum ekki nóg af þeim.

Ofnbakaðir kartöfluhelmingar

Ofnbakaðir kartöfluhelmingar

  • 12 kartöflur
  • ½ bolli brætt smjör
  • rifinn parmesan ostur
  • hvítlauksduft
  • önnur krydd eftir smekk (mér þykir gott að nota kryddblöndu með salti, timjan og sítrónu frá Jamie Oliver)

Hitið ofninn í 200°. Skerið kartöflur í tvennt á langhliðina. Bræðið smjör og setjið í botninn á eldföstu formi (passið að hafa formið ekki of stórt, smjörið þarf að fylla vel út í formið) og rífið vel af parmesan osti yfir. Kryddið með öðrum kryddum og raðið kartöflunum í formið með sárið niður í smjörið. Bakið í 40-45 mínútur. Berið fram með sýrðum rjóma.

Lambafilé, kramdar kartöflur með parmesan gremolata og sveppasósa með piparosti

Lambalundir með parmesan gremolata krömdum kartöflum og sveppasósu með piparosti

Við látum ekki tækifæri til að fagna fara til spillis hér á heimilinu og héldum þrettándan hátíðlegan með veislu sem hefði hæft kóngi og öllu hans föruneyti. Að vísu var veislan fásetin þar sem engum gestum var boðið til hennar öðrum en fjölskyldumeðlimum. Ég hefði þó ekki getað hugsað mér betri félagsskap og þykja satt að segja konungsfjölskyldur fölna í samanburði (sem ég hef þó almennt mikið dálæti á).

Á matseðlinum var lambafilé með ofnbökuðum kartöflum og sveppasósu. Þvílík veisla og ó, hvað við borðuðum yfir okkur. Lambakjötið var svo meyrt og bragðgott, enda búið að liggja í mareneringu í sólarhring. Kartöflurnar voru, eins og unglingurinn orðaði það, klikkaðar og sósuna hefði ég getað borðað eina og sér. Og matur sem ég taldi duga í tvær máltíðir kláraðist upp til agna því enginn gat hætt að borða. Restinni af kvöldinu eyddum við, gjörsamlega afvelta, í að horfa á The Holiday og vorum öll á einu máli um að þetta væri góður endir á þessari síðustu jólaveislu í bili.

Lambalundir með parmesan gremolata krömdum kartöflum og sveppasósu með piparosti

Marenering fyrir lambakjöt

  • 2 rósmarínkvistar, stöngullinn fjarlægður og nálarnar hakkaðar
  • 4 hvítlauksrif, pressuð
  • 4 tsk Dijonsinnep
  • 0,5 dl ólívuolía
  • salt
  • pipar

Lambalundir með parmesan gremolata krömdum kartöflum og sveppasósu með piparosti

Blandið öllu saman. Látið kjötið og marineringuna í plastpoka (nuddið marineringunni á kjötið) og látið standa í ískáp í sólarhring. Brúnið kjötið á pönnu og setjið síðan í ofn við 150°. Eldunartíminn fer eftir bita af lambinu. Ef kjötið á að vera ljósrautt er ágætt að miða við 67° á kjöthitamæli.

Kramdar kartöflur með parmesan og steinselju

  • 1 kg kartöflur
  • 1/2 bolli ólívuolía
  • 1 tsk sjávarsalt
  • 3 hvítlauksrif, afhýdd, kramin og söxuð
  • 1/2 bolli fersk steinselja, hökkuð (er um 1/4 bolli eftir að hún hefur verið hökkuð)
  • rifið hýði af 1 sítrónu (passið að raspa léttilega á sítrónuna þannig að það komi ekkert hvítt með)
  • 1/4 bolli rifinn parmesanostur

Hitið ofninn í 200°. Skolið kartöflurnar og sjóðið þar til þær eru tilbúnar, um 20 mínútur. Hellið af kartöflunum og látið þær þorna í sigti eða á viskastykki.

Lambalundir með parmesan gremolata krömdum kartöflum og sveppasósu með piparosti

Sáldrið ólívuolíu yfir bökunarplötu og leggið kartöfurnar í einföldu lagi á plötuna. Passið að þær liggi allar á ólívuolíunni. Þrýstið botni á skál eða glasi ofan á kartöflurnar þannig að þær kremjist. Sáldrið ólívuolíu yfir og bakið í 30 mínútur, eftir 15 mínútur í ofninum er þeim snúið við.

Lambalundir með parmesan gremolata krömdum kartöflum og sveppasósu með piparosti

Blandið saman söxuðum hvítlauk, hakkaðri steinselju, fínrifnu sítrónuhýði og parmesanosti í skál. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær settar í skál og velt upp úr blöndunni. Berið strax fram.

Sveppasósa með piparosti

  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1/2 l rjómi
  • 1/2-1 piparostur, skorin í smáa bita
  • grænmetisteningur
  • smá cayenne pipar
  • smjör
  • ólívuolía

Bræðið smjör og ólívuolíu saman í potti. Látið sveppina malla í smjörblöndunn í um 5 mínútur (ekki hafa of háan hita). Hellið rjóma yfir og bætið piparosti saman við. Látið sjóða saman við vægan hita um stund. Bætið grænmetisteningi í pottinn og kryddið með örlitlu af cayenne pipar.

Kjúklingur í mildri chili-rjómasósu með krumpuðum kartöflum

Við enduðum helgina með þessum góða kjúklingarétti og krumpuðum kartöflum. Það þarf ekki að hafa mikið fyrir þessum mat og hann var því algjörlega í takt við helgina hjá okkur.

Sósan í þessum kjúklingarétti er æðislega góð og það er kjörið að bera hann fram með pasta eða hrísgrjónum. Mig langaði hins vegar svo mikið í kartöflur og þar sem ég átti fullan poka af þeim urðu þær fyrir valinu í þetta sinn. Þær verða stórgóðar við þessa meðferð, að kremja þær eftir að þær hafa verið soðnar, setja olíu og krydd yfir og leyfa þeim að fá fallegan lit í ofninum. Okkur þótti æði að dýfa þeim í sósuna og hættum ekki fyrr þær voru allar búnar.

Kjúklingur í mildri chili-rjómasósu

  • 900 gr kjúklingabringur
  • paprikukrydd
  • salt
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1 lítill peli rjómi
  • 1-2 kjúklingateningar
  •  1 tsk sambal oelek (fæst t.d. í Bónus, sjá mynd hér að neðan)
  • 2-3 msk chilisósa (t.d. frá Heinz, ekki sweet chilli sósa)
  • salt og pipar
  • ca 2 dl rifinn ostur

Krumpaðar kartöflur

  • kartöflur
  • ólívuolía eða önnur olía
  • salt og jurtakrydd

Hitið ofninn í 200°. Sjóðið kartöflurnar með hýðinu. Skerið bringurnar í tvennt eða þrennt og leggið í eldfast mót. Kryddið með paprikukryddi og salti.

Hrærið saman í potti rjóma, sýrðum rjóma, kjúklingakrafti, chilisósu og sambal oelek og látið suðuna koma upp. Smakkið til með salti og pipar. Hellið heitri sósunni yfir kjúklinginn og setjið í ofninn í ca 20 mínútur. Stráið þá osti yfir réttinn og eldið áfram í ca 15-20 mínútur.

Þegar kartöflurnar eru soðnar er vatninu hellt af og þær lagðar á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Þrýstið á kartöflurnar (ég nota botn á glasi til þess), penslið þær með olíu og kryddið með salti og jurtakryddi. Setjið kartöflurnar í ofninn þar til þær hafa fengið fallegan lit.

Djöflakjúklingur og heimagerðar franskar kartöflur

Dagurinn hefur verið æðislegur í alla staði. Reykjavíkurmaraþonið gekk vel hjá feðgunum og bræðurnir náðu að safna 306 þúsundum fyrir Neistann. Það veitir okkur mikla gleði að það hafi safnast svona mikill peningur fyrir Neistann, félag sem stendur okkur nærri og okkur þykir svo vænt um.

Eftir að hafa eytt deginum í bænum komum við heim og ég eldaði Djöflakjúkling með heimagerðum frönskum kartöflum í kvöldmat. Ég er komin með æði fyrir kryddblöndu í kvörn frá Jamie Oliver sem er með timjan, sítrónu og salti. Ég notaði hana á kartöflurnar og einfaldlega skar þær niður, steikti aðeins á pönnu, lagði í ofnskúffu og kryddaði með saltblöndunni og pipar. Ég bakaði síðan kartöflurnar í ofninum með kjúklingnum.

Í uppskriftinni af Djöflakjúklingnum á að vera brauðmylsna af franskbrauði en ég átti ekki franskbrauð og notaði Paxo brauðrasp í staðinn. Mér fannst ég þurfa mun meira af honum en 1 bolla og var stöðugt að bæta meiri raspi í skálina.

Djöflakjúklingur (uppskrift frá Bon Appétit)

  • 1 bolli hveiti
  • 3 tsk maldon salt
  • 1/4 tsk nýmalaður svartur pipar
  • 2 stór egg
  • 6 msk dijon sinnep
  • 1/2 tsk cayenne pipar
  • 1 bolli brauðmylsna af franskbrauði
  • 3 msk ólivuolía

Hitið ofninn í 190°. Blandið hveiti, 2 tsk af saltinu og svörtum pipar í skál.  Hrærið saman eggjum, dijon sinnepi og cayenne pipar í annari skál. Blandið saman brauðmylsnu og 1 tsk af saltinu saman í þriðju skálina.

Veltið kjúklingabringunum, einni í einu, upp úr hveitiblöndunni og hristið síðan bringuna þannig að auka hveiti falli af. Veltið bringunni næst upp úr eggjablöndunni og að lokum upp úr brauðmysnunni. Leggið bringuna á grind og endurtakið með afganginn af bringunum.

Hitið olíuna á pönnu yfir miðlungsháum hita. Leggið kjúklingabringurnar á pönnuna og steikið þar til hún fær fallegan lit, það ætti að taka um 2-3 mínútur. Snúið kjúklingabringunum við og færið pönnuna í ofninn. Bakið þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn, það ætti að taka um 12 mínútur. Ef þið eigið ekki pönnu sem má fara inn í ofn (ég á sjálf ekki þannig pönnu) þá steikið þið kjúklingabringunar eins á hinni hliðinni og leggið þær síðan í eldfast mót áður en þið setjið þær í ofninn.

Nýtt í eldhúsinu og dásamlegar franskar kartöflur

Á laugardaginn skein sólin og miðbærinn var fullur af lífi. Við röltum um Laugarveginn, fengum okkur núðlusúpu á Skólavörðustígnum og litum í nýju búðina hennar Heru Bjarkar, Púkó & Smart. Búðin er full af fallegum hlutum og má meðal annars finna þar góðgæti frá hinum danska Nicolas Vahé. Mig langaði í allt en lét mér nægja parmesan og basiliku salt í fallegri glerflösku með kvörn á. Síðan kolféll ég fyrir barstólnum sem búðarkonan sat á og fór það svo að við keyptum hann undan rassinum á henni. Hún átti þrjá og við keyptum tvo. Mig hefur lengið langað í hvíta, einfalda barstóla í eldhúsið en ekki fundið þá réttu fyrr en núna og ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvað ég varð hamingjusöm þegar ég sá þá.

Þegar heim var komið var ákveðið að grilla hamborgara. Ég gat ekki beðið með að prófa nýja saltið og ákvað að gera heimagerðar franskar kartöflur til að hafa með hamborgurunum. Það þarf nú ekki að kenna neinum að gera franskar, kartöfurnar voru hreinsaðar og skornar niður, steiktar á pönnu upp úr góðri ólivuolíu til að fá fallega húð á þær og síðan kryddaðar með nýja parmesan og basiliku saltinu og pipar. Herlegheitunum var síðan skellt í heitan ofninn þar til þær voru tilbúnar.