Í gærmorgun hélt Öggi til vinnu eftir jólafrí en ég nýt góðs af því að vera í fríi til 2. janúar. Mér þykir það æðislegur lúxus að geta verið hér heima á náttfötunum fram eftir degi með krökkunum í jólafríinu þeirra. Í gær var heldur engin venjulegur dagur því strákarnir áttu afmæli. Við héldum afmælisveislu um síðustu helgi og í gær fórum við út að borða og síðan biðu afmælisgjafir og gleði hér heima eftir það.
Við erum búin að eiga yndisleg jól. Höfum borðað mikið, sofið mikið, lesið jólabækurnar, farið út á sleða og í gönguferðir á milli þess sem við klæddum okkur upp og fórum í jólaboð. Núna tek ég árs fríi frá jólamat fagnandi, enda búin að borða yfir mig og vel það af jólamat undanfarna daga. Í kvöld verður kjúklingur hér á borðum og uppskriftin er ekki af verri endanum. Hún kemur úr bók sem ég pantaði mér á netinu fyrir ári síðan og hefur verið mikið notuð síðan þá. Ég mæli svo sannarlega með réttinum enda bæði einfaldur og æðislega góður.
Kjúklingakúskús með sweet chili (uppsrift úr Arla kökets bästa)
- 500 g kjúklingafilé
- 4 dl vatn
- 1 teningur kjúklingakraftur
- 4 dl kúskús
- 1-2 púrrulaukar
- 2 hvítlauksrif
- smjör
- 2 dl appelsínudjús
- 3/4 dl sweet chilisósa
- 1 teningur kjúklingakraftur
- 1 tsk japönsk sojasósa
- 2 dl jógúrt án bragðefna
- salt
Hitið vatn og kjúklingakraft að suðu og hrærið kúskús saman við. Takið potinn af hitanum, setjið lokið á og látið standa í 6 mínútur.
Skerið kjúklinginn í bita og púrrulaukinn í strimla. Afhýðið og hakkið hvítlaukinn. Steikið kjúklinginn í smjöri á pönnu. Takið kjúklinginn af pönnunni þegar hann er steiktur. Setjið hvítlauk og púrrulauk á pönnuna og steikið þar til fer að mýkjast. Bætið appelsínudjús, sweet chilisósu, kjúklingateningi, sojasósu og kjúklingi á pönnuna. Látið sjóða í nokkrar mínútur. Takið pönnuna af hitanum og hrærið helmingnum af jógúrtinni saman við. Smakkið til með salti.
Hrærið kúskús upp með gaffli. Berið fram með kjúklingnum og því sem eftir var af jógúrtinni.
Ég gerði þennan rétt í gær og hann verður pottþétt eldaður aftur! Fljótlegur, einfaldur og bragðgóður 😀 allir sáttir á mínu heimili.
Kúskús þykir afskaaaaplega vont og ógeðslegt í munni, er ekki hægt að nota bara grjón í staðinn?
Kúskús þykir mér afskaaaaplega vont og ógeðslegt í munni, er ekki hægt að nota bara grjón í staðinn?
Notarðu óblandaðan appelsínudjús eða trópí ?