Butter chicken

Butter chickenMér þykir alltaf verða ákveðin kaflaskil þegar verslunarmannahelgin er að baki. Þá er haustið handan við hornið og allt að fara í gang aftur. Krakkarnir fara að huga að skólasetningu og tómstundum vetrarins á meðan ég bíð með eftirvæntingu eftir að lífið falli í sína hversdagslegu rútínu.

Butter chickenButter chicken

Það er búið að vera svolítið um skyndilausnir í eldhúsinu hjá mér upp á síðkastið. Matur sem okkur þykir góður en tekur lítinn tíma að útbúa. Uppskriftir sem er sniðugt að grípa til þegar boðið er í mat án þess að hafa tíma til að undirbúa matarboðið. Þannig var það einmitt með þennan rétt. Ég var enga stund að reiða hann fram þegar ég hafði boðið í mat hér eitt kvöldið og allir voru ánægðir með matinn.  Jakob var svo ánægður að hann borðaði afganginn í morgunmat daginn eftir og hefðu glaður viljað fleiri diska.

Butter chicken

Butter chicken (uppskrift fyrir 4-5)

 • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (eða kjúklingabringur)
 • 1 laukur
 • 1/2 spergilkálhaus
 • 1 krukka Butter chicken sósa frá Patak´s
 • 1-2 tsk karrý
 • 1 grænmetisteningur
 • 2-3 msk mangó chutney

Skerið kjúklinginn í bita, laukinn í báta og spergilkálið í bita. Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er steiktur á öllum hliðum, bætið þá lauknum á pönnuna og steikið áfram þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið sósu, spergilkáli, karrý, grænmetisteningi og mangó chuthey á pönnuna og látið sjóða við vægan hita þar til kjúklingurinn er fulleldaður og spergilkálið orðið mjúkt.

Butter chicken

Berið fram með hrísgrjónum og nan-brauði.

Bangkok-kjúklingur

Bangkok-kjúklingur Önnur stutt vinnuvika með frídegi í miðri viku framundan. Þetta verður skemmtileg vika því Malín verður 15 ára á föstudaginn. Hún fagnar hverju afmæli líkt og um stórafmæli sé að ræða og mér sýnist stefna í æðisleg veisluhöld. En hvað með ykkur? Eru þið farin að huga að kvöldverði fyrir annað kvöld? Ef svo er þá luma ég á stórgóðri tillögu! Bangkok-kjúklingur Mér þykir merkilegt hvað ég get stundum horft lengi á uppskriftir áður en ég ákveð að prófa þær og þannig var það einmitt með þessa uppskrift. Það eru margar vikur síðan ég sá hana fyrst og hún hefur varla vikið úr huga mínum síðan. Í gærkvöldi lét ég loks verða að því að prófa uppskriftina sem reyndist svo æðislega góð að það var rifist um að fá að taka afganginn með í nesti í dag.

Bangkok-kjúklingur

Ég breytti uppskriftinni svo lítillega að það er varla til að tala um. Í upphaflegu uppskriftinni var grillaður kjúklingur sem ég skipti út fyrir kjúklingabringur og svo bætti ég sætri kartöflu og smá hvítlauk í. Hamingjan hjálpi mér hvað þetta var gott. Ég mæli með að þið prófið.

Bangkok-kjúklingur (uppskrift frá Kokaihop)

 • 1 kg kjúklingabringur
 • 1 rauðlaukur
 • 1 græn paprika
 • 3 hvítlauksrif
 • 1/2 sæt kartafla
 • 1 tsk sambal oelek
 • 0,75 dl mango chutney
 • 1,5 msk sweet chillisósa
 • 1 grænmetisteningur
 • 0,5 l. matreiðslurjómi

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu. Leggið til hliðar.

Skerið rauðlauk, papriku og sætu kartöfluna í bita og fínhakkið hvítlaukinn. Steikið rauðlauk, papriku og hvítlauk í olíu við miðlungsháan hita. Setjið sambal oelek á pönnuna og hrærið saman við grænmetið. Setjið rjóma, mango chutney, sweet chillisósu, grænmetistening, sæta kartöflubita og kjúklinginn á pönnuna og látið sjóða þar til kartöflurnar eru mjúkar.

Berið fram með hrísgrjónum.

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Í dag er engin venjulegur dagur því hér fögnum við stórafmæli. Það er ótrúlegt að liðin séu 10 ár síðan við Öggi keyrðum snemma morguns á fæðingadeildina í Uppsölum. Ég man að við stoppuðum á ljósum á leiðinni og mér var litið á bílana í kringum okkur og sagði við Ögga; „Hugsa sér, hér er allt þetta fólk á leið til vinnu en við erum að fara að eignast tvö börn“. Lítið vissum við hvað biði okkar og hversu óendanlega mikla gleði þessir bræður ættu eftir að færa okkur.

Við fögnuðum deginum að ósk afmælisbarnanna á Hamborgarafabrikunni. Um helgina verður afmælisboð og þeir hafa beðið um að hafa mexíkóska kjúklingasúpu og kökur í eftirrétt.

Desembermánður hefur verið sá annasamasti sem ég man eftir og mér finnst ég varla hafa gert neitt af viti í eldhúsinu. Ég eldaði þó æðislegan kjúklingarétt um daginn sem ég átti eftir að setja inn. Þessi réttur sló í gegn á heimilinu og við mælum heilshugar með honum.

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

 • 600 g kjúklingabringur (eða úrbeinað kjúklingalæri)
 • 2 dl sýrður rjómi
 • 75 g marineraðir sólþurrkaðir tómatar + 1 tsk olía
 • 1 tsk salt + 3/4 tsk salt
 • ferskmalaður pipar
 • 1 lítill púrrulaukur
 • 1 msk + 1 msk olía
 • 1 dl vatn

Hitið ofninn í 200°. Mixið sýrðum rjóma, sólþurrkuðum tómötum og 1 tsk af olíunni af tómötunum saman með töfrasprota. Kryddið með 1 tsk salti og nokkrum snúningum úr piparkvörninni. Fletjið bringurnar út (ef þær eru mjög þykkar getur verið gott að kljúfa þær) og setjið 1/3 af tómatamaukinu á þær. Rúllið bringunum upp og festið með tannstöngli. Kryddið með 3/4 tsk salti og smá pipar og brúnið á pönnu í 1 msk af olíu  þannig að bringurnar fái fallegan lit. Setjið kjúklinginn í eldfast mót og setjið í ofninn í ca 10 mínútur.

Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er sósan útbúin. Hreinsið púrrulaukinn, kljúfið hann og skerið í þunnar sneiðar. Steikið púrrulaukinn í 1 msk af olíu í ca 3 mínútur. Bætið því sem eftir var af tómatmaukinu á pönnuna ásamt vatni og látið sjóða saman í ca 1 mínútu.  Takið kjúklinginn úr ofninum og hellið sósunni yfir hann. Setjið aftur í ofninn þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn, eða ca 10 mínútur.

Berið kjúklinginn fram með pasta og ruccola eða spínati.

Ofnbakaður kjúklingur með sólþurrkuðum tómötum

Marineraður kjúklingur í rjómasósu

Ég hef náð að gera ýmislegt yfir helgina. Ég kláraði loksins húfu sem ég hef verið að prjóna á Gunnar og nú vill Jakob eins. Ég ætla því að skjótast á morgun eftir meira garni og hefjast handa á ný.

Ég keypti nóvemberkaktus og koralkaktus og setti í fallegu blómapottana frá Greengate. Ég krosslegg fingur og vona að þeir lifi.

Ég keypti erikur og setti fyrir framan hús. Ég vildi hvítar eins og venjulega en Malín náði að tala mig inn á bleikar. Henni þóttu þær haustlegri.

Ég bakaði brauð í morgun á meðan fjölskyldan svaf. Það var dásamlegt að setjast niður saman og borða nýbakað brauð í morgunmat. Uppskriftin var ný og ég lofa að setja hana inn á morgun.

Ég bakaði stóra uppskrift af Silvíuköku. Þessi kaka hverfur alltaf um leið og hún kemur úr ofninum svo það hentar vel að stækka uppskriftina og baka hana í ofnskúffunni.

Að lokum eldaði ég frábæran kjúklingarétt sem ég ætla að enda færsluna á. Krakkarnir elskuðu hann og gáfu honum 9,9 í einkunn. Við Öggi tókum undir með þeim og borðuðum þar til ekkert var eftir.

Marineraður kjúklingur í rjómasósu

Marinering:

 • 6 kjúklingabringur
 • 0,5 dl sojasósa
 • 2 msk hvítvínsedik
 • fullt af klipptri steinselju
 • 1 hakkað hvítlauksrif

Blandið saman öllum hráefnunum í marineringuna og leggið kjúklingabringurnar í (ég skar bringurnar gróflega niður). Látið liggja í marineringunni yfir nóttu eða amk 6 klst. Látið allt í eldfast mót og bakið við 175°í 30-50 mínútur (eftir stærð á kjúklingabringunum).

Hellið vökvanum/marineringunni frá í skál í gegnum sigti.

Sósa:

 • 2 dl sýrður rjómi
 • 3 dl rjómi
 • 0,5 dl marinering eða meira (smakkið til, mér þykir best að nota alla marineringuna)
 • pipar og salt
 • maizena

Sjóðið saman öll hráefnin í sósunni. Smakkið til með marineringu, salti og pipar. Þykkið sósuna með maizena. Setjið annað hvort kjúklinginn í pottinn og látið sjóða saman um stund eða látið kjúklinginn ásamt sósunni í eldfast mót og hitið í ofni.

Berið fram með hrísgrjónum og góðu salati.