Bangkok-kjúklingur

Bangkok-kjúklingur Önnur stutt vinnuvika með frídegi í miðri viku framundan. Þetta verður skemmtileg vika því Malín verður 15 ára á föstudaginn. Hún fagnar hverju afmæli líkt og um stórafmæli sé að ræða og mér sýnist stefna í æðisleg veisluhöld. En hvað með ykkur? Eru þið farin að huga að kvöldverði fyrir annað kvöld? Ef svo er þá luma ég á stórgóðri tillögu! Bangkok-kjúklingur Mér þykir merkilegt hvað ég get stundum horft lengi á uppskriftir áður en ég ákveð að prófa þær og þannig var það einmitt með þessa uppskrift. Það eru margar vikur síðan ég sá hana fyrst og hún hefur varla vikið úr huga mínum síðan. Í gærkvöldi lét ég loks verða að því að prófa uppskriftina sem reyndist svo æðislega góð að það var rifist um að fá að taka afganginn með í nesti í dag.

Bangkok-kjúklingur

Ég breytti uppskriftinni svo lítillega að það er varla til að tala um. Í upphaflegu uppskriftinni var grillaður kjúklingur sem ég skipti út fyrir kjúklingabringur og svo bætti ég sætri kartöflu og smá hvítlauk í. Hamingjan hjálpi mér hvað þetta var gott. Ég mæli með að þið prófið.

Bangkok-kjúklingur (uppskrift frá Kokaihop)

 • 1 kg kjúklingabringur
 • 1 rauðlaukur
 • 1 græn paprika
 • 3 hvítlauksrif
 • 1/2 sæt kartafla
 • 1 tsk sambal oelek
 • 0,75 dl mango chutney
 • 1,5 msk sweet chillisósa
 • 1 grænmetisteningur
 • 0,5 l. matreiðslurjómi

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu. Leggið til hliðar.

Skerið rauðlauk, papriku og sætu kartöfluna í bita og fínhakkið hvítlaukinn. Steikið rauðlauk, papriku og hvítlauk í olíu við miðlungsháan hita. Setjið sambal oelek á pönnuna og hrærið saman við grænmetið. Setjið rjóma, mango chutney, sweet chillisósu, grænmetistening, sæta kartöflubita og kjúklinginn á pönnuna og látið sjóða þar til kartöflurnar eru mjúkar.

Berið fram með hrísgrjónum.

11 athugasemdir á “Bangkok-kjúklingur

 1. Sæl, eldaði þennan rétt í kvöld, fékk reyndar ekki sambal oelek en þetta var engu að síður mjög gott. Takk fyrir okkur 🙂 Emma

 2. Ég eldaði þennan dásemdarrétt í kvöld og hann sló rækilega í gegn. Mikið svakalega var hann ljúffengur og bragðgóður – við gátum varla hætt að borða 🙂 Þessi er kominn á lista yfir uppáhalds kjúklingaréttina. Þúsund þakkir!

 3. Rosalega góður réttur ! Það eina sem vantaði með þessu var baguette brauðið til að sleikja sósuna af diskunum 🙂 Takk fyrir frábærar uppskriftir !

 4. Eldaði þennan rétt í gær og hann var dásamlega góður! Sló í gegn hjá krökkunum líka. Takk fyrir uppskriftina 🙂

 5. Þessi var mjög góður en það besta við hann var að kynnast sambal oelek því það hefur síðan verið notað í fiskirétti, eggjakökur og pasta á þessu heimili 😉

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s