Fajita ofnskúffa

Fajita ofnskúffa

Nú styttist óðum í júróvisjónhelgina og við erum að vonum full tilhlökkunar. Eins og svo oft áður er Öggi með lag í keppninni (með Pétri Erni vini sínum) og mér þykir það vera eitt það fallegasta sem hann hefur samið. Eyþór Ingi syngur lagið og ég fæ gæsahúð í hvert sinn sem ég hlusta á það. Ef þig langar að heyra lagið þá getur þú gert það hér.

Æfing

Annars er ég með uppskrift að fullkomnum júróvisjónmat. Við höfum verið með æði fyrir mexíkóskum mat upp á síðkastið og um síðustu helgi prófaði ég uppskrift frá Rachel Ray. Ég sá hana elda réttinn í sjónvarpinu fyrir mörgum árum en það var þó ekki fyrr en um síðustu helgi að ég loksins lét verða að því að elda hann. Það er óhætt að segja að hann var biðarinnar virði og vel það.

Ég veit að hráefnalistinn er langur en mikið af hráefnunum gætu leynst í skápnum hjá þér. Ekki vera hrædd við kryddmagnið því kryddin fara æðislega vel saman og rétturinn er alls ekki sterkur. Ferskt kóríander og lime gefur honum ferskt bragð sem fer vel með krydduðum kjúklingnum.

Uppskriftin er stór og við nutum góðs af því að getað fengið okkur afganga daginn eftir. Mér þótti þetta frábær réttur sem var einfalt að útbúa og unun að borða. Þetta er því mín tillaga að mat fyrir júróvisjónpartýið.

Fajita ofnskúffa

Fajita ofnskúffa

 • 8 mjúkar tortillakökur
 • Pam sprey
 • 1 msk laukduft
 • 1 msk hvítlauksduft
 • 1 msk cummin
 • 1 tsk kanil
 • 1 msk chiliduft
 • 1 tsk óreganó
 • salt
 • pipar
 • 900 g kjúklingabringur
 • 4 msk ólívuolía
 • 1 flaska mexíkóskur bjór
 • 2 rauðar paprikur
 • 2 rauðlaukar
 • 3-4 hvítlauksrif
 • 2 lime
 • 1/4 bolli hakkað ferskt kóríander
 • 1 bolli rifinn cheddar ostur
 • sýrður rjómi og salsa sósa til að bera fram með

Skerið tortillukökurnar í strimla og setjið á ofnplötu. Spreyið olíu yfir (ég nota PAM) og bakið við 180° í um 10 mínútur. Snúið strimlunum eftir 5 mínútur í ofninum. Takið úr ofninum og leggið til hliðar.

Blandið saman laukdufti, hvítlauksdufti, cummin, kanil, chilidufti, óreganó, salti og pipar. Skerið kjúklinginn í bita og blandið saman við kryddblönduna. Leggið til hliðar.

Sneiðið papriku og rauðlauk og rífið hvítlauk. Steikið við háan hita upp úr  2 msk af ólívuolíu í 3-4 mínútur. Bætið fínrifnu hýði og safa af 1 lime ásamt hökkuðu kóriander á pönnuna og kryddið með salti og pipar. Leggið til hliðar.

Steikið kjúklinginn upp úr 2 msk af ólívuolíu þar til kjúklingurinn er fulleldaður, um 5-6 mínútur. Hellið bjórflösku yfir og látið sjóða í 4-5 mínútur.

Blandið tortillastrimlum, grænmeti og kjúklingi (ásamt vökva ef einhver er) saman í stórt eldfast mót og rífið cheddar ost yfir. Setjið í 200° heitan ofn þar til osturinn er bráðnaður. Berið fram með nachos, sýrðum rjóma, salsasósu og niðurskornu lime.

3 athugasemdir á “Fajita ofnskúffa

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s