Kjúklingatacos undir ostabræðingi

 

Kjúklingatacos undir ostabræðingi

Ég var búin að lofa að sýna nýja ljósið sem prýðir orðið eldhúsið mitt. Sarfatti frá Flos hefur lengi staðið á óskalistanum mínum og hangir nú loksins yfir borðstofuborðinu. Mér þykir það svo fallegt að það nær engri átt.

Kjúklingatacos undir ostabræðingi

Um síðustu helgi eldaði ég kjúklingatacos sem sló í gegn hér heima. Tacokryddaður kjúklingur, paprikur og rauðlaukur undir blöndu af rjómaosti, sýrðum rjóma og cheddarosti. Þið heyrið bara hvað þetta er gott! Það er hægt að bera réttinn fram með í stökkum tacoskeljum, mjúkum tortilla eða bara með salati og nachos. Við settum blönduna í mjúkar tortillur ásamt fínskornu iceberg, salsa sósu, sýrðum rjóma og toppuðum með muldu svörtu Doritos. Súpergott!!

Kjúklingatacos undir ostabræðingi

Kjúklingatacos undir ostabræðingi

  • 900 g kjúklingabringur
  • 2 pokar tacokrydd
  • gul, rauð og græn paprika (1 í hverjum lit)
  • stór rauðlaukur (eða tveir litlir)
  • 200 g rjómaostur
  • 1 dl sýrður rjómi
  • 2 dl rifinn cheddarostur + smá til að setja yfir
  • jalapenos
  • nachos

Hitið ofninn í 225°. Skerið kjúklingabringurnar í strimla, fínhakkið paprikurnar og skerið laukinn í báta. Steikið kjúklinginn og kryddið með tacokryddinu. Bætið paprikum og rauðlauk á pönnuna og steikið í 1 mínútu. Setjið blönduna yfir í eldfast mót. Hrærið saman rjómaosti, sýrðum rjóma og rifnum cheddar osti. Dreifið úr ostablöndunni yfir kjúklingablönduna. Stráið smá cheddar osti yfir ásamt fínhökkuðu jalapeno. Setjið í ofninn í um 15 mínútur, eða þar til osturinn er bráðnaður. Takið út og skreytið með nachos.

Tortillakaka með kjúklingi

Tortillakaka með kjúklingi Það er óhætt að segja að við fengum vætusaman þjóðhátíðardag. Við fórum bæði í miðbæ Reykjavíkur og á Rútstún og eftir því sem leið á daginn ókst rigningin. Við vorum sem betur fer vopnuð regnhlífum sem björguðu okkur. Það var jú svo hlýtt og því varla hægt að kvarta. Ég viðurkenni þó fúslega að það var dásamlegt að koma heim, fara úr blautu fötunum, kveikja á kertum og eyða kvöldinu í sjónvarpssófanum. Tortillakaka með kjúklingiÞjóðhátíðarmaturinn var nú ekki  þjóðlegur en ljúffengur engu að síður. Ég gerði tortillaköku sem var svo góð að ég má til með að gefa ykkur uppskriftina fyrir helgina. Þetta er jú ekta föstudagsmatur! Ég notaði stórar tortillakökur en litlar eru eflaust ekki síðri. Súpergott! Tortillakaka með kjúklingiTortillakaka með kjúklingiTortillakaka með kjúklingi Tortillakaka með kjúklingi (fyrir 4-5)

  • 4 tortillakökur
  • 2 kjúklingabringur
  • 1 laukur
  • 1/2 púrrulaukur
  • 100 g sveppir
  • smjör til að steikja í
  • 1,5 msk jalapenos
  • 175 g chunky salsa (1/2 krukka)
  • 100 g philadelphiaostur
  • 15 svartar ólívur
  • 1-2 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 200°. Skerið kjúklingabringurnar í litla bita, hakkið laukinn, skerið púrrulaukinn í strimla og sveppina í sneiðar. Steikið kjúklinginn í smjöri. Bætið lauk, púrrulauk og sveppum saman við og steikið áfram. Bætið jalapenos, salsa og philadelphiaosti saman við og smakkið til með salti og pipar. Látið sjóða saman í nokkrar mínútur. Raðið tortillakökunum með fyllingunni á milli á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Setjið líka fyllinguna yfir efstu kökuna, setjið síðan ólívur yfir og stráið að lokum osti yfir. Bakið í 15 mínútur eða þar til kakan er heit í gegn og osturinn hefur fengið fallegan lit. Berið fram með salati, salsa, sýrðum rjóma og guacamole.

 

Fajita ofnskúffa

Fajita ofnskúffa

Nú styttist óðum í júróvisjónhelgina og við erum að vonum full tilhlökkunar. Eins og svo oft áður er Öggi með lag í keppninni (með Pétri Erni vini sínum) og mér þykir það vera eitt það fallegasta sem hann hefur samið. Eyþór Ingi syngur lagið og ég fæ gæsahúð í hvert sinn sem ég hlusta á það. Ef þig langar að heyra lagið þá getur þú gert það hér.

Æfing

Annars er ég með uppskrift að fullkomnum júróvisjónmat. Við höfum verið með æði fyrir mexíkóskum mat upp á síðkastið og um síðustu helgi prófaði ég uppskrift frá Rachel Ray. Ég sá hana elda réttinn í sjónvarpinu fyrir mörgum árum en það var þó ekki fyrr en um síðustu helgi að ég loksins lét verða að því að elda hann. Það er óhætt að segja að hann var biðarinnar virði og vel það.

Ég veit að hráefnalistinn er langur en mikið af hráefnunum gætu leynst í skápnum hjá þér. Ekki vera hrædd við kryddmagnið því kryddin fara æðislega vel saman og rétturinn er alls ekki sterkur. Ferskt kóríander og lime gefur honum ferskt bragð sem fer vel með krydduðum kjúklingnum.

Uppskriftin er stór og við nutum góðs af því að getað fengið okkur afganga daginn eftir. Mér þótti þetta frábær réttur sem var einfalt að útbúa og unun að borða. Þetta er því mín tillaga að mat fyrir júróvisjónpartýið.

Fajita ofnskúffa

Fajita ofnskúffa

  • 8 mjúkar tortillakökur
  • Pam sprey
  • 1 msk laukduft
  • 1 msk hvítlauksduft
  • 1 msk cummin
  • 1 tsk kanil
  • 1 msk chiliduft
  • 1 tsk óreganó
  • salt
  • pipar
  • 900 g kjúklingabringur
  • 4 msk ólívuolía
  • 1 flaska mexíkóskur bjór
  • 2 rauðar paprikur
  • 2 rauðlaukar
  • 3-4 hvítlauksrif
  • 2 lime
  • 1/4 bolli hakkað ferskt kóríander
  • 1 bolli rifinn cheddar ostur
  • sýrður rjómi og salsa sósa til að bera fram með

Skerið tortillukökurnar í strimla og setjið á ofnplötu. Spreyið olíu yfir (ég nota PAM) og bakið við 180° í um 10 mínútur. Snúið strimlunum eftir 5 mínútur í ofninum. Takið úr ofninum og leggið til hliðar.

Blandið saman laukdufti, hvítlauksdufti, cummin, kanil, chilidufti, óreganó, salti og pipar. Skerið kjúklinginn í bita og blandið saman við kryddblönduna. Leggið til hliðar.

Sneiðið papriku og rauðlauk og rífið hvítlauk. Steikið við háan hita upp úr  2 msk af ólívuolíu í 3-4 mínútur. Bætið fínrifnu hýði og safa af 1 lime ásamt hökkuðu kóriander á pönnuna og kryddið með salti og pipar. Leggið til hliðar.

Steikið kjúklinginn upp úr 2 msk af ólívuolíu þar til kjúklingurinn er fulleldaður, um 5-6 mínútur. Hellið bjórflösku yfir og látið sjóða í 4-5 mínútur.

Blandið tortillastrimlum, grænmeti og kjúklingi (ásamt vökva ef einhver er) saman í stórt eldfast mót og rífið cheddar ost yfir. Setjið í 200° heitan ofn þar til osturinn er bráðnaður. Berið fram með nachos, sýrðum rjóma, salsasósu og niðurskornu lime.

Mexíkóskur mangókjúklingur

Mér þykir svo gaman að vera með góðan mat á föstudögum og notalegt að byrja helgarfríið á að sitja lengi saman yfir kvöldmatnum. Helst á maturinn að vera þannig að það sé ekki hægt að hætta að borða og að það sé verið að narta allt kvöldið. Ef ég er t.d. með pizzur þá er gengið frá eftir matinn en afgangurinn af pizzunni látinn standa áfram á borðinu. Það er síðan verið að skera sér bita allt kvöldið. Það finnst mér notalegt.

Ég er með mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig mat ég vil hafa á föstudagskvöldum og suma rétti myndi ég alls ekki hafa. Mér þykir t.d. mexíkóskur matur, pizzur og kjúklingur vera ekta föstudagsmatur á meðan t.d. lambalæri, fiskur og grjónagrautur eru það alls ekki. Ég get ekki útskýrt af hverju, svona er þetta bara, en sitt sýnist hverjum.

Í gærkvöldi var ég með ekta föstudagsmat, kjúklingabringur í mexíkóskri mangósósu með hrísgrjónum og góðu salati, sem var að mínu mati fullkomin byrjun á helgarfríinu.

Mexíkóskur mangókjúklingur

  • 4 kjúklingabringur
  • 2-3 tsk tacokrydd
  • 250 gr frosið niðurskorið mangó
  • 4 dl sýrður rjómi
  • 1,5 msk fljótandi kjúklingakraftur eða 1 ½ teningur
  • 2 rauðar paprikur

Hitið ofninn í 200°. Kljúfið kjúklingabringurnar á lengdina. Saltið og piprið og veltið þeim upp úr tacokryddinu. Leggið í smurt eldfast mót.

Blandið mangó, sýrðum rjóma og kjúklingakrafti saman með töfrasprota. Hellið blöndunni yfir kjúklinginn. Skerið paprikuna smátt og stráið yfir. Bakið í ofninum í ca 25 mínútur.

Berið réttin fram með hrísgrjónum og góðu salati með t.d. tómötum, rauðlauk, papriku, avokadó, fetaosti og muldum nachosflögum með kjúklingnum.