Mér þykir alltaf verða ákveðin kaflaskil þegar verslunarmannahelgin er að baki. Þá er haustið handan við hornið og allt að fara í gang aftur. Krakkarnir fara að huga að skólasetningu og tómstundum vetrarins á meðan ég bíð með eftirvæntingu eftir að lífið falli í sína hversdagslegu rútínu.
Það er búið að vera svolítið um skyndilausnir í eldhúsinu hjá mér upp á síðkastið. Matur sem okkur þykir góður en tekur lítinn tíma að útbúa. Uppskriftir sem er sniðugt að grípa til þegar boðið er í mat án þess að hafa tíma til að undirbúa matarboðið. Þannig var það einmitt með þennan rétt. Ég var enga stund að reiða hann fram þegar ég hafði boðið í mat hér eitt kvöldið og allir voru ánægðir með matinn. Jakob var svo ánægður að hann borðaði afganginn í morgunmat daginn eftir og hefðu glaður viljað fleiri diska.
Butter chicken (uppskrift fyrir 4-5)
- 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (eða kjúklingabringur)
- 1 laukur
- 1/2 spergilkálhaus
- 1 krukka Butter chicken sósa frá Patak´s
- 1-2 tsk karrý
- 1 grænmetisteningur
- 2-3 msk mangó chutney
Skerið kjúklinginn í bita, laukinn í báta og spergilkálið í bita. Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er steiktur á öllum hliðum, bætið þá lauknum á pönnuna og steikið áfram þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið sósu, spergilkáli, karrý, grænmetisteningi og mangó chuthey á pönnuna og látið sjóða við vægan hita þar til kjúklingurinn er fulleldaður og spergilkálið orðið mjúkt.
Berið fram með hrísgrjónum og nan-brauði.