Mangókjúklingur

Mangókjúklingur

Þá er síðasta vikan fyrir jól runnin upp og ekki seinna vænna en að fara að klára það síðasta fyrir jólin. Við erum búin að því helsta en eigum eftir að versla jólamatinn og skreyta tréið. Gunnar æfir sig af kappi fyrir sína fyrstu jólatónleika í tónlistarskólanum og við hin bíðum spennt eftir að fá að njóta þeirra á fimmtudaginn.

Mangókjúklingur

Við áttum æðislega helgi sem einkenndist af notalegheitum og afslöppun. Við keyptum jólatré, horfðum á jólamyndir, buðum mömmu í aðventukaffi og borðuðum góðan mat. Ég eldaði mangókjúkling sem okkur þótti sérlega góður og krakkarnir voru alsælir með.

Mangókjúklingur

Mangókjúklingur

Uppskriftir af mangókjúklingum hafa verið vinsælar og eflaust eiga flestir sína uppáhalds uppskrift. Ætla ég að bera í barmafullan lækinn og gefa enn eina uppskriftina af mangókjúklingi? Já, svo sannarlega! Þessi uppskrift er nefnilega ekki eins og þær hefðbundu því hún er með sýrðum rjóma (sem gerir alltaf allt svo gott), tómatpuré, epli og hot mango chutney sem gerir réttinn dásamlega bragðgóðan. Verið óhrædd við að nota sterkt mango chutney því sýrði rjóminn mildar það og eftir situr ljúffengt bragð sem er ó, svo gott.

Mangókjúklingur

Mangókjúklingur

  • 500 g kjúklingabringur
  • 1 rauð paprika
  • 1 græn paprika
  • ½ grænt epli
  • salt og pipar
  • 2 msk tómatpuré
  • 1 msk hveiti
  • 1 dós sýrður rjómi (2 dl.)
  • 1 krukka hot mango chutney (2,5 dl.)
  • 2 dl mjólk
  • 1 kjúklingateningur

Skerið kjúklingabringur og grænmeti í bita. Steikið kjúklinginn í smjöri eða olíu við háan hita. Saltið og piprið. Bæti paprikum og epli á pönnuna og steikið áfram í nokkrar mínútur. Bætið tómatpuré á pönnuna, stráið hveiti yfir og blandið saman þannig að hveitið verði ekki að kekkjum. Setjið sýrðan rjóma, mango chutney, mjólk og kjúklingateningi á pönnuna og látið sjóða við vægan hita þar til kjúklingurinn er fulleldaður, 5-10 mínútur.

Berið fram með hrísgrjónum og/eða salati.

Bangkok-kjúklingur

Bangkok-kjúklingur Önnur stutt vinnuvika með frídegi í miðri viku framundan. Þetta verður skemmtileg vika því Malín verður 15 ára á föstudaginn. Hún fagnar hverju afmæli líkt og um stórafmæli sé að ræða og mér sýnist stefna í æðisleg veisluhöld. En hvað með ykkur? Eru þið farin að huga að kvöldverði fyrir annað kvöld? Ef svo er þá luma ég á stórgóðri tillögu! Bangkok-kjúklingur Mér þykir merkilegt hvað ég get stundum horft lengi á uppskriftir áður en ég ákveð að prófa þær og þannig var það einmitt með þessa uppskrift. Það eru margar vikur síðan ég sá hana fyrst og hún hefur varla vikið úr huga mínum síðan. Í gærkvöldi lét ég loks verða að því að prófa uppskriftina sem reyndist svo æðislega góð að það var rifist um að fá að taka afganginn með í nesti í dag.

Bangkok-kjúklingur

Ég breytti uppskriftinni svo lítillega að það er varla til að tala um. Í upphaflegu uppskriftinni var grillaður kjúklingur sem ég skipti út fyrir kjúklingabringur og svo bætti ég sætri kartöflu og smá hvítlauk í. Hamingjan hjálpi mér hvað þetta var gott. Ég mæli með að þið prófið.

Bangkok-kjúklingur (uppskrift frá Kokaihop)

  • 1 kg kjúklingabringur
  • 1 rauðlaukur
  • 1 græn paprika
  • 3 hvítlauksrif
  • 1/2 sæt kartafla
  • 1 tsk sambal oelek
  • 0,75 dl mango chutney
  • 1,5 msk sweet chillisósa
  • 1 grænmetisteningur
  • 0,5 l. matreiðslurjómi

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu. Leggið til hliðar.

Skerið rauðlauk, papriku og sætu kartöfluna í bita og fínhakkið hvítlaukinn. Steikið rauðlauk, papriku og hvítlauk í olíu við miðlungsháan hita. Setjið sambal oelek á pönnuna og hrærið saman við grænmetið. Setjið rjóma, mango chutney, sweet chillisósu, grænmetistening, sæta kartöflubita og kjúklinginn á pönnuna og látið sjóða þar til kartöflurnar eru mjúkar.

Berið fram með hrísgrjónum.