Kjúklingur í satay með spínati og fetaosti

Þegar líða fer að helginni berst talið oft að helgarmatnum og hugmyndir fara að fljúga á milli í vinahópnum. Í slíkum pælingum um daginn minntist vinkona mín úr vinnunni á rétt sem maðurinn hennar gerir sem henni þykir svo góður. Ég varð auðvitað ekki róleg fyrr en hún var búin að fá hann til að senda sér uppskriftina. Hann átti eflaust ekki von á að hún myndi enda hér (ég fékk samt leyfi til að birta hana – takk Kalli!) en ég get ekki annað, bæði svo fleiri geta notið og svo ég geti fundið hana aftur.

Þessi kjúklingaréttur er í einu orði sagt æðislegur. Krakkarnir höfðu öll orð á því hvað hann væri svakalega góður og meira að segja Gunnar, sem borðar helst ekki kjúkling, sagðist furða sig á því hvað þetta væri æðislega gott því hann borði nánast ekkert af því sem er í réttinum.

Við vorum 5 í mat og það varð smá afgangur eftir sem Jakob borðaði í morgunmat daginn eftir. Ég bar réttinn fram með brauði, annars hefði hann eflaust klárast upp til agna.

Kjúklingur í satay með spínati og fetaosti (uppskrift fyrir 5)

 • 4 kjúklingabringur
 • 2 dósir sataysósa (mér þykir langbest frá Thai Choice)
 • 1 rauðlaukur
 • 1 dós fetaostur
 • 150-200 g spínat
 • 3 dl kús kús
 • 3 dl vatn

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið í smjöri. Hellið sataysósunni yfir og látið sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur.

Hitið vatn að suðu (mér þykir gott að setja 1 kjúklingatening í vatnið), hrærið kús kús út í, setjið lok á pottinn og takið af hitanum. Látið standa í 5 mínútur.

Setjið kús kús, niðurskorinn rauðlauk, fetaost og spínat út í kjúklinginn og berið fram.

Kjúklingur í panang karrý

Það styttist í helgina og eflaust margir farnir að gera helgarplön. Sjálf sé ég fram á rólega helgi og hafði því hugsað mér að halda áfram að horfa á Big Little Lies. Við erum búin með fyrstu tvo þættina á jafn mörgum vikum og ég búin að lýsa því yfir hér heima að við munum fara langt með seríuna yfir helgina. Nú er því bara að standa við stóru orðin og leggjast í sófann með popp og nammi.

Fyrir þá sem eru að velta helgarmatnum fyrir sér þá mæli ég með þessum kjúklingi í panang karrý sem við vorum með í kvöldmat um daginn. Ég panta mér alltaf panang karrý þegar ég fer á tælenska veitingastaði og fæ ekki leið á því. Þessi réttur er bæði fljótgerður og súpergóður. Ég mæli með að prófa!

Kjúklingur í panang karrý

Panangkarrýmauk

 • 3 msk rautt karrýmauk
 • 1 msk hnetusmjör (creamy)
 • 1/2 tsk kórianderkrydd
 • 1/4 tsk cumin

Rétturinn

 • 1 msk kókosolía
 • 1 skarlottulaukur
 • 1 msk rifið engifer
 • 1 dós kókosmjólk
 • 300-400 g kjúklingalundir eða -bringur, skornar í þunnar sneiðar
 • 1,5 dl vatn
 • 1 kjúklingateningur
 • 2 tsk fiskisósa
 • 1 msk sykur
 • 10 dl blandað grænmeti (t.d. brokkólí, gulrætur, paprika, kartöflur, sveppir, sætar kartöflur…)
 • 170 g hrísgrjónanúðlur, eldaðar eftir leiðbeiningum á pakkningu
 • ferskt kóriander og lime skorið í báta til að bera fram með réttinum
Skerið grænmetið niður og steikið í smá ólívuolíu á pönnu við miðlungsháan hita þar til grænmetið er komið með fallegan lit (3-5 mínútur). Leggið til hliðar.

Hitið olíu á pönnu, bætið skarlottulauknum á pönnuna og mýkið í 3-4 mínútur, eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur og glær. Bætið engifer á pönnuna og steikið í hálfa mínútu áður en 1/4 af kókosmjólkinni er bætt á pönnuna ásamt karrýmaukinu. Steikið saman í 1 mínútu. Bætið kjúklingi á pönnuna og steikið í 2-3 mínútur. Bætið því sem eftir var af kókosmjólkinni ásamt vatninu, kjúklingateningnum, fiskisósunni og sykrinum á pönnuna og látið sjóða saman við vægan hita í 5-10 mínútur. Bætið grænmetinu saman við.

Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakkningu.

Berið réttinn fram með núðlum, fersku kóriander og lime sem hefur verið skorið í báta.

SaveSave

Indverskur Butter Chicken

Indverskur Butter Chicken

Ja hérna hér, vikan leið án þess að nokkur bloggfærsla liti dagsins ljós. Það átti ekki að fara þannig en vikan hreinlega flaug frá mér og áður en ég vissi af var helgin liðin og aftur kominn mánudagur. Þetta eru hálf furðulegir dagar, ég er ekki í sumarfríi en hegða mér eins og ég sé í fríi. Fer allt of seint að sofa og kemst varla á fætur á morgnanna. Fer hálf þreytt í gegnum vinnudaginn og er svo orðin eldhress þegar ég kem heim og næ að endurtaka leikinn. Þegar svo kemur að helginni er ég eins og sprungin blaðra. Sofnaði klukkan 20.30 á föstudagskvöldinu og svaf í einum rykk til 11 morguninn eftir. Geri aðrir betur!

Indverskur Butter ChickenIndverskur Butter Chicken

Á laugardeginum bauð mamma okkur í bröns sem toppaði alla brönsstaði bæjarins og vel það. Hún bauð meðal annars upp á tvíreykt hangikjöt með piparrótarsósu og melónu, nýbakað brauð, ofnbökuð egg sem voru vafin í hráskinku, heitur brauðréttur, laxavefjur og ég veit ekki hvað og hvað. Svo var skálað í cava og í eftirrétt hafði mamma gert hráköku sem hún bar fram með rjóma. Við borðuðum svo yfir okkur að við vorum enn södd um kvöldið og fengum okkur bara eðlu í kvöldmat.

Indverskur Butter Chicken

Í gærkvöldi eldaði ég hins vegar besta indverska kjúklingarétt sem ég hef fengið í langan tíma. Þennan verðið þið að prófa! Diskarnir voru sleiktir og það var ekki svo mikið sem sósudropi eftir af matnum og því óhætt að segja að hann vakti mikla lukku. Ég setti kjúklinginn í marineringu um morguninn en það er líka hægt að gera það kvöldið áður. Síðan bar ég réttinn fram með hrísgrjónum, léttri jógúrtsósu og besta keypta naan-brauði sem ég hef smakkað (frá Stonefire). Með matnum drukkum við bragðmikið Toscana vín, Mediterra. Þvílík veisla!

Indverskur Butter Chicken

Butter chicken (uppskrift fyrir 4-5) – lítillega breytt uppskrift frá Whats Gaby Cooking

 • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri eða -bringur
 • 1 dós grísk jógúrt (350 g)
 • 2 msk sítrónusafi
 • 1 ½ msk túrmerik
 • 2 msk garam masala
 • 2 msk kumin (ath ekki það sama og kúmen)
 • 1 tsk cayenne pipar
 • ½ bolli smjör
 • 1 laukur, hakkaður
 • 4 hvítlauksrif, grófhökkuð
 • 2 msk rifið ferskt engifer
 • 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar
 • ½ bolli vatn
 • 1 kjúklingateningur
 • 7,5 dl rjómi
 • 1 tsk tómat paste
 • salt
 • ferskt kóriander til skrauts

Hrærið saman kjúklingi, grískri jógúrt, sítrónusafa, rúmerik, garam masala, kumin og cayenne pipar í skál. Látið standa í ísskáp yfir nóttu ( það dugar líka yfir daginn).

Hitið stóra pönnu yfir miðlungsháum hita og bræðið smjörið. Hrærið lauknum saman við smjörið og hægeldið þar til laukurinn er orðinn glær (passið að hafa ekki of háan hita). Bætið hvítlauk og engifer á pönnuna og steikið í 2-3 mínútur til viðbótar.  Bætið niðursoðnum tómötum á pönnuna og látið sjóða í 5 mínútur. Bætið kjúklingnum ásamt marineringunni á pönnuna og eldið í 5 mínútur. Bætið vatni og kjúklingateningi á pönnuna, látið suðuna koma upp, lækkið svo hitann og látið sjóða við vægan hita í 30 mínútur. Hrærið rjóma og tómatpaste saman við og látið sjóða í 15 mínútur til viðbótar. Smakkið til með salti og sítrónusafa.

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuÞessi vika hefur að mestu snúist um samræmdu prófin hjá strákunum og við erum því sérlega glöð yfir því að helgin sé framundan. Það er greinilega aðeins of langt síðan ég var í 7. bekk og ég stend í mikilli þakkarskuld við alnetið og þær upplýsingar sem þar má finna þegar ég stend á gati. Ætli ég sé ein um að vera svona ryðguð? Æ, hvað ég eiginlega vona það þó það væri vissulega huggun í að vita af fleirum sem klóra sér í kollinum yfir kenniföllum og rómverskum tölum. Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

Þar sem það styttist í helgina ætla ég að koma með hugmynd að æðislegum helgarmat. Okkur þykir þessi réttur svo dásamlega góður að við borðuðum hann tvisvar í síðustu viku (alveg dagsatt!). Í annað skiptið buðum við mömmu í mat og hún dásamaði hann í bak og fyrir. Við höfum bæði borið réttinn fram með taglatelle og með ofnbökuðum kartöflubátum og salati. Bæði er mjög gott en mér þykir pastað þó standa upp úr. Það er bara eitthvað ómótstæðilegt við kjúklinginn með beikon/steinselju/parmesan hjúpnum og bragðmikilli soðsósunni sem pastað tekur í sig. Svoooo brjálæðislega gott og mín besta tillaga fyrir helgina.

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

 • 4 kjúklingabringur (um 700 g)
 • pipar og salt
 • um 160 g beikonstrimlar
 • 2 dósir sýrður rjómi
 • 1/2 sóló hvítlaukur
 • 1 msk Hunt´s Yellow Mustard
 • 2 msk sojasósa
 • 1-2 kjúklinga- eða grænmetisteningar (mér þykir best að blanda þeim)
 • smá cayenne pipar
 • handfylli af hakkaðri steinselju
 • handfylli af rifnum parmesan

Skerið kjúklingabringurnar í sneiðar og leggið í eldfast mót. Saltið lítillega og piprið. Setjið sýrðan rjóma, teninga, pressaðan hvítlauk, sinnep og sojasósu í pott og látið sjóða saman við vægan hita í nokkrar mínútur. Hellið sósunni yfir kjúklinginn. Steikið beikonstrimla á pönnu og stráið yfir. Stráið að lokum hakkaðri steinselju og rifnum parmesan yfir. Bakið við 175° í 40 mínútur.

Berið fram með tagliatelle, pipar og vel af ferskrifnum parmesan.Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuKjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuKjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuKjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

 

Pulled chicken

Pulled Chicken

Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag var Malín búin að baka bollakökur með súkkulaðikremi. Þær voru svo mjúkar og góðar að ég hefði getað borðað þær allar. Ég elska að koma heim þegar krakkarnir hafa bakað og finnst það vera dásamlegur hversdagslúxus að fá kökubita eftir vinnudaginn.

Pulled ChickenPulled ChickenPulled Chicken

„Pulled pork“ eða rifið svínakjöt hefur verið vinsæll réttur undanfarin ár (þú getur séð uppskriftina sem ég nota hér). Kjötið setjum við ýmist í hamborgarabrauð, tortillavefjur eða tacoskeljar ásamt grænmeti og oftast smá sýrðum rjóma. Það má svo bera herlegheitin fram með góðu salati, kartöfubátum (þessir eru í algjöru uppáhaldi), nachos eða hverju sem er.

Ég prófaði um daginn að skipta svínakjötinu út fyrir kjúkling og var mjög ánægð með útkomuna. Eldunartíminn var mun styttri og eldamennskan gerist varla einfaldari. Við settum kjúklinginn í tortillakökur ásamt káli, rauðri papriku, tómötum, avokadó, kóriander og sýrðum rjóma. Brjálæðislega gott!

Pulled ChickenPulled Chicken

Rifinn kjúklingur

 • 900 g kjúklingabringur
 • 2½ – 3 dl barbeque sósa
 • 1 laukur, skorin í þunna báta
 • paprikuduft
 • olía

Hitið ofninn í 130-140°. Steikið kjúklingabringurnar á pönnu þar til þær eru komnar með smá steikingarhúð. Kryddið með paprikudufti og leggið yfir í eldfast mót eða ofnpott. Sáldrið smá olíu yfir kjúklinginn og setjið laukbátana og barbequesósuna yfir. Setjið lok á ofpottinn eða álpappír yfir eldfasta mótið (þó ekki nauðsynlegt). Eldið í miðjum ofni í um 2½ klst, eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Kjúklingurinn á að detta hæglega í sundur þegar gaffli er stungið í hann. Tætið kjúklinginn í sundur (t.d. með tveimur göfflum) og berið fram.

Kjúklingakúskús með sweet chili

Kjúklingakúskús með sweet chili

Í gærmorgun hélt Öggi til vinnu eftir jólafrí en ég nýt góðs af því að vera í fríi til 2. janúar. Mér þykir það æðislegur lúxus að geta verið hér heima á náttfötunum fram eftir degi með krökkunum í jólafríinu þeirra. Í gær var heldur engin venjulegur dagur því strákarnir áttu afmæli. Við héldum afmælisveislu um síðustu helgi og í gær fórum við út að borða og síðan biðu afmælisgjafir og gleði hér heima eftir það.

Kjúklingakúskús með sweet chili

Við erum búin að eiga yndisleg jól. Höfum borðað mikið, sofið mikið, lesið jólabækurnar, farið út á sleða og í gönguferðir á milli þess sem við klæddum okkur upp og fórum í jólaboð. Núna tek ég árs fríi frá jólamat fagnandi, enda búin að borða yfir mig og vel það af jólamat undanfarna daga. Í kvöld verður kjúklingur hér á borðum og uppskriftin er ekki af verri endanum. Hún kemur úr bók sem ég pantaði mér á netinu fyrir ári síðan og hefur verið mikið notuð síðan þá. Ég mæli svo sannarlega með réttinum enda bæði einfaldur og æðislega góður.

Kjúklingakúskús með sweet chili

Kjúklingakúskús með sweet chili (uppsrift úr Arla kökets bästa)

 • 500 g kjúklingafilé
 • 4 dl vatn
 • 1 teningur kjúklingakraftur
 • 4 dl kúskús
 • 1-2 púrrulaukar
 • 2 hvítlauksrif
 • smjör
 • 2 dl appelsínudjús
 • 3/4 dl sweet chilisósa
 • 1 teningur kjúklingakraftur
 • 1 tsk japönsk sojasósa
 • 2 dl jógúrt án bragðefna
 • salt

Hitið vatn og kjúklingakraft að suðu og hrærið kúskús saman við. Takið potinn af hitanum, setjið lokið á og látið standa í 6 mínútur.

Skerið kjúklinginn í bita og púrrulaukinn í strimla. Afhýðið og hakkið hvítlaukinn. Steikið kjúklinginn í smjöri á pönnu. Takið kjúklinginn af pönnunni þegar hann er steiktur. Setjið hvítlauk og púrrulauk á pönnuna og steikið þar til fer að mýkjast.  Bætið appelsínudjús, sweet chilisósu, kjúklingateningi, sojasósu og kjúklingi á pönnuna. Látið sjóða í nokkrar mínútur. Takið pönnuna af hitanum og hrærið helmingnum af jógúrtinni saman við. Smakkið til með salti.

Hrærið kúskús upp með gaffli. Berið fram með kjúklingnum og því sem eftir var af jógúrtinni.

Mangókjúklingur

Mangókjúklingur

Þá er síðasta vikan fyrir jól runnin upp og ekki seinna vænna en að fara að klára það síðasta fyrir jólin. Við erum búin að því helsta en eigum eftir að versla jólamatinn og skreyta tréið. Gunnar æfir sig af kappi fyrir sína fyrstu jólatónleika í tónlistarskólanum og við hin bíðum spennt eftir að fá að njóta þeirra á fimmtudaginn.

Mangókjúklingur

Við áttum æðislega helgi sem einkenndist af notalegheitum og afslöppun. Við keyptum jólatré, horfðum á jólamyndir, buðum mömmu í aðventukaffi og borðuðum góðan mat. Ég eldaði mangókjúkling sem okkur þótti sérlega góður og krakkarnir voru alsælir með.

Mangókjúklingur

Mangókjúklingur

Uppskriftir af mangókjúklingum hafa verið vinsælar og eflaust eiga flestir sína uppáhalds uppskrift. Ætla ég að bera í barmafullan lækinn og gefa enn eina uppskriftina af mangókjúklingi? Já, svo sannarlega! Þessi uppskrift er nefnilega ekki eins og þær hefðbundu því hún er með sýrðum rjóma (sem gerir alltaf allt svo gott), tómatpuré, epli og hot mango chutney sem gerir réttinn dásamlega bragðgóðan. Verið óhrædd við að nota sterkt mango chutney því sýrði rjóminn mildar það og eftir situr ljúffengt bragð sem er ó, svo gott.

Mangókjúklingur

Mangókjúklingur

 • 500 g kjúklingabringur
 • 1 rauð paprika
 • 1 græn paprika
 • ½ grænt epli
 • salt og pipar
 • 2 msk tómatpuré
 • 1 msk hveiti
 • 1 dós sýrður rjómi (2 dl.)
 • 1 krukka hot mango chutney (2,5 dl.)
 • 2 dl mjólk
 • 1 kjúklingateningur

Skerið kjúklingabringur og grænmeti í bita. Steikið kjúklinginn í smjöri eða olíu við háan hita. Saltið og piprið. Bæti paprikum og epli á pönnuna og steikið áfram í nokkrar mínútur. Bætið tómatpuré á pönnuna, stráið hveiti yfir og blandið saman þannig að hveitið verði ekki að kekkjum. Setjið sýrðan rjóma, mango chutney, mjólk og kjúklingateningi á pönnuna og látið sjóða við vægan hita þar til kjúklingurinn er fulleldaður, 5-10 mínútur.

Berið fram með hrísgrjónum og/eða salati.

Bangkok-kjúklingur

Bangkok-kjúklingur Önnur stutt vinnuvika með frídegi í miðri viku framundan. Þetta verður skemmtileg vika því Malín verður 15 ára á föstudaginn. Hún fagnar hverju afmæli líkt og um stórafmæli sé að ræða og mér sýnist stefna í æðisleg veisluhöld. En hvað með ykkur? Eru þið farin að huga að kvöldverði fyrir annað kvöld? Ef svo er þá luma ég á stórgóðri tillögu! Bangkok-kjúklingur Mér þykir merkilegt hvað ég get stundum horft lengi á uppskriftir áður en ég ákveð að prófa þær og þannig var það einmitt með þessa uppskrift. Það eru margar vikur síðan ég sá hana fyrst og hún hefur varla vikið úr huga mínum síðan. Í gærkvöldi lét ég loks verða að því að prófa uppskriftina sem reyndist svo æðislega góð að það var rifist um að fá að taka afganginn með í nesti í dag.

Bangkok-kjúklingur

Ég breytti uppskriftinni svo lítillega að það er varla til að tala um. Í upphaflegu uppskriftinni var grillaður kjúklingur sem ég skipti út fyrir kjúklingabringur og svo bætti ég sætri kartöflu og smá hvítlauk í. Hamingjan hjálpi mér hvað þetta var gott. Ég mæli með að þið prófið.

Bangkok-kjúklingur (uppskrift frá Kokaihop)

 • 1 kg kjúklingabringur
 • 1 rauðlaukur
 • 1 græn paprika
 • 3 hvítlauksrif
 • 1/2 sæt kartafla
 • 1 tsk sambal oelek
 • 0,75 dl mango chutney
 • 1,5 msk sweet chillisósa
 • 1 grænmetisteningur
 • 0,5 l. matreiðslurjómi

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu. Leggið til hliðar.

Skerið rauðlauk, papriku og sætu kartöfluna í bita og fínhakkið hvítlaukinn. Steikið rauðlauk, papriku og hvítlauk í olíu við miðlungsháan hita. Setjið sambal oelek á pönnuna og hrærið saman við grænmetið. Setjið rjóma, mango chutney, sweet chillisósu, grænmetistening, sæta kartöflubita og kjúklinginn á pönnuna og látið sjóða þar til kartöflurnar eru mjúkar.

Berið fram með hrísgrjónum.

Fajita ofnskúffa

Fajita ofnskúffa

Nú styttist óðum í júróvisjónhelgina og við erum að vonum full tilhlökkunar. Eins og svo oft áður er Öggi með lag í keppninni (með Pétri Erni vini sínum) og mér þykir það vera eitt það fallegasta sem hann hefur samið. Eyþór Ingi syngur lagið og ég fæ gæsahúð í hvert sinn sem ég hlusta á það. Ef þig langar að heyra lagið þá getur þú gert það hér.

Æfing

Annars er ég með uppskrift að fullkomnum júróvisjónmat. Við höfum verið með æði fyrir mexíkóskum mat upp á síðkastið og um síðustu helgi prófaði ég uppskrift frá Rachel Ray. Ég sá hana elda réttinn í sjónvarpinu fyrir mörgum árum en það var þó ekki fyrr en um síðustu helgi að ég loksins lét verða að því að elda hann. Það er óhætt að segja að hann var biðarinnar virði og vel það.

Ég veit að hráefnalistinn er langur en mikið af hráefnunum gætu leynst í skápnum hjá þér. Ekki vera hrædd við kryddmagnið því kryddin fara æðislega vel saman og rétturinn er alls ekki sterkur. Ferskt kóríander og lime gefur honum ferskt bragð sem fer vel með krydduðum kjúklingnum.

Uppskriftin er stór og við nutum góðs af því að getað fengið okkur afganga daginn eftir. Mér þótti þetta frábær réttur sem var einfalt að útbúa og unun að borða. Þetta er því mín tillaga að mat fyrir júróvisjónpartýið.

Fajita ofnskúffa

Fajita ofnskúffa

 • 8 mjúkar tortillakökur
 • Pam sprey
 • 1 msk laukduft
 • 1 msk hvítlauksduft
 • 1 msk cummin
 • 1 tsk kanil
 • 1 msk chiliduft
 • 1 tsk óreganó
 • salt
 • pipar
 • 900 g kjúklingabringur
 • 4 msk ólívuolía
 • 1 flaska mexíkóskur bjór
 • 2 rauðar paprikur
 • 2 rauðlaukar
 • 3-4 hvítlauksrif
 • 2 lime
 • 1/4 bolli hakkað ferskt kóríander
 • 1 bolli rifinn cheddar ostur
 • sýrður rjómi og salsa sósa til að bera fram með

Skerið tortillukökurnar í strimla og setjið á ofnplötu. Spreyið olíu yfir (ég nota PAM) og bakið við 180° í um 10 mínútur. Snúið strimlunum eftir 5 mínútur í ofninum. Takið úr ofninum og leggið til hliðar.

Blandið saman laukdufti, hvítlauksdufti, cummin, kanil, chilidufti, óreganó, salti og pipar. Skerið kjúklinginn í bita og blandið saman við kryddblönduna. Leggið til hliðar.

Sneiðið papriku og rauðlauk og rífið hvítlauk. Steikið við háan hita upp úr  2 msk af ólívuolíu í 3-4 mínútur. Bætið fínrifnu hýði og safa af 1 lime ásamt hökkuðu kóriander á pönnuna og kryddið með salti og pipar. Leggið til hliðar.

Steikið kjúklinginn upp úr 2 msk af ólívuolíu þar til kjúklingurinn er fulleldaður, um 5-6 mínútur. Hellið bjórflösku yfir og látið sjóða í 4-5 mínútur.

Blandið tortillastrimlum, grænmeti og kjúklingi (ásamt vökva ef einhver er) saman í stórt eldfast mót og rífið cheddar ost yfir. Setjið í 200° heitan ofn þar til osturinn er bráðnaður. Berið fram með nachos, sýrðum rjóma, salsasósu og niðurskornu lime.